Brjóstagjöf á almannafæri þykir sjálfsagðari á Íslandi en í mörgum öðrum löndum. Þrátt fyrir það kemur af og til fyrir að konur hér á landi eru beðnar að gefa ekki brjóst á kaffihúsum eða þeim ráðlagt að fara inn á klósett til að næra barnið sitt. Þessum mæðrum þykir öllum sjálfsagt að börn fái sitt brjóst þegar þau þurfa. Þær kannast þó allar við að hafa þurft að yfirstíga eigin hindranir, jafnvel hikað við að gefa innan um aðra, eða í það minnsta velt því fyrir sér hvort einhverjum kynni að þykja óþægilegt að þær nærðu börn sín í návist þeirra.
Vigdís: „Það er ekki mjög langt síðan ég byrjaði að gefa mínum á almannafæri. Það var svolítið stórt skref.“
Elísabet: „Ég gaf eldri stráknum mínum ekki á almannafæri. Ég tók pela með mér hvert sem ég fór. En það myndi aldrei ganga með þennan hér. Ef ég hefði ætlað að láta svona með hann þá færum við aldrei út, honum finnst svo gott að borða.“
Herdís:
„Það hefur aldrei komið upp í mér nein feimni með þetta. Ég bjóst samt alveg við því að það myndi gerast, þegar ég varð ólétt.“
Allar hlæja þær að þeirri hugmynd, sem stundum heyrist, að konur ættu helst að gefa börnum sínum brjóst í einrúmi. Þær eru sammála um að þetta sé hugsunarháttur sem ætti að heyra fortíðinni til en þekkja þó dæmi úr nútímanum þar sem þessi sjónarmið þrífast.
Herdís: „Systir mín var einu sinni á kaffihúsi með vinkonum sínum og var að gefa dóttur sinni brjóst. Þá heyrði hún afgreiðslustúlkuna segja mjög hátt, greinilega til þess að hún myndi heyra það: Rosalega er ógeðslegt þegar konur þurfa að bera á sér brjóstin svona á almannafæri.“
Athugasemdir