Það er mýta að Hollendingar hafi blekkt indiána til að selja sér Manhattan fyrir verðlitlar glerperlur og eldvatn. Þó að þetta sé tilbúningur hefur sagan engu að síður orðið minni um skekkta samningsstöðu í samningum um náttúruauðlindir þar sem „skrælingjarnir“ fara með skarðan hlut frá borði. Það er freistandi að máta hana við 50 ára stóriðjusögu Íslendinga.
Megnið af raforkuauðlind þjóðarinnar, eða um 80%, er selt til stóriðju og er Landsvirkjun langstærsti orkusalinn. Fyrir nokkrum árum vakti það töluverða athygli þegar Hörður Arnarsson, forstjóri fyrirtæksins, lýsti því yfir að arðsemi Landsvirkjunar hefði verið óviðunandi. Fram til þessa hefði pólitískur forstjóri Landsvirkjunar aldrei hreyft við slíku og allri gagnrýni verið eytt með vísan til leyndar og óljósra fullyrðinga um þjóðhagslega hagkvæmni.
Þessi óarðbærni var síðan staðfest fyrir þremur árum þegar Háskólamennirnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson birtu rannsókn á arðsemi Landsvirkjunar til stóriðju á árunum 1966-2010. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að fyrirtækið hefði tapað tugmilljörðum miðað við eðlilega arðsemiskröfu (7-9%). Miðað við þær stærðir, sem þóttu varleg viðmið, miðað við þá áhættu sem fyrirtækið væri að taka, var tapið 40-180 milljarðar. Það var öll eftirtekjan eftir nærri hálfrar aldar raforkusölu til stóriðju. Tap en ekki gróði.
Indriði H. Þorláksson hagfræðingur mat einnig efnahagslegan ávinning Íslands af starfsemi stóriðjuvera og komst að því að hann „...sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1 – 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.“
Niðurstaðan er skýr; orkuauðlind þjóðarinnar hefur verið seld undir raunkostnaðarverði, miðað við eðlilega arðsemiskröfu og efnahagslegur ábati Íslands af stóriðjunni er lítill. Arðurinn fer nær allur úr landi. Þetta er mikill áfellisdómur.
Rétt er þó að geta þess að Hagfræðistofnun lét vinna úttekt 2012, undir yfirstjórn Ragnars Árnasonar prófessors, um ábata þjóðarbúsins af áliðju þar sem fræðimennirnir reiknuðu það út að 6-6,8% af vergri landsframleiðslu væri framlag áliðnaðar. Þar er ekki minnst orði á tekjuskatt. Samál, félag erlendu álbændanna, kostaði rannsóknina.
Gjöf en ekki gjald
Íslensk stóriðjuorka er ódýr og hefur ríkisvaldið jafnvel hrópað það á mörkuðum erlendis að hér sé hægt að fá billegan straum. Síðan hefur því verið hampað sem stórkostlegum samningasigri þegar erlend risafyrirtæki gerast náðarsamlegast kaupendur að ódýru orkunni og seilast í vasann eftir glerperlunum. Markaðsmenn í útlöndum hafa líka tekið eftir þessu.
Athugasemdir