1. Sigin grásleppa
Ég er alin upp af kennurum og móður sem var bæði kennari og skólastjórnandi í fullu starfi, sex barna móðir og mjög virk stjórnmálakona sem tók meðal annars þátt í stofnun Kvennalistans og kjarabaráttu kennara. En hún var einnig mjög listræn og það segir í raun allt sem segja þarf um það mataræði sem ég var alin upp við. Skynsemi, tímaþröng, einfaldleiki en á sama tíma ótrúlega mikil frumlegheit og bragðgæði á heimsmælikvarða. Hún var einstaklega lunkin við að henda í dýrindis rétti þrátt fyrir að vera alltaf í fullu starfi og með allan krakkaskarann. Við mamma áttum okkar sérstöku stundir þegar hún keypti signa grásleppu og sauð örstutt ásamt kartöflum og smjöri, en sigin grásleppa hefur verið einn af mínum uppáhalds réttum síðan. Þessi réttur minnir mig líka á grásleppurnar sem grásleppukarlarnir veiddu út frá Ægisíðu og svo sauð mamma líka oft rauðmaga sem mér fannst algjört sælgæti. Hún var mikill Vesturbæingur.
Athugasemdir