Meirihluti Íslendinga telur mikilvægt að „Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili“. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Samkvæmt könnuninni telja 52% mikilvægt en 27% lítilvægt að fá nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu.
Athygli vekur að stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar klofnar í málinu, en stuðningsmenn Vinstri grænna eiga meiri samleið með þeim sem styðja Pírata, Samfylkinguna, Flokk fólksins og Viðreisn, heldur en með þeim sem styðja hina ríkisstjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Könnun MMR var gerð 21. - 25. október 2019. Lítil breyting hefur orðið á afstöðu svarenda til stjórnarskrármálsins frá því MMR gerði fyrstu könnun um efnið fyrir tveimur árum.

Athugasemdir