Stærsta glæpamál síðari ára á Ströndum kom upp í Norðurfirði í sumar þegar svissneskt par rændi kaupfélagið og kom sér upp matarholum í fjarlægð frá tjaldi sínu. Hluti af ránsfengnum, sem metinn er á tugi þúsunda voru handprjónaðir sokkar sem Ágúst í Steinstúni gerir af hreinni list.
Svissneska parið dvaldi um tíma í Árneshreppi og lenti meðal annars í slagviðri. Þá gripu þau til þess að „brjótast“ að næturþeli inn í sundlaugina í Krossnesi og leggja húsið undir sig í því skyni að þurrka pjönkur sínar. Þegar Sigrún Sverrisdóttir sundlaugarstjóri kom til vinnu sinnar var allt undirlagt af farangri Svisslendinganna sem þeir höfðu dreift úr um allt.
Sigrún fyrirskipaði þeim að hirða dót sitt, en grunaði parið ekki um annað misjafnt en innbrotið. Þau hlýddu. Nokkru eftir brotthvarfið varð hún vör við torkennilega og ágenga lykt í búningsklefa. Við athugun kom í ljós að ullarsokkum hafði verið troðið á bak við ofn. Við þurrkinn kom óþefurinn. Sigrún sá strax að sokkarnir voru með listileghandbragði Ágústar í Steinstúni. Í ljós kom að hann hafði komið með sokkana í kaupfélagið en ekkert hafði enn verið selt. Aftur á móti voru sokkar horfnir. Þar með byrjaði boltinn að rúlla og glæpamálið var upplýst. Slóð afbrota þeirra lá víða. Svissneska parið var síðar dæmt fyrir Héraðsdómi vestfjarða til sektar fyrir brot sín og greiddi kaupfélaginu sitt. Þau voru bókuð af landi brott í byrjun september en ekkert hefur til þeirra spurst um tíma.
Athugasemdir