Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til mennta- og menningarmálaráðherra um starfslokasamninga á RÚV. Vill hann meðal annars fá að vita hversu háar starfslokagreiðslur RÚV voru á rekstrarárunum 2013 til 2015 í krónum og hvernig greiðslurnar skiptast á starfsmenn. DV bað um þessar sömu upplýsingar í janúar á síðasta ári en RÚV hafnaði þeirri kröfu. DV kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar upplýsingamála og í janúar síðastliðnum staðfesti nefndin að RÚV þyrfti ekki að afhenda starfslokasamningana. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að aðeins útvarpsstjóri teljist til æðstu stjórnenda og því eigi upplýsingalögin aðeins við um hann.
Svona hljóðar fyrirspurn Karls Garðarssonar til mennta- og menningarmálaráðherra:
1. Hversu háar voru starfslokagreiðslur RÚV á rekstrarárunum 2013–2015 í krónum, hversu margir starfsmenn fengu starfslokasamninga og hversu háar voru hæstu og lægstu greiðslur?
2. Hvernig skiptast greiðslurnar á starfsmenn, þ.e. hverjir fengu greiðslur og hversu háar?
3. Hversu margir þeirra sem hættu störfum á tímabilinu hafa verið endurráðnir, hversu margir þeirra sem hafa verið endurráðnir fengu starfslokasamninga, hverjir eru það og frá hvaða tíma voru þeir endurráðnir?
Athugasemdir