Ég held að það komi mörgum á óvart að ég sé kristniboði,“ segir Kristján hlæjandi þar sem við sitjum á skrifstofu hans hjá Samtökum íslenskra kristniboða. Kristján segir að í æsku hafi hann haft ríka réttlætiskennd og gjarnan sett spurningarmerki við yfirvaldið. „Ég er lítið fyrir að láta segja mér hvað á að gera og hvernig á að gera. Ég var fljótur upp og alltaf að rífa kjaft og koma mér í vandræði.“
Sextán ára ákvað hann að fara út í heim og safnaði fyrir skiptinámi erlendis. Næstu árin var hann alltaf með annan fótinn í Evrópu, var ansi víðförull og lenti í ýmsum ævintýrum. Að loknu stúdentsprófi hélt hann svo til Þýskalands, þar sem líf hans átti eftir að taka nýja stefnu.
Þar kynntist hann stúlku sem gaf honum Biblíuna. Hann hóf lesturinn, fyrst og fremst til að sýna fram á vitleysuna, en það snerist heldur betur í höndunum á honum. „Í dag get ég ekki hugsað mér að fara í gegnum daginn án þess að lesa í Biblíunni. Þangað sæki ég mína andlegu næringu.
Síðan horfði ég á umhverfið og það hvernig fólk hagar lífi sínu og sá hvað það er lítið á mannkynið að treysta. Ég horfði á sólina og stjörnurnar og spurði þessara spurninga, hver er ég, hvaðan kem ég og hvað gerist þegar ég dey. Einu svörin sem ég fann voru í Guðs orði.“
Kynntist konunni á kristilegum fundi
Kristján ákvað að koma heim í viðskiptafræðina og kláraði hana. Á þessum tíma hélt hann áfram að lifa þessu veraldlega lífi og fara út með strákunum. Trúnni hélt hann fyrir sig og mætti í messu í Hallgrímskirkju þar sem enginn þekkti hann. „Ég vissi alltaf að þetta væri ekki það sem Guð vildi að ég gerði en ég hafði engin tengsl við kristilegt samfélag á Íslandi. Ekki fyrr en ég sá auglýsingu frá félagi kristilegra stúdenta og ákvað að fara þangað. Ég mætti snemma og fyrsta manneskjan sem ég sá er núverandi eiginkona mín.“
Hann hafði reyndar séð til hennar áður. Þremur mánuðum fyrr hafði hann setið einn á kaffihúsi og flett blöðunum þar sem hann rakst á viðtal við brosmilda stúlku sem sagði frá sjálfboðastarfi í Afríku. „Ég man að ég hugsaði með mér hvað hún væri falleg og góð. Síðan hugsaði ég ekki meira um það, þar sem ég vissi engin deili á þessari stúlku.
Um leið og ég sá hana aftur kveikti ég, þótt ég sé almennt ekki mannglöggur maður. Ég gat náttúrlega ekki sagt henni það, en ári síðar vorum við gift og nú eigum við fimm börn.“
Köllun um kristniboð
Kvöldið sem þau náðu saman sagði hún honum frá köllun sinni um að fara til Afríku sem kristniboði. Á sömu stundu vissi Kristján að hann vildi fara með henni. „Ég var tilbúinn til að fara strax en hún þurfti að fara í gegnum fjögur ár og mikinn tilfinningarússíbana til að gefa endanlegt samþykki fyrir því. Á meðan var ég bara að bíða.“
Alls voru þau úti í fimm ár. Fyrst í tvö og hálft ár í höfuðborginni Addis Ababa og síðan á meðal frumbyggja í eyðimörkinni. Fyrsta verkefnið var að læra tungumálið, ahamarísku, sem er tungumál amhari þjóðflokksins sem er herraþjóðin í Eþíópíu, landi þar sem sjötíu þjóðflokkar búa, hver með sitt tungumál og menningu.
Athugasemdir