Þegar ég var ung að árum kom ég í fyrsta sinn til Keflavíkur á aðventunni. Ég undraðist hve mikið var skreytt í bænum, bæði á almannafæri og í gluggum heimila og fyrirtækja. Jólaljósin voru alls staðar fannst mér. Ég keyrði í gegnum Keflavík nú á aðventunni og var aftur undrandi. Jólaljósin voru ekki eins mörg nú og þau voru í minningu minni frá fyrri tíð. Ef ég færi í rannsókn á því hver staða jólaljósaskreytinga í Keflavík væri í gegnum tíðina er ég ekki viss um að mikil breyting væri þar á á milli ára og áratuga.
Þetta segir mér að ég hef breyst eins og við öll sem erum svo lánsöm að fá að lifa lengi. Við sem erum fullorðin höfum mörg reynt það að koma aftur í hús eða staði sem við þekktum sem börn og miðað við minningu okkar er þar öðruvísi um að litast í dag en í minningunni frá bernskuárunum.
Við erum öll á lífsins leið. Sú leið hefur verið alla vega hjá fólki almennt. Stundum ráðum við för, stundum grípa óvæntir atburðir inn í sem breyta leiðinni. Stundum er eins og við séum leidd áfram, stundum eins og möguleikar okkar til náms, starfa og lífs séu fyrirsjáanlegir, stundum þarf að staldra við og stilla vegvísinn upp á nýtt.
Ef við hugsum um jólin þá vilja margir halda í áralangar hefðir fjölskyldunnar. Þær geta breyst smám saman eða allt í einu. Svo verða nýjar fjölskyldur til þegar einstaklingarnir yfirgefa föður sinn og móður og stofna til nýrrar fjölskyldu með nýjum hefðum.
„Jól og ljós tilheyra hvort öðru“
Allt er breytingum háð en eitt er víst að jólin vitja okkar ár hvert í dimmasta skammdeginu og áður en aðventan gengur í garð erum við farin að kveikja á jólaskreytingum úti sem inni til að minnka myrkrið. Jól og ljós tilheyra hvort öðru. Jólin eru ekki bara frídagar og samverudagar. Þau eru líka þeir dagar þegar við biðjum þess að lífið færi okkur allt það besta sem það hefur upp á að bjóða. Fjölskyldu, húsaskjól, næringu, bæði andlega og líkamlega.
Boðskapur jólanna um fæðingu nýs lífs í þennan heim sameinar allt það besta sem við þráum í lífinu. Þar tengist veröldin himninum þegar engillinn færir hirðunum fréttirnar. Þar er valdsmaðurinn sem sendir ófríska stúlkuna í ferðalag til annarrar borgar. Þar var ekki einu sinni gistihús til reiðu fyrir frumbyrjuna að fæða barnið sitt, hvað þá hátæknisjúkrahús með fagfólki.
Já, lífið er alls konar en boðskapur jólanna er, eins og engillinn flutti hirðunum á Betlehemsvöllum, „yður er í dag frelsari fæddur“. Þér er fæddur sá sem getur frelsað þig frá því sem meiðir og deyðir til þess sem lífgar og nærir. Þér er fæddur frelsari sem fetar með þér veginn fram á lífsins leið og er svo ósýnilegur oft að þú tekur ekki eftir honum. Hann treður sér ekki inn í líf þitt en er til staðar þegar þú ákveður að gefast honum, leita til hans í bæn. Þá er blessunin þín og ákvörðunin þín.
Það er gleði jólanna að finna hann sem í jötuna var lagður. Vitringarnir leituðu og fundu eftir að stjarnan hafði vísað þeim veg. Vegvísarnir eru margir á lífsins leið og gott að hafa augun opin fyrir því hvar þá er að finna.
Ég bið þess að jólin þín verði gefandi og góð. Gleðileg jól.
Athugasemdir