Veiran sem nú skekur heimsbyggðina mun hafa veruleg áhrif á heimshagkerfið. Það er þó erfitt að reyna að spá fyrir um áhrifin, meðal annars vegna þess hve mikil óvissa er um hvernig útbreiðsla veirunnar mun þróast, hve margir munu smitast og hvenær faraldurinn verður genginn yfir. Þá liggja ekki fyrir skýr svör um þætti eins og dánartíðni eða hvort hægt er að vinna að einhverju marki gegn veikindum með lyfjum sem þegar eru til og hafa verið þróuð vegna annarra sjúkdóma. Einhverjar vísbendingar eru um að nokkur slík lyf komi að einhverju gagni en myndin er enn óljós. Nokkuð ljóst virðist hins vegar að langt er í nothæft bóluefni. Um það virðast allir sérfróðir vera sammála. Loks liggur ekki fyrir til hvaða aðgerða stjórnvöld í einstökum löndum munu grípa til og hver áhrif þeirra verða.
Myndin af vandanum sem mannkyn stendur frammi fyrir breytist því frá degi til dags. Hún mun smám saman skýrast, þegar skilningur manna á faraldrinum og veirunni eykst og þegar reynsla verður komin á aðgerðir sem gripið hefur verið til. Þegar sú mynd skýrist verður líka hægt að draga upp skýrari mynd af efnahagsafleiðingunum. Þessi grein verður því án efa úrelt fljótt – en einhvers staðar verður að byrja.
Sviðsmyndir
Til að reyna að átta sig á vandanum er þó hægt að vinna með sviðsmyndir um útbreiðslu faraldursins. Sá sem þetta ritar er enginn faraldursfræðingur, hefur raunar, eins og líklega flestir, afar yfirborðskennda þekkingu á þeirri fræðigrein, þótt áhuginn sé mikill um þessar mundir! Það verður því að treysta á aðra fróðari um þá hlið málsins. Við hin reynum að læra hratt og fylgjum leiðbeiningum þeirra sem best vita.
„Stjórnvöld í Þýskalandi hafa til dæmis miðað við að á bilinu 60-70% þjóðarinnar geti smitast“
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa til dæmis miðað við að á bilinu 60-70% þjóðarinnar geti smitast áður en yfir lýkur. Í Bretlandi hafa enn hærri tölur verið nefndar, allt að 80%. Þegar svo margir hafa myndað ónæmi gegn veirunni ætti faraldurinn deyja út. Lykilatriði er vitaskuld að meðan sérhvert smit leiðir til fleiri en eins nýs smits fjölgar sífellt smituðum en ef hver smitaður smitar færri en einn nýjan deyr faraldurinn út. Þegar margir eru orðnir ónæmir getur hver sá sem smitast ekki smitað jafnmarga aðra og ella. Vonandi er þessar sviðsmyndir of svartsýnar en hér verður þó ekki lagt neitt mat á það.
Aðrir eru bjartsýnni og byggja það meðal annars á þeim árangri sem náðist í Kína við að hefta útbreiðslu veirunnar. Það er líka áhugavert að á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, þar sem hátt í fjögur þúsund manns voru saman í litlu rými vikum saman, greindust tæplega 20% af farþegum og áhöfn með veiruna þegar þeim var loks hleypt frá borði. Helmingur þeirra sýndi engin einkenni, þ.e. varð ekki veikur.
Hagræn áhrif fara vitaskuld meðal annars eftir því hve margir smitast en ekki síður hve langan tíma tekur fyrir faraldurinn að ganga yfir. Fyrir heilbrigðiskerfið – og þar með dánartíðni – er mjög mikilvægt að það taki langan tíma. Því er allt gert sem hægt er til að hægja á útbreiðslu faraldursins. Veikist of margir í einu, sérstaklega fólk sem er í áhættuhópum og verður líklega alvarlega veikt, ræður heilbrigðiskerfið illa við það, líkt og við höfum til dæmis séð á Ítalíu undanfarnar vikur.
Við vitum ekki nú hvernig það mun takast að tempra og hægja á útbreiðslu veirunnar. Víða virðast þó yfirvöld miða við að það versta verði afstaðið fyrri hluta sumars, eftir kannski þrjá til fjóra mánuði. Það er meðal annars byggt á því að hefðbundnir flensufaraldrar dvína yfirleitt á sumrin á norðurhveli jarðar. Það er hins vegar augljóslega engin reynsla komin á það með Covid-19. Faraldurinn gæti líka blossað aftur upp næsta vetur og fjarað smám saman út á fyrri hluta 2021, einkum vegna þess að þá væri komið talsvert hjarðónæmi.
Vikur eða mánuðir?
Þótt við miðum við þá tiltölulega bjartsýnu sviðsmynd að hið versta verði afstaðið nú í sumar og þá geti mannlífið – og efnahagslífið – smám saman náð sér á strik aftur verður efnahagsáfallið mjög þungt. Vandinn sem mun steðja að heilbrigðiskerfinu og þeim sem verða alvarlega veikir verður vitaskuld lykilmálið og brýnast að takast á við hann. Fyrir marga sem ekki veikjast, eða að minnsta kosti ekki alvarlega, gætu efnahagsáhrifin hins vegar orðið þungbær. Hér verður fyrst og fremst reynt að greina þá hlið málsins.
„Fyrir marga sem ekki veikjast, eða að minnsta kosti ekki alvarlega, gætu efnahagsáhrifin hins vegar orðið þungbær“
Dragist faraldurinn fram á næsta ár þyngist efnahagsáfallið til muna, meðal annars vegna þess að fyrirtæki sem missa mestar eða jafnvel allar sínar tekjur ráða eðlilega því verr við það þeim mun lengur sem tekjutapið varir. Vandræði fyrirtækjanna verða svo sjálfkrafa vandræði starfsmanna þeirra.
Ein hugsanleg sviðsmynd er að það takist í sumar að ná þokkalegum tökum á faraldrinum en vegna hættu á að hann blossi upp aftur þurfi að halda áfram með ýmsar þær ráðstafanir sem gripið hefur til, til dæmis bann við fjölmennum samkomum, miklu lengur, hugsanlega alveg þangað til hægt verður að beita almennri bólusetningu. Það myndi þýða að efnahagsáhrifa faraldursins myndi gæta mjög lengi, þó misjafnt eftir atvinnugreinum.
Þyki einhverjum þetta of svartsýnt er þó rétt að hafa í huga að faraldurinn mun alltaf á endanum ganga yfir. Mannkynið horfir því fram á alvarlegan en tímabundinn vanda. Það verður óþægilegt á meðan á því stendur fyrir alla – og vitaskuld sérstaklega fyrir þá sem veikjast illa eða missa ástvini, þeirra er skaðinn mestur – en það er alltaf ljós við endann á göngunum. Við vitum bara ekki nú nákvæmlega hve langt er í gangamunnann.
Blossi faraldurinn upp aftur, verði jafnvel árlegur eins og hefðbundin flensa, þá verður hann miklu vægari síðar, bæði vegna hjarðónæmis vegna fyrri veikinda og þess að þá verður væntanlega hægt að beita bólusetningu að einhverju marki sem fyrirbyggjandi aðgerð. Stökkbreytingar flækja málið og þýða meðal að sífellt þarf að breyta bóluefni. Það er að minnsta kosti minn skilningur á því sem faraldsfræðingarnir segja.
Framboð
Hvað um það, snúum okkur nú að hagfræðinni. Skoðum fyrst það sem kalla má framboðshliðina, það er hvernig fyrirtækjum og stofnunum mun takast að framleiða vörur og þjónustu við þessar aðstæður. Á því verður augljóslega töluverð röskun. Starfsmenn sem eru veikir eða í sóttkví afkasta ekki miklu. Ýmiss konar skrifstofuvinnu er reyndar hægt að vinna heima í sóttkví, til dæmis flest störf háskólakennara. Ókostirnir við að láta starfsfólk vinna heima eru stundum einhverjir, til dæmis er staðarkennsla almennt betri kostur en fjarkennsla. Sem tímabundin lausn við sérstakar aðstæður er þetta þó borðleggjandi í mörgum tilfellum.
„Ef tveir af hverjum þremur þurfa að vera þrjár vikur frá vinnu vegna veirunnar þá tapast að jafnaði tvær vinnuvikur á árinu“
Mörg störf eru hins vegar þess eðlis að slíkt er ekki hægt. Það fólk þarf að vera á sinni starfsstöð. Ef tveir af hverjum þremur þurfa að vera þrjár vikur frá vinnu vegna veirunnar þá tapast að jafnaði tvær vinnuvikur á árinu. Það eitt og sér minnkar verðmætasköpun á næstum mánuðum talsvert. Einhver fyrirtæki gætu jafnvel orðið alveg óstarfhæf í einhvern tíma ef margir eða mikilvægir starfsmenn veikjast eða fara í sóttkví á svipuðum tíma.
Fyrir öll fyrirtæki væri slík staða vitaskuld áfall en verst væri fyrir samfélagið ef heilbrigðisstofnanir eða tengd starfsemi eins og lyfjaframleiðsla og -dreifing lamast. Þar verður álagið líka mest. Jafnframt þarf lykilstarfsemi eins og matvælaframleiðsla og -dreifing, veitustarfsemi, löggæsla og greiðslumiðlun undir öllum kringumstæðum að halda áfram. Því er vitaskuld allt gert sem hægt er til að reyna að tryggja að slík starfsemi lamist ekki.
Í landi með góða innviði, eins og á Íslandi og í okkar næstu nágrannalöndum, mun það væntanlega takast. Því miður er allt eins víst að það verði mun erfiðara í fátækari löndum með miklu veikari kerfi. Það er vart hægt að hugsa þá hugsun til enda hvernig takast mun að glíma við veiruna í stríðshrjáðum löndum, flóttamannabúðum eða svokölluðum þriðja heims löndum.
Vegna þess hve flóknar og langar aðfangakeðjur í nútímaviðskiptum eru iðulega þá getur keðjuverkun leitt til þess að vandræði í einu fyrirtæki eða á einu svæði lama starfsemi annars staðar, jafnvel í fjarlægum heimshluta. Þetta kom strax í ljós þegar faraldurinn setti allt á annan endann í Hubei í Kína. Skömmu síðar fóru að berast fréttir frá iðnfyrirtækjum í öðrum löndum um vandamál hjá þeim vegna þess að íhluti vantaði.
Eftirspurn
Vandamálin á framboðshliðinni eru því töluverð og mætti fjalla um þau í miklu lengra máli. Þau vandamál eru þó mun minni en þau sem rekja má til eftirspurnarhliðarinnar í hagkerfinu. Margs konar starfsemi hefur þegar nánast lamast vegna þess að eftirspurn hefur hrunið eða vegna þess að samkomubann eða lokanir hins opinbera á ákveðnum rekstri hindra viðskipti.
Vandræði ferðaþjónustunnar eru þar mest. Ferðalög milli landa hafa minnkað verulega og jafnvel verið bönnuð eða torvelduð verulega með skilyrðum um sóttkví, jafnvel bæði á áfangastað og þegar komið er heim aftur. Síðustu daga hafa hver landamærin á fætur öðrum lokast. Sums staðar eru samgöngur innanlands einnig takmarkaðar. Það er vitaskuld þungt áfall fyrir flugfélög og þá sem reka hótel og veitingastaði eða bjóða upp á afþreyingu fyrir ferðamenn. Heimamenn halda líka að sér höndum, fara til dæmis ekki mikið á veitingastaði, jafnvel þar sem það er ekki beinlínis bannað. Í þessum geira er nánast ekkert að gera nú. Það mun ekki lagast á næstunni.
Samdráttur í ferðaþjónustu smitar svo út frá sér, meðal annars til birgja. Til dæmis ætti neysla á mat og drykk á Íslandi eitthvað að dragast saman tímabundið vegna færri ferðamanna, þótt á móti komi reyndar að einhverju marki færri ferðir Íslendinga til útlanda og aukin neysla hérlendis vegna þess. Sala á eldsneyti ætti líka að minnka þegar bílaleigubílarnir standa óhreyfðir. Það byrjar enginn að reisa nýtt hótel við þessar aðstæður og líklegt að einhverjar framkvæmdir sem þegar eru hafnar stöðvist. Byggingageirinn verður þannig fyrir áfalli. Þannig mætti lengi telja.
„Samdráttur í ferðaþjónustu hefur því bein og slæm áhrif á vinnumarkaðinn, atvinnuleysi eykst og tekjur minnka“
Ferðaþjónusta er mjög mismikilvæg atvinnugrein eftir löndum og svæðum þannig að áfallið dreifist ójafnt um heimsbyggðina. Á Íslandi skiptir hún miklu og aflar til dæmis um 40% gjaldeyristekna landsmanna, þótt hlutdeildin í landsframleiðslu sé mun minni. Henni fylgja jafnframt mjög mörg störf, til dæmis er rekstur veitingastaða og hótela í eðli sínu mjög mannaflafrekur. Hagstofan heldur sérstaklega utan um „fjölda launþega í einkennandi atvinnugreinum ferðaþjónustu“ og voru þeir um 30 þúsund á árunum 2018 og 2019, nokkuð mismunandi eftir árstíma. Það er um 15% allra starfa. Samdráttur í ferðaþjónustu hefur því bein og slæm áhrif á vinnumarkaðinn, atvinnuleysi eykst og tekjur minnka.
Þegar spurn eftir vörum og þjónustu dregst saman tímabundið þá er alltaf einhver von fyrir seljendur að kaupunum seinki frekar en að ekkert verði af þeim. Ef fjölskyldur halda til dæmis að sér höndum um bílakaup vegna óvissu um skeið þá getur vel verið að þegar óvissan er ekki lengur til staðar verði meira um bílakaup en í venjulegu ári. Þetta á miklu síður við um þjónustu til dæmis veitingahúsa og ýmiss konar afþreyingu. Þeir sem fara ekki í kvikmyndahús vegna samkomubanns í mars og apríl fara ólíklega þeim mun oftar nokkrum mánuðum síðar. Það er líka ekki hægt að framleiða til dæmis flugferðir, hótelgistingu eða leikhússýningar til að eiga á lager þegar eftirspurn eykst á ný.
Tekjur margra fyrirtækja munu því ef til vill ekki dragast saman varanlega en þau munu verða af tekjum sem þau ná ekki að vinna upp síðar. Það getur búið til alvarlegan lausafjárvanda og jafnvel eiginfjárvanda. Fyrirtæki eru misvel undir hann búin. Sum hafa mikið laust fé og góðan aðgang að lánalínum, önnur stóðu jafnvel tæpt áður en áhrifa veirunnar tók að gæta. Það er sérstakt áhyggjuefni í íslensku ferðaþjónustunni. Hún hafði verið að glíma við samdrátt og jafnvel offjárfestingu að einhverju marki áður.
Bankarnir
Sú staða kallar meðal annars á viðbrögð bankakerfisins. Það þarf að veita lausu fé til fyrirtækja og þá jafnframt að einhverju marki að velja og hafna: Hvaða fyrirtæki eru með traustar rekstrarforsendur og teljast góðir lántakendur og hver ekki? Hverjir þurfa fjárhagslega endurskipulagningu? Hverjum ætti ekki að bjarga – og hvað á þá að gera við þann rekstur? Það er kaldhæðni örlaganna að starfsmenn íslenskra banka eru líklega nokkuð sjóaðir í slíkri vinnu eftir fjármálakrísuna. Vandinn nú er þó engan veginn sambærilegur og þá, rekstur margra fyrirtækja og efnahagur hafði verið í tómu rugli fyrir hrun, meðal annars skuldsetning vaxið úr hófi fram og fjölmörg dæmi um galnar fjárfestingar.
Sama staða er ekki uppi nú. Flest fyrirtæki með eðlilegan fjárhag ættu að þola samdrátt í tekjum í nokkrar vikur. Dragist samdrátturinn á langinn, til dæmis ef sumarið allt verður undir með mjög takmörkuð umsvif í ferðaþjónustu, þá munu miklu fleiri lenda í kröggum. Verði margar atvinnugreinar nánast lamaðar fram á næsta ár er hins vegar ljóst að það stefnir að óbreyttu í fjöldagjaldþrot í þeim geirum. Gerist það verður miklu erfiðara að fá hjól efnahagslífsins til að snúast eðlilega þegar faraldurinn verður genginn yfir.
„Verði margar atvinnugreinar nánast lamaðar fram á næsta ár er hins vegar ljóst að það stefnir að óbreyttu í fjöldagjaldþrot“
Vandi fyrirtækjanna getur svo hæglega orðið vandi launþega og heimila. Einyrkjar geta auðvitað líka lent í kröggum. Aftur er staðan þó um margt önnur en í fjármálakrísunni, þá voru heimilin mjög skuldsett áður en krísan byrjaði. Þegar tekjur drógust saman og eignir féllu í verði varð því skuldavandi þeirra alvarlegur. Staðan er önnur nú vegna minni skuldsetningar. Þó geta einhverjir lent í vanda, til dæmis lausafjárvanda ef þeir missa laun í einhvern tíma. Úrræði eins og valkvæður frestur á afborgunum húsnæðislána eru skynsamleg við þær aðstæður. Jafnframt þarf almennt að bregðast við vanda þeirra sem kunnu að missa vinnuna eða geta ekki aflað sér tekna vegna veikinda. Til þess eru vitaskuld þegar ýmis kerfi sem mun reyna á, meðal annars atvinnuleysistryggingar, sjúkradagpeningar og fleira.
Í nokkrum nágrannalandanna hafa verið kynntar eða að minnsta kosti reifaðar hugmyndir um róttækar stuðningsaðgerðir ríkisins við fyrirtæki sem meðal annars er ætlað að draga úr fjölda þeirra sem verða atvinnulausir. Á Íslandi voru fyrstu skrefin meðal annars breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu. Vinnuveitendur munu geta minnkað starfshlutfall starfsmanna tímabundið og launþegarnir fengið atvinnuleysisbætur að hluta á móti. Það er skynsamlegt skref og gott svo langt sem það nær.
Líklega verður þó að kynna róttækari aðgerðir von bráðar og raunar hafa þegar þetta er skrifað verið gefin fyrirheit um það. Ef fjölmörg þjónustufyrirtæki verða nánast verkefna- og tekjulaus mánuðum saman vegna veirunnar, vegna lítillar eftirspurnar, samkomubanns og takmarkana á ferðalög er annað vart hægt ef afstýra á fjöldagjaldþrotum og mjög miklu atvinnuleysi.
Fluggeirinn er í sérstakri hættu enda er þar hægt að tapa mjög miklu fé mjög hratt ef tekjur dragast saman. Við blasir að millilandaflug verður mjög takmarkað á næstunni um heim allan, þótt enginn viti nú hvenær það fer aftur að færast í eðlilegt horf. Aðgerðir eins og niðurfelling lendingargjalda og gistináttagjalds eru ágætar fyrir ferðaþjónustu en duga skammt. Sérstaklega breytir gistináttagjaldið litlu ef hótelin eru tóm. Hér er viðfangsefnið vitaskuld ekki séríslenskt, sama staða er uppi um allan heim. Vandinn er þó hlutfallslega stór hérlendis vegna mikils vægis ferðaþjónustu.
Sveigjanleiki hagkerfisins gefur eitthvert svigrúm til að draga úr tjóni. Það er þó takmarkað, meðal annars vegna þess að breytingar taka yfirleitt tíma. Einhverjir sem starfa í greinum sem nánast munu leggjast í dvala geta fengið störf við annað, væntanlega tímabundið. Til dæmis hjúkrunarfræðingar sem hafa starfað sem flugfreyjur. Það verður nóg eftirspurn í heilbrigðiskerfinu! Það er hægt að nýta einhver tóm hótel fyrir fólk í sóttkví. Veitingastaðir geta snúið sér að heimsendingu þótt enginn sitji til borðs hjá þeim. Einhver iðnfyrirtæki geta framleitt handsápu og sótthreinsilög eða sóttvarnarbúninga í stað annars. Einhverjir geta fengið vinnu við heimsendingu á mat og öðrum vörum til fólks í sóttkví. Slíkar breytingar eru auðvitað ekki bara mikilvægar til að draga úr atvinnuleysi heldur ekki síður til að mæta ýmiss konar eftirspurn sem stóreykst vegna faraldursins.
Það er líka mikilvægt að samfélagið sinni félagslega þættinum, sérstaklega þeim sem kunna að einangrast, til dæmis einbúar eða eldra fólk sem þarf að vera í einangrun á elliheimilum vegna smithættu. Tökum upp símann – eða jafnvel fjarfundabúnaðinn – það er ýmislegt hægt að gera og margir munu hafa meira en nægan tíma!
Hver á að borga?
Vitaskuld er það álitamál hve langt ríkið á að ganga við að taka á sig – og þar með skattgreiðendur framtíðarinnar – fjárhagslegt áfall sem samfélagið allt eða hluti þess verður fyrir. Hér er þó vart hægt að sjá neina aðra lausn. Ef við viljum ekki eiga á hættu að það þurfi að reisa stórar atvinnugreinar úr rústum þegar faraldurinn er genginn yfir þarf að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja á næstu mánuðum. Það dregur jafnframt úr líkunum á því að fjölmörg heimili lendi í alvarlegum fjárhagskröggum, til viðbótar við þann heilsufarsvanda sem mörg þeirra munu glíma við. Vitaskuld þarf þó að skoða hverja krónu sem í slík verkefni fer úr opinberum sjóðum. Það verður erfitt. Einnig þarf að gæta þess að eftir standi ekki fá fyrirtæki í yfirburðastöðu hvert og eitt. Það má ekki gefa neinn afslátt af kröfum í samkeppnismálum, þá gæti skaðinn af faraldrinum fyrir hagkerfið orðið varanlegur.
Hve mikið höggið verður fyrir ríkissjóð er nær ógjörningur að áætla nú. Það er þó alveg víst að tekjur munu minnka. Minni velta, minni hagnaður fyrirtækja og lægri tekjur einstaklinga í einhvern tíma valda því. Jafnframt aukast útgjöld, vegna heilbrigðis- og velferðarkerfis og þeirra sérstöku aðgerða sem gripið verður til vegna faraldursins. Ríkisfjármálaáætlun verður haldlaust plagg við þessar aðstæður og má ekki á neinn hátt takmarka viðbrögð ríkisins.
„Ríkisfjármálaáætlun verður haldlaust plagg við þessar aðstæður og má ekki á neinn hátt takmarka viðbrögð ríkisins“
Munurinn á stöðu ríkisins og stofnana þess nú og í fjármálakrísunni 2008 er sem betur fer mikill. Takmarkaður gjaldeyrisforði er ekki vandamál nú. Erlend lán innlendra aðila eru miklu minni en þá og fyrst og fremst hjá fyrirtækjum sem hafa tekjur í erlendri mynt. Raunar kallar sú staða sem upp er komin ekki endilega á mikil útgjöld í erlendri mynt. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins munu að vísu dragast verulega saman tímabundið, þegar stærsta útflutningsgreinin nánast stöðvast, en á móti kemur að innflutningur mun fyrirsjáanlega gera það líka. Að minnsta kosti munu íslenskir ferðamenn ekki eyða miklu í útlöndum og vöruinnflutningur nær örugglega minnka líka. Þjóðin eyðir ekki miklu meðan hún situr í sófunum sínum og horfir á Netflix! Þá hjálpar mikil lækkun eldsneytisverðs.
Hinar stóru útflutningsgreinarnar, sjávarútvegur og áliðnaður, ættu að halda áfram störfum, helsta hættan þar er að álverð lækki enn frekar. Gefi gengi krónunnar meira eftir en þegar hefur verið gerst, vegna minni útflutningstekna, þá mun það hafa svipuð áhrif og lækkunin við hrun bankakerfisins. Gengislækkun örvar hagkerfið með því að auka spurn eftir innlendum vörum og þjónustu og draga úr innflutningi. Það dregur úr útstreymi gjaldeyris. Á móti kemur vitaskuld að kaupmáttur dregst meira saman en ella.
Álagið á ríkissjóð mun hins vegar fyrst og fremst birtast í íslenskum krónum. Það verður viðráðanlegt. Laust fé ríkissjóðs og aðgangur að lánsfé í krónum er langt umfram alla hugsanlega þörf á næstu mánuðum. Að auki getur Seðlabanki Íslands beitt sér á ýmsan hátt, til viðbótar við þá vaxtalækkun sem þegar hefur verið ákveðin. Vaxtalækkun ein og sér hefur þó mjög takmörkuð áhrif við þessar aðstæður, hún örvar varla fjárfestingu eða neyslu svo að neinu nemur alveg á næstunni. Hún er þó skynsamleg, meðal annars vegna þess að auðveldara er að glíma við lausafjárvanda þegar vextir eru lágir.
Ríkissjóður er líka í þeirri sérstöku stöðu að eiga um tvo þriðju viðskiptabankakerfisins. Það gefur svigrúm til að beita ríkisbönkunum með aðferðum sem engan veginn væru réttlætanlegar við eðlilegar aðstæður, sérstaklega til að tryggja atvinnulífinu nægt laust fé.
Fjárfestingar
Þegar eftirspurn í hagkerfinu fellur mjög mikið getur almennt verið skynsamlegt að beita ríkisfjármálum til að auka hana. Það er grundvallarhugmyndin bak við svokallaða keynesíska hagstjórn. Aukin ríkisútgjöld og/eða lækkaðir skattar geta við slíkar aðstæður aukið eftirspurn, ýtt undir hagvöxt (eða minnkað samdrátt) og spornað gegn atvinnuleysi.
Það er mjög erfitt að sjá slíkar aðgerðir hjálpa mikið nú, meðan að faraldurinn gengur yfir. Ríkið eykur til dæmis ekki mikið eftirspurn í veitinga- eða hótelgeiranum með því að grafa jarðgöng, byggja skóla eða lækka tekjuskatta. Það hjálpar ekkert flugfélögum sem mega ekki fljúga.
„Það er líka mikilvægt að senda út skýr skilaboð um að komið verði í veg fyrir að hagkerfið fari í langt samdráttarskeið að óþörfu“
Því væri eðlilegt að aðgerðir til að örva hagkerfið væru miklu þrengri, til dæmis beinn fjárhagslegur stuðningur við þá sem missa vinnuna eða sértækur stuðningur við fyrirtæki í tilteknum geirum, meðal annars til að færri missi vinnuna. Ýmis nágrannalandanna hafa kynnt hugmyndir um að ríkið hlaupi undir bagga með greiðslu launa í tilteknum atvinnugreinum á meðan starfsemi þar er nánast engin. Að nokkru marki gera breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu hér það sama en hægt er að færa rök fyrir því að ganga mun lengra.
Slíkar aðgerðir hjálpa auðvitað ekki bara þeim sem njóta beint, heimili í fjárhagskröggum eru ekki líkleg til að eyða meiru en þau bráðnauðsynlega þurfa. Þannig draga slíkar aðgerðir úr samdrætti eftirspurnar og þar með efnahagsumsvifa. Ríki og sveitarfélög fá líka hluta stuðningsins beint til baka því að skattstofnar rýrna minna en ella.
Almennar aðgerðir til að örva hagkerfið væru miklu frekar réttlætanlegar þegar faraldurinn verður að mestu liðinn hjá, til þess að samdrátturinn verði sem stystur og eins lítill og hægt er. Það er líka mikilvægt að senda út skýr skilaboð um að komið verði í veg fyrir að hagkerfið fari í langt samdráttarskeið að óþörfu. Bjartsýni, að minnsta kosti hófleg (!) bjartsýni, er mikilvæg til þess að hjól efnahagslífsins snúist lipurlega.
Alþjóðaáhrif
Að lokum er rétt að geta þess að hluti óvissunnar um hvernig spilast mun úr stöðunni á Íslandi er vegna óvissu um það sem mun gerast erlendis. Heimsfaraldur stöðvast ekki nema menn nái tökum á honum um allan heim. Það kallar á samstarf og samræmingu. Því miður eru ýmsar vísbendingar um að mikið vanti upp á það. Hjálpargögn flæða ekki milli landa og tilviljanakenndar, fyrirvaralitlar og lítt rökstuddar lokanir á landamærum eru skýr dæmi um þetta. Bandaríkin, sem allt frá síðari heimsstyrjöld hafa verið helsta forysturíkið á Vesturlöndum, eru nánast úr leik á alþjóðavettvangi vegna pólitískra vandamála heimafyrir. Það er líka hætt við að þeim muni reynast mjög erfitt að eiga við veiruna innanlands vegna sömu vandamála.
Þessu getum við Íslendingar ekki stjórnað. Við höfum líka sáralítið um það að segja hvernig unnið verður úr því áfalli sem faraldurinn er fyrir heimshagkerfið. Þar er þó ekki hægt annað en að vona að menn nái að draga réttar ályktanir af fjármálakrísunni og viðbrögðum við henni. Veiran á ekki að þurfa að valda sambærilegri fjármálakrísu og þá, þótt samdráttur efnahagsstarfsemi kunni að verða að einhverju marki sambærilegur, raunar meiri til skamms tíma.
Samdrátturinn er hins vegar miklu örari nú. Fyrir rúmum áratug tók það íslenska hagkerfið um það bil tvö ár að dragast saman um nokkurn veginn einn tíunda hluta. Nú hefur það dregist meira saman á nokkrum dögum þótt ógjörningur sé að áætla á þessari stundu með einhverri nákvæmni hve mikið. Viðbrögð þátttakenda á fjármálamarkaði eru líka svipuð, hlutabréfaverð hefur hríðfallið, áhættufælni aukist og markaðsverð sveiflast stórkarlalega. Með réttum viðbrögðum verður samdráttur efnahagslífsins þó skammvinnur og við komumst í ljósið við enda ganganna fyrr en varir.
Athugasemdir