Vélhjólaklúbbur í Garðabæ stefnir á að gerast fullgildur meðlimur hinna alræmdu Bandidos-samtaka. Ef aðildarviðræðurnar ganga eftir þá eru þrenn stærstu og þekktustu vélhjólasamtök í heimi í fullri starfsemi hér á landi. Nokkur ár eru frá því Hells Angels og Outlaws komu hingað til lands með samruna við íslenska vélhjólaklúbba. Klúbbarnir eru svokallaðir „1%“ klúbbar eða útlagaklúbbar en úti um allan heim eru Hells Angels, Outlaws og Bandidos álitin skipulögð glæpasamtök og er náið fylgst með þeim af yfirvöldum. Þar er Ísland engin undantekning en eftir nokkurs konar millibilsástand hér á landi er nú reynt að blása lífi í klúbbana ný. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að yfirvöld hér landi hafi lagt mikla áherslu á að uppræta gengin strax í fæðingu: „Tilgangurinn hefur að mörgu leyti helgað meðalið og afskipti og rassíur lögreglu af þeim sem hugsanlega tengjast gengjunum verið á mörkunum að vera innan laga og réttinda borgaranna.“
Mikil spenna er í þessum undirheimi Íslands en lítil ást er á milli umræddra vélhjólasamtaka. Þá blæs alveg sérstaklega köldu á milli Hells Angels og væntanlegra meðlima Bandidos hér á landi.
Stundin greindi frá því á dögunum að íslenskt vélhjólagengi æki nú undir merkjum Bad Breed MC en klúbburinn er yfirlýstur stuðningsaðili hinna alræmdu glæpasamtaka Bandidos. Bad Breed MC á rætur sínar að rekja til Stokkhólms í Svíþjóð og var klúbburinn stofnaður árið 2014. Það var síðan í mars á þessu ári sem Bandidos í Svíþjóð héldu sérstaka veislu til heiðurs Bad Breed MC þar sem klúbburinn var formlega staðfestur sem einn af stuðningsklúbbum samtakanna. Íslenski klúbburinn var stofnaður í sumar og hafa hlutirnir þróast nokkuð hratt síðan þá en líkt og Stundin greindi frá þá er þetta fyrsti Bad Breed MC-klúbburinn sem stofnaður er utan Svíþjóðar.
Stóðu ekki við sitt gagnvart Hells Angels
Athygli vekur að Bad Breed MC Iceland er með aðstöðu á sama stað í Garðabæ og annar klúbbur sem komst í fjölmiðla hér á landi fyrir fáeinum árum. Sá klúbbur hét Devils Choice og var yfirlýstur stuðningsklúbbur Hells Angels. Meðlimir klúbbsins byrjuðu sem Hog Riders en eftir inntökuferli lögðu þeir niður það nafn og tóku upp nafnið Devils Choice. Sá klúbbur varð hins vegar ekki langlífur en honum var lokað fyrir rúmu ári síðan og komu meðlimir Hells Angels á Íslandi að því. Sökuðu meðlimir Hells Angels meðlimi Devils Choice hér á landi að „standa ekki við sitt“ gagnvart samtökunum og voru því allar merkingar tengdar Devils Choice og Hells Angels fjarlægðar úr klúbbhúsinu í Garðabæ. Heimildarmaður Stundarinnar úr röðum Hells Angels segir að meðlimir Devils Choice hér á landi hafi bara „langað til að vera eitthvað. Þeir rifu síðan bara kjaft og voru með endalausan hroka og stæla þannig að það var bara farið og merkin tekin af þeim og allt klúbbatengt.“
„Um var að ræða fjórar byssur, þar af eina afsagaða haglabyssu, um fimmtíu hnífa, skotfæri og hnúajárn.“
En fyrrum meðlimir Devils Choice virðast ekki hafa gefist upp á því að koma á fót tengingu við alþjóðleg glæpasamtök því farið var af stað með þá hugmynd að stofna nýjan klúbb og voru Íslendingarnir í viðræðum við Svía. Þeir sænsku stefndu þá ótrauðir á það að verða stuðningsklúbbur Bandidos sem varð síðan raunin í mars á þessu ári eins og áður segir. Útlit er fyrir að meðlimir Bad Breed MC Iceland stefni á að gerast fullgildir meðlimir Bandidos en það á eftir að taka einhvern tíma, mögulega einhver ár ef litið er á forsögu margra klúbba sem síðar hafa sameinast samtökum á borð við Bandidos.
Athugasemdir