Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Lyklabörnin í Reykjavík

Rúm­lega þrjú hundruð börn bíða enn eft­ir plássi á frí­stunda­heim­il­um í Reykja­vík þó rúm­ur mán­uð­ur sé lið­inn frá því skipu­lagt skólastarf hófst. Marg­ir þess­ara yngstu nem­enda grunn­skól­anna eru því komn­ir með lykla um háls­inn, síma í vas­ann og sjá um sig sjálf­ir hluta úr degi. Hvað eru þeir að gera á dag­inn og hvernig horfa mál­in við þeim?

Um þrjú hundruð börn eru enn á biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir plássi á frístundaheimili. Flest þeirra búa í Norðlingaholti en 80 börn eru á biðlista í Klapparholti. Í Vesturbæ Reykjavíkur bíða um sextíu börn enn eftir að komast að í Frostheimum. Þá eru um fimmtíu börn á biðlista Sólbúa við Breiðagerðisskóla.

Afar erfiðlega hefur reynst að fá starfsfólk í Guluhlíð og Öskju, sem er frístundaþjónusta fyrir börn og unglinga í Klettaskóla. Þar var brugðið á það ráð að bjóða hlutavistun. Í Öskju fá börn nú vistun þrjá daga í viku en börnin í Guluhlíð aðeins í 2–3 daga.

Soffía PálsdóttirYfirmaður frístundamiðstöðva hjá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg hefur borist 4.600 umsóknir um frístundaheimili þetta árið. Á sama tíma í fyrra voru umsóknir í heild 4.400. Þeim fjölgaði um 600 frá því að skóli hófst 22. ágúst. Soffía Pálsdóttir, yfirmaður frístundamiðstöðva og tengdrar þjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir að þetta sé hluti vandans. Margir hafi sótt seint um og erfitt hafi reynst að leggja mat á þörfina. „Það saxast lítið á biðlistann þegar bætist alltaf við umsóknir,” segir hún en tekur þó undir að að öll grunnskólabörn ættu að geta gengið að plássi sem vísu. „Um 98 prósent barna í 1. og 2. bekk eru í vistun hjá okkur. Barn sem er ekki í frístund hefur engan til að leika við þegar heim er komið, þannig að auðvitað ættum við að gera ráð fyrir öllum börnum og gerum það í fjárhagsáætlun. En við erum í harðri samkeppni um starfsfólk.”

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár