Fjölmargir ferðamenn lentu í skakkaföllum vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra fyrr í mánuðinum en ein þeirra, háskólaprófessorinn Merryn Dawborn-Gundlach frá Ástralíu, segir í samtali við Stundina að hún hafi upplifað óskipulag og almenn ömurlegheit þegar þrettán klukkutíma töf varð á flugi hennar frá Íslandi til Hamborgar.
Hún átti flug með flugfélaginu Eurowings mánudaginn 6. júní síðastliðinn klukkan tíu mínútur í eitt eftir miðnætti og segir að ósköpin hafi byrjað um leið og farþegum hafi verið gert að fara frá borði.
Algjört öngþveiti og engar upplýsingar
„Við fengum engar upplýsingar um hvað hefði gerst. Við vorum bara rekin frá borði og smalað inn í flugstöðina eins og hópi af sauðfé. Við fengum engar skýringar eða upplýsingar um það hvað við ættum að gera eða hvert við ættum að fara. Við fengum á endanum innihaldslausa tilkynningu frá starfsmanni flugvallarins sem virtist hafa lúmskt gaman af allri athyglinni sem hún fékk. Hún hafði í raun ekkert að segja og virtist ekki hafa nein völd til þess að ákveða eða gera nokkuð í okkar málum,“ segir Merryn sem var mikið niðri fyrir vegna málsins.
Athugasemdir