„Þið eruð að ræna barninu mínu,“ segir örvæntingafull móðir, Steinunn Hjartardóttir, á hljóðupptöku sem Stundin hefur undir höndum. Orðunum beinir hún að starfsmönnum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar sem þennan sama dag greip til neyðarráðstöfunar í lögum til að fjærlægja dóttur Steinunnar af Vinakoti, einkarekins meðferðarúrræðis fyrir börn með fjölþættan vanda, til þess að koma henni í fóstur. Samkvæmt lögum er úrræðinu beitt þegar barn er talið í bráðri hættu, en ljóst er að það átti ekki við í þessu tilviki. Vinakot er hins vegar dýrt úrræði og grunar Steinunni að það hafi einmitt verið hár kostnaður sem hafi legið að baki þessari ómildu ákvörðun.
Forstöðukona Vinakots segir ekkert jafnræði ríkja um þetta eina úrræði sem hún viti til að sérhæfi sig í meðferðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Málaflokkurinn sé á herðum sveitarfélaganna, sem séu misburðug og með ólíkar áherslur. „Það gerir það að verkum að það er misjafnt eftir því hvar þau búa hvaða úrræði standa þeim til boða,“ segir hún.
Blaðamaður Stundarinnar fór á stjórnarfund Olnbogabarna, hlustaði á reynslusögur mæðra sem eiga börn með fjölþættan vanda og fékk að heyra hvað brennur á þeim. Fyrst og fremst segja þær skorta úrræði og að eina úrræðið sem sé í boði sé ekki nógu aðgengilegt. Ríkið þurfi að gera þjónustusamning við Vinakot eða setja á laggirnar sambærilegt úrræði. Þá þurfi að grípa mikið fyrr inn í með viðeigandi úrræðum í stað þess að setja vægu tilfellin neðst í bunkann og bíða eftir að þau verði alvarleg.
Send í sveit
Steinunn segist hafa vitað það strax í leikskóla að dóttir hennar væri öðruvísi en önnur börn. Snemma hafi hegðunarvandi gert vart við sig og þá var hún seinni í þroska en jafnaldrar hennar. Samt sem áður var ekki talin þörf á að senda hana í greiningu. Það var ekki fyrr en í fimmta bekk að hún var greind með ADHD og lesblindu. Síðar bættust við þunglyndi, kvíði og ódæmigerð einhverfa. Nám hefur ætíð vafist fyrir henni og í fimmta bekk byrjaði hún að skrópa í skólanum. „Ég þrjóskaðist of lengi við að fá hana til að læra og mæta í skólann,“ segir Steinunn. „Við nánast slógumst. Það var viðvarandi stríðsástand á heimilinu, því ég taldi mig þurfa að sjá til þess að hún sinnti
Athugasemdir