Óveðrið er skollið á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Gefin hefur verið út rauð viðvörun í fyrsta sinn á Ströndum og Norðurlandi vestra. Hluti ástæðunnar fyrir rauðri viðvörun er að ölduhæð verður mikil.
Varðskipið Þór sigldi vestur í gær vegna yfirvofandi óveðurs og er til taks í Ísafjarðardjúpi ef á þarf að halda en skipið hefur sinnt eftirliti á hafsvæðinu umhverfis landið undanfarna daga. Þá eru þyrlur Landhelgisgæslunnar sömuleiðis til taks í Reykjavík.
Lítil skipaumferð er nú á Vestfjörðum. Fjögur skip liggja í vari undir Grænuhlíð og eitt tankskip er á leið fyrir Hornbjarg og fer suður með Vestfjörðum. Engin skipaumferð er á miðunum norður af landinu en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist vel með skipaumferð umhverfis landið allt.
Meðfylgjandi myndbönd voru tekin af áhöfn varðskipsins Þórs í morgun þegar skipið var út af Dýrafirði snemma í morgun. Eins og sjá má var þá farið að hvessa hressilega á Vestfjarðamiðum og gekk sjórinn yfir varðskipið.
Á Norðurlandi fer verður versnandi og er orðið bálhvasst á norðanverðum Tröllaskaga. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, sagði um klukkan 11:00 að þar væri vind farið að herða verulega og veðrið væri að skella á. Aðspurður sagðist hann telja, og raunar vita fyrir víst, að menn hefðu verið að í gærkvöldi og í morgun við að tryggja muni fyrir veðrinu, líta til með bátum og tryggja að skepnur á útigangi hefðu fóður.
Óveðrið færist suður og austur með landinu í dag. Gult ástand tekur við á höfuðborgarsvæðinu með ört vaxandi norðanátt, 18 til 23 metrum á sekúndu í vesturhverfum. Klukkan þrjú tekur við appelsínugult ástand, á höfuðborgarsvæðinu með norðan stormi eða roki, 20-28 metrum á sekúndu. Hvassast verður vestantil í borginni, á Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er áhættunni lýst: „Samgöngutruflanir eru líklegar á meðan veðrið gengur yfir og truflanir á flugsamgöngum. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.“ Appelsínugult ástand gildir til klukkan 7 í fyrramálið í höfuðborginni, en nær yfir allt land fram að aðfararnótt fimmtudags.
Athugasemdir