Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Yfirtaka og hamskipti Framsóknarflokksins

Eft­ir að Sig­mund­ur Dav­íð Gunn­laugs­son varð formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins lagði flokk­ur­inn áherslu á nýja stjórn­ar­skrá, að­ild­ar­við­ræð­ur við Evr­ópu­sam­band­ið og beint lýð­ræði. Hann vildi „rót­tæka umpól­un“ á flokkn­um. Á næstu ár­um tók flokk­ur­inn ham­skipt­um, en á ann­an hátt en bú­ist var við.

Framsóknarflokkurinn hefur um­pólast undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Flokkurinn lagði áherslu á nýja stjórnarskrá, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðildarviðræður við Evrópusambandið í aðdraganda þingkosninganna 2009. Raunar var eitt af skilyrðum flokksins fyrir því að verja minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna falli, að komið yrði á stjórnlagaþingi með það að markmiði að semja nýja stjórnarskrá. Í dag leggst flokkurinn alfarið gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þingflokkurinn setur sig á móti því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna. Þá hefur lítið farið fyrir hugmyndum um nýja stjórnarskrá innan flokksins síðan Framsóknarmenn beittu málþófi í umræðum um stjórnlagaráð.

Fjölmargir hafa sagt sig úr flokknum síðastliðin ár og gagnrýnt flokks­forystuna fyrir að snupra lýðræðislegan vilja flokksmanna í stórum málum á borð við Evrópusambandsaðild og stjórnarskrármálið. Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins, hafa nýlega gagnrýnt núverandi forystu flokksins fyrir aðför að stjórnskipan lýðveldisins þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra reyndi að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið með bréfi til forsvarsmanna sambandsins án aðkomu Alþingis. Jón hefur áður sagt að flokkurinn sé á villuleið og að hann hafi ekki getað kosið hann um skeið. 

Blaðamaður Stundarinnar ræddi við á annan tug Framsóknarmanna- og kvenna sem hafa gegnt trúnaðarstörfum innan flokksins á síðustu árum og leitaði svara við því hvernig stjórnmálahreyfing sem hafði lýðræðislegar, frálslyndar og alþjóðasinnaðar áherslur í kjölfar hrunsins er nú sex árum síðar kennd við einangrunarhyggju, íhaldssemi og jafnvel þjóðernispopúlisma.

Frjálslyndir straumar

Í kjölfar bankahrunsins 2008 logaði íslenskt samfélag stafna á milli. Mikil óvissa ríkti í samfélaginu og mótmælendur stormuðu á Austurvöll þar sem þeir kröfðust þess meðal annars að ríkis­stjórnin færi frá og að ný stjórnarskrá yrði samin. Stjórnmálaferill Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar spratt upp úr þessu andrúmslofti. Bresk stjórnvöld höfðu beitt hryðjuverklögum til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi en Sigmundur Davíð og Magnús Árni Skúlason, þáverandi bankaráðsmaður Framsóknarflokksins í Seðlabankanum, voru á meðal þeirra sem hófu undirskriftarsöfnun á vefsíðunni indefence.is þar sem hryðjuverkalögunum var mótmælt. Fátt benti til þess að fimm árum síðar ætti Sigmundur Davíð eftir að verða forsætisráðherra Íslands.

Framsóknarflokkurinn var í tilvistarkreppu eftir áralangt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum árin fyrir hrun. Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku og formannsembætti eftir mikla gagnrýni flokksmanna á flokksforystuna og Valgerður Sverrisdóttir tók við sem formaður. „Þessar fáu vikur sem Valgerður var formaður léku frjálslyndir straumar um flokkinn,“ segir einn viðmælenda Stundarinnar sem var virkur í málefnastarfi flokksins á þessu tímabili. Andrúmsloftið hafi verið frjótt og hugmyndir á borð við stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hafi runnið í gegnum nefndir og ráð.

„Við vorum mjög áfram um að breyta flokknum í nútímalegan frjálslyndan flokk. Við byggðum allt málefnastarfið á því að vera með skýr markmið, að búa til stefnu en ekki bara verkefnalista,“ segir annar viðmælandi blaðsins.

Ungi menntamaðurinn 

Valgerður tilkynnti í byrjun desember að hún hyggðist ekki bjóða sig fram til áframhaldandi setu á formannsstóli. Stuttu eftir að Höskuldur Þórhallsson þingmaður og Páll Magnússon bæjarritari Kópavogs höfðu tilkynnt um framboð birti Vísir frétt þess efnis að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kynntur var til leiks sem skipulagshagfræðingur, væri að íhuga formannsframboð. Viðmælendur Stundarinnar innan Framsóknarflokksins segjast lítið hafa vitað um Sigmund Davíð á þessum tíma. „Í þessu tilviki var ekkert vitað hvaðan hann kom. Það var vitað að einhverjir Austfirðingar styddu hann. Utanfrá séð var hann svona ungur vel menntaður maður sem hlyti að vera nokkuð módern.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár