Frammistaða íslenskra nemenda í PISA-könnuninni hefur aldrei verið verri og er áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug, læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá fyrstu könnun og lesskilningur er einnig undir meðaltali OECD-ríkja. Í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða, meðal annars með því að athuga hvað hægt sé að læra af reynslu annarra landa, svo sem nágranna okkar á Norðurlöndum. Þá hefur Kennarasamband Íslands lýst yfir áhyggjum af niðurstöðum könnunarinnar og kallar á eftir aðgerðum sem fela ekki í sér skyndilausnir, heldur lausnir til langs tíma og felast í að bæta starfsaðstæður kennara og námsaðstæður nemenda.
Ef litið er til annarra Norðurlanda stendur Finnland upp úr. Síðan niðurstöður fyrstu PISA-rannsóknanna voru birtar árið 2001 hafa Finnar ávallt verið í efstu sætum í þeim greinum sem þar eru skoðaðar; stærðfræði, frammistöðu í lestri og náttúrufræði. Íslendingar hafa yfirleitt verið í meðaltali þegar kemur að PISA, en hafa þó dalað umtalsvert síðustu ár. Þegar leitað er að ástæðu þessara niðurstaðna kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.
Uppbygging skólakerfis landanna er talsvert ólík. Mikil valddreifing er í finnska menntakerfinu á móti mikilli miðstýringu hins íslenska. Sveitarfélög, skólastjórnendur og kennarar hafa umtalsvert meira frelsi í starfi í Finnlandi en hér á landi hvað varðar áherslur, úrlausnir, námsefni og kennsluaðferðir. Einnig er mikil virðing borin fyrir kennararstéttinni í Finnlandi og árlega sækja bestu nemendur landsins um að komast í kennaranám, þar sem færri komast að en vilja.
Finnskir skólar virðast þjóna nemendum sínum vel, óháð fjölskyldumynstri, efnahagslegum bakgrunni eða getu.
Eins og áður segir hafa Finnar borið af í námsárangri undanfarna áratugi, sérstaklega í grunnskólum. Þessi góði árangur er einnig áberandi jafn á milli skóla. Finnskir skólar virðast þjóna nemendum sínum vel, óháð fjölskyldumynstri, efnahagslegum bakgrunni eða getu. Þær hægfara breytingar sem átt hafa sér stað á finnska skólakerfinu hafa skilað sér í árangri á heimsmælikvarða og hefur vakið forvitni heimsbyggðarinnar á því hvað það er sem Finnar eru að gera rétt.
Tilraunir til að afrita árangurinn
Fyrir árið 2000 voru Finnar sjaldnast ofarlega á listum yfir lönd með bestu menntakerfin. Finnland hefur að vísu ávallt komið vel út í mælingum á læsi en í þeim fimm mælingum sem til eru á milli 1962 og 1999, sem tóku saman frammistöðu í stærðfræði og vísindum, komust Finnar aldrei yfir meðaltalið. Ávinningur Finna í þessum efnum hefur gerst smám saman á síðustu fjórum áratugum. Hin góða staða nú er vegna stöðugrar, hægrar framþróunar en ekki afleiðing áberandi róttækra umbóta sem einn flokkur eða stjórnmálamaður stóð fyrir.
Athugasemdir