Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Stuðningur berst björgunarsveitinni á Flateyri alls staðar að af landinu

Magnús Ein­ar Magnús­son, formað­ur Sæ­bjarg­ar, seg­ist gátt­að­ur og meyr yf­ir stuðn­ingn­um sem muni gagn­ast sveit­inni til kaupa á nauð­syn­leg­um bún­aði. Mynd­band sýn­ir björg­un­ar­sveitar­fólk að störf­um eft­ir flóð­in.

Formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri segist gáttaður á þeim mikla stuðningi sem að sveitin hafi fengið alls staðar að af landinu eftir vasklega framgöngu hennar eftir snjóflóðin sem féllu á þorpið. Í meðfylgjandi myndbandi, neðst í fréttinni, má sjá björgunarsveitarmenn að störfum á fyrsta sólarhring eftir flóðin. Björgunarsveitarmenn fundu og björguðu fjórtán ára stúlku, Ölmu Sóley Ericsdóttur, úr öðru snjóflóðinu sem féll á tólfta tímanum á þriðjudagskvöld. Tók það liðsmenn sveitarinnar ekki nema um 40 mínútur að ná Ölmu út. „Ég get eiginlega ekki lýst því, maður er hálf gáttaður á þessum mikla stuðningi. Ég er mjög þakklátur og bara meyr yfir þessu, segir Magnús Einar Magnússon, formaður Sæbjargar.“ 

Alltaf með það í huga að flóð geti fallið

Magnús Einar Magnússon

Um ár er síðan að haldin var björgunarsveitaræfing á Flateyri þar sem viðbrögð við snjóflóði voru æfð, rústabjörgun og annað tengt. Magnús segir að það hafi gagnast mjög í vikunni. „Maður er alltaf með þetta í hausnum. Síðastliðinn vetur lentu einmitt tveir björgunarsveitarmeðlimir í snjóflóði á Flateyrarvegi, konan mín og dóttir voru í öðrum bílnum og vinafólk okkar í hinum. Maður er þess vegna alltaf með þetta í huga.“

Flateyrarvegur var loks opnaður í gær eftir að þorpið hafði verið einangrað í tæpa viku en Magnús segir að honum hafi þó verið lokað aftur og hann síðan hafður opinn undir eftirliti vegna þess að snjóruðningsmenn hafi séð stór snjóflóð úti í firðinum þegar þeir voru að ryðja. „Menn þorðu ekki að hafa veginn opinn fyrr en búið væri að grannskoða í öll gil inni með firðinum. Vegurinn var síðan opnaður klukkan átta í morgun. Ég var að fara með börn í leikskólann, það er í fyrsta skiptið sem skólinn og leikskólinn eru opnir núna þannig að það má segja að lífið sé farið að nálgast sinn vanagang hérna.“

„Það voru dæmi um fólk sem hafði ekki farið út úr húsi frá því síðasta föstudag“

Magnús segir að heimamenn í björgunarsveitinni Sæbjörgu hafi fengið langþráða hvíld í nótt þar sem þeir hafi getað sofið og safnað kröftum. Liðsauki sem barst af höfuðborgarsvæðinu verið afskaplega mikilvægur. „Það var afskaplega gott að fá þessa menn sem komu að sunnan, með sérhæfingu í rústabjörgun og fleiru. Þeir tóku yfir vettvanginn uppi í Ólafstúni í gær fyrir okkur svo að við gátum verið í ýmsum verkefnum, til að mynda að hjálpa fólki sem ekki hefur komist út úr húsunum sínum í viku eða svo. Það voru dæmi um fólk sem hafði ekki farið út úr húsi frá því síðasta föstudag. Eins er spáð mjög mikilli hláku á morgun sem gæti valdið miklum þyngslum á til dæmis þökum. Verkefni dagsins verður því að hreinsa af þökum og aðstoða fólk við ýmislegt til að reyna að forða slíku tjóni og eins vatnstjóni.“

Mun gagnast sveitinni mjög

Áskorun gengur á nú víða á netinu um að styrkja við björgunarsveitina Sæbjörgu eftir vasklega framgöngu þeirra og segir Magnús að stuðningurinn sé gífurlegur. „Ég er bara meyr yfir þessu, þetta er svo svakalegur stuðningur, alls staðar að. Ég get eiginlega ekki lýst því, maður er hálf gáttaður á þessum mikla stuðning. Ég er mjög þakklátur og meyr yfir þessu.“

„Maður er hálf gáttaður á þessum mikla stuðningi“

Magnús segir að fjárhagslegi stuðningurinn sem sveitin hefur fengið síðustu daga muni gagnas mjög vel við kaup á tækjum og búnaði. „Við höfum verið mjög vel búin af snjóflóðagræjum, ýlum, stöngum og skóflum og svona. Við eigum flestan annan búnað en kannski bara eitt af öllu. Sjúkrabörurnar okkar fóru til dæmis með sjúklingnum yfir á Ísafjörð á miðvikudaginn og þá áttum við ekki börur eftir hér á Flateyri. Þetta mun því gagnast okkur mjög. Við munum setjast niður þegar hlutirnar fara að róast og kaupa það sem okkur vantar.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Snjóflóð á Flateyri

Björgunarsveitarmaður lýsir léttinum þegar stúlkan fannst: „Tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma“
FréttirSnjóflóð á Flateyri

Björg­un­ar­sveit­ar­mað­ur lýs­ir létt­in­um þeg­ar stúlk­an fannst: „Tíu full­orðn­ir karl­menn grétu á sama tíma“

Magnús Ein­ar Magnús­son, formað­ur björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Sæ­bjarg­ar á Flat­eyri, seg­ir að tjón á dauð­um hlut­um skipti engu máli. „Ég heyrði nokk­uð sem ég hef aldrei heyrt áð­ur,“ seg­ir hann um augna­blik­ið þeg­ar ung­lings­stúlka fannst á lífi í rúm­inu sínu und­ir snjóflóð­inu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár