Slæmur starfsandi, mikið vinnuálag og lítil starfsánægja einkennir vinnuumhverfið á 365 miðlum, stærsta og áhrifamesta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Þetta er álit þeirra blaða- og fréttamanna sem Stundin hefur rætt við og í samræmi við niðurstöður vinnustaðagreiningar sem Capacent Gallup framkvæmdi að ósk fyrirtækisins og kynnti starfsmönnum fyrr á árinu.
Nýlega sögðu tvær reyndar blaðakonur hjá Fréttablaðinu upp störfum, annars vegar Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, og hins vegar Viktoría Hermannsdóttir, sem ritstýrt hefur helgarblaðinu ásamt Ólöfu Skaftadóttur, sem er dóttir Kristínar Þorsteinsdóttur aðalritstjóra.
Á starfsmannafundi sem haldinn var 10. ágúst síðastliðinn voru stjórnendur 365 miðla hvattir til naflaskoðunar í ljósi þess að hæfir blaðamenn á borð við Fanneyju og Viktoríu gætu ekki hugsað sér að starfa lengur hjá fyrirtækinu. Orð Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda fyrirtækisins, um að fjármálastjóri fyrirtækisins ætlaði að halda partí vöktu litla lukku.
Athugasemdir