Síðan í desember erum við búin að æfa okkur fyrir allar hugsanlegar katastrófur, eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð og óveður sem blæs burt öllu lausu og föstu. Núna erum við heltekin af kórónaveirunni og fjölmiðlar eru andsetnir.
Fimm barnafjölskyldur bíða brottflutnings til Grikklands þar sem hræðilegar aðstæður flóttamanna hafa breyst í algeran hrylling eftir að Tyrkir opnuðu hlið sín og slepptu fólki lausu á landamæri Grikklands þar sem því er mætt með ofbeldi. Fáir fréttamiðlar eru að horfa í áttina til þeirra. Þau fá kannski hraðferð út í óvissuna í boði kórónaveirunnar eða í besta falli verður ferðinni seinkað með tilheyrandi kvíða og öryggisleysi.
Undanfarið hefur aðeins verið pláss fyrir eitt mál í fréttatímum. Þeir hefjast á því hvað margir hafa greinst með kórónaveiruna og hvað margir eru í sóttkví. Síðan kemur þreytta en glaðlega löggan sem segir okkur að brosa þrátt fyrir erfiðleikana. Og landlæknir sem leggur okkur lífsreglurnar.
Boðskapur kórónufréttanna er þó vanalega sá sami. Þetta tekur fljótt af, annaðhvort deyjum við hratt og örugglega eða við höfum þetta af hratt og örugglega. Og elskurnar mínar, þvoið ykkur um hendurnar og verið ekki að sleikja hvert annað í framan, svona rétt á meðan.
„Þetta tekur fljótt af, annaðhvort deyjum við hratt og örugglega eða við höfum þetta af hratt og örugglega“
Við slógum met í hruni og það stefnir í met í nýjustu kórónaveirunni. Manni hleypur kapp í kinn við að heyra um fjölda kórónasmitaðra sem eykst jafnt og þétt en fréttamenn rétt ná að skjóta inn á milli nokkrum öðrum fróðleiksmolum, til dæmis að stuðningur við ríkisstjórnina sé að aukast. Miðflokkurinn þenjist út sem aldrei fyrr og það sé til nóg af líkpokum í landinu. Og breska drottningin sé búin á því andlega og líkamlega af því Harry og Meghan séu svo erfið og eigingjörn.
Enginn vill breytingar
Pólsku verkamennirnir sem urðu undir gólfplötu á þriðjudag rétt svo náðu inn í miðjan fréttatíma og málinu hefur allt of lítið verið fylgt eftir. Verkfall fólks, sem ber svo lítið úr býtum að það þarf að leita á náðir hjálparstofnana til að geta lifað, hefur þokað fyrir maraþonviðtölum andstuttra, æstra og óðamála fréttamanna um kórónaveiruna þar sem vansvefta embættismenn keppast í bjarma myndavéla við að lýsa vinnudeginum í beinni útsendingu eftir að aðrir eru farnir heim. Fyrsta frétt í 10 fréttum RÚV á þriðjudag fjallaði reyndar um að ekki væri von á fleiri niðurstöðum úr sýnatökum þann daginn. Ekkert var minnst á leikskólana sem eru lokaðir eftir langt verkfall og samninganefndir sem tala ekki saman.
Þetta eru kjöraðstæður fyrir stjórnvöld sem ráða illa við hlutverk sitt. Enginn vill breytingar meðan slík óvissa er fyrir dyrum, það er nóg samt. Ríkisstjórnin fær aukinn byr í seglin í skoðanakönnunum, þótt hún hökti áfram með fangið fullt af frumvörpum sem hún er meira eða minna ósammála um, hvort sem þau snúast um miðhálendisþjóðgarð, stuðning við fjölmiðla, bankasölu eða að ota áfengi að fólki. Hún prísar sig auðvitað sæla.
En veiran má ekki sýkja gagnrýna hugsun okkar.
Tökum ábyrgð hvert á öðru
Einhverjir glaðir skíðamenn sem höfðu verið á Ítalíu fóru huldu höfði heim, ákveðnir í að smita fremur samborgara sína af hættulegum vírus en tapa ferðafrelsi sínu í nokkra daga. Þeir eru fulltrúar þess hluta samfélagsins sem skapar stöðuga hættu vegna eigingirni sinnar. Samtök atvinnulífsins skipuðu sér í þann hóp með því að lýsa þvi yfir að fólk væri í sóttkví á eigin ábyrgð og fengi engin laun á meðan. Þetta er í stíl við þá stefnu að fátækasta fólkið vinni öll erfiðustu og óþrifalegustu störfin fyrir minna en þarf til að reka sjálfan sig. Nú fannst Samtökum atvinnulífsins rétt að það stæði andspænis því að velja milli þess að lúta tilmælum um sóttkví eða tapa lífsviðurværinu og missa húsnæði sitt annars. Ef skíðafólkið átti erfitt með að taka nokkurra daga frí, hvernig ætli þessu fólki farnist með öxina reidda yfir höfðinu? Og hvað þýðir það fyrir okkur hin? Sem betur fer er búið að koma vitinu fyrir Samtök atvinnulífsins, með því að skattgreiðendur hlaupa undir bagga, en eftir stendur að hluti efnafólks greiðir ekkert til samfélagsins heldur stingur peningunum sínum undan.
Besta meðalið við kórónaveiru er að við tökum ábyrgð hvert á öðru.
Ekki ódýr útleið
Við þurfum að fylgja dauðaslysinu á byggingasvæði í Mosfellsbæ fast eftir. Hvernig var öryggismálum háttað? Þarna voru menn á vegum undirverktaka íslensks byggingafyrirtækis. Hver eru réttindi þess sem lifði slysið af og aðstandenda þess sem dó? Enginn hafði sett sig í samband við aðstandendur þegar sólarhringur var liðinn frá slysinu. Er það í lagi? Og er í lagi að samninganefndir stríðandi aðila í opinberri þjónustu tali ekki saman meðan sorp og skítur safnast upp og börn, aldraðir og fatlaðir fá ekki nauðsynlega þjónustu? Hvernig eigum við að takast á við þessa heilbrigðisvá ef skólar og heilbrigðisstofnanir verða í lamasessi? Það má þó ekki varpa ábyrgðinni einungis á verkalýðshreyfinguna. Þetta á ekki að verða ódýr útleið fyrir yfirvöld.
„Veiran má ekki sýkja gagnrýna hugsun okkar“
Kórónaveiran er grafalvarlegt mál sem á sjálfsagt eftir að versna talsvert mikið og jafnvel valda dauða margra. Og sérfræðingarnir gera sitt besta en þeir geta ekki unnið þetta stríð án okkar.
Best væri að kórónaveiran opnaði augu okkar strax fyrir því að öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, félagsleg samtrygging og við sjálf erum besta vörnin gegn því að koma vel út úr þessum faraldri sem og öðrum.
Fátækt og ójöfnuður hraða útbreiðslu sjúkdóma.
Við ættum að huga sérstaklega vel að þeim sem höllum fæti standa þegar svona erfiðleikar steðja að. Fyrst ættum við að taka utan um litlu börnin sem hingað leituðu með foreldrum sínum á flótta undan stríði og neyð. Þau þurfa skjól, það má ekki senda þau út í óvissuna. Þetta gætu verið börnin okkar.
Þetta eru börnin okkar.
Athugasemdir