Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Allt það sem Bjarni vissi ekki

Vörn Bjarna Bene­dikts­son­ar, for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, í lög­reglu-, dóms- og spill­ing­ar­mál­um, er sú sama: Hann vissi ekki.

Á undanförnum árum hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nokkrum sinnum þurft að svara fyrir gjörðir sínar opinberlega. Vörn hans í flestum málunum er samhljóða: Hann vissi ekki hvað hann gerði eða hvað gerðist.

1 Vissi ekki hvað hann veðsetti

Bjarni skrifaði í febrúar 2008 undir samning í umboði eigenda félagsins Vafnings. Við tók flókin viðskiptaflétta, þar sem Vafningur fékk lánaða 10,5 milljarða króna til þess að endurfjármagna félagið Þáttur International, sem var í eigum Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Benedikt er faðir Bjarna.

Rannsókn Sérstaks saksóknara snérist um meinta misnotkun á bótasjóði tryggingafélagsins Sjóvár. Tæplega 20 milljarðar af þeim 23 milljörðum króna sem í í bótasjóðnum voru töpuðust. Það gerðist af því að eigendur fyrirtækjanna Sjóvár og Milestone létu tryggingarfélagið lána eignarhaldsfélögum sínum, þar á meðal Vafningi, þessar fjárhæðir til þess að borga skuldir upp á tugi milljarða króna við erlendan fjárfestingarbanka. Sömuleiðis hlaut Vafningur 15 milljarða lán hjá Glitni vegna þessa. 

„innihaldslausar pólitískar árásir…“

Árið 2011 gerði Ingi Freyr Vilhjálsson þetta mál hans Bjarna að umtalsefni í leiðara sínum „Sekt og sakleysi Bjarna Ben.“ Þar komst hann svona að orði: „Bjarni Benediktsson tók þátt í þessum viðskiptum með því að veðsetja hlutabréfin í Vafningi fyrir láninu hjá Glitni. Þetta gerði Bjarni fyrir hönd föður síns og frænda. Hann var því einnig að verja óbeina hagsmuni sína með því að taka þátt í viðskiptunum. Um lánið frá Glitni sem Bjarni veðsetti eignir Vafnings fyrir segir í rannsóknarskýrslu Alþingis: „Hér er um að ræða skýr brot á reglum um lán til tengdra aðila. Í raun hafði Glitnir í sjónhendingu afhent um 6,8% eigna sinna og án þess að tilkynna það opinberlega!““

Bjarni segist sjálfur ekki hafa vitað hvað hann veðsetti í Vafningsmálinu, og sagði hann sjálfur að öll umfjöllun um málið væri „innihaldslausar pólitískar árásir…“ 

2 Vissi ekki af fjárfestingu föðurbróður

Í lok ársins 2014 seldi Landsbankinn, sem er í eigu ríkissins, félagi í eigu Einars Sveinssonar, frænda Bjarna, Borgun í lokuðu söluferli. Fyrirtækið greiddi svo fyrri eigendum sínum arð upp á 800 milljónir króna, sem var fyrsta arðgreiðsla þess síðan 2007. 

Lágt söluverð Borgunar var einnig harðlega gagnrýnt, en félagið var selt á 2,2 milljarða. Það hagnaðist svo um 1,4 milljarða árið eftir, og var eigið fé þess 4 milljarðar í lok síðasta árs. Allt bendir til þess að söluverðið hafi verið of lágt miðað við hefðbundna mælikvarða verðmata á sambærilegum fyrirtækjum.

„Þessi blaðamennska er fyrir mér skandall.“

Salan á Borgun var umdeild. Hluturinn var ekki auglýstur til sölu, en íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með um 98 prósent hlut. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði meðal annars að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli. Ekki er ljóst hvers vegna var ákveðið að fara aðra leið, og þykir gríðarlega óheppilegt að náinn frændi Bjarna hafi fengið sérmeðferð af þessu tagi. 
Sagði Bjarni að umfjöllun um tengsl hans við söluna á Borgun væru dylgjur og að skandallinn í málinu lægi alls ekki hjá sér, heldur blaðamönnum: „Þessi blaðamennska er fyrir mér skandall.“

3 Vissi ekki af innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutinn sinn

Samkvæmt hluthafalista Glitnis yfir stærstu hluthafa bankans á árunum 2006 til 2008 seldu Bjarni og faðir hans Benedikt Sveinsson rúmlega 57 milljón hluti til samans í bankanum, nokkrum mánuðum áður en efnahagskerfi Íslands hrundi. Þeir virðast því hafa misst trúna á því hversu stöndugur bankinn var töluvert löngu áður en hann hrundi í lok september árið 2008.

Segist Bjarni ekki hafa búið yfir neinum trúnaðar- eða innherjaupplýsingum þegar hann ákvað að selja hlutabréfin sín. Á sama tíma og hann seldi bréfin sat hann í efnahags- og skattanefnd Alþingis. 7. febrúar 2008 átti svokölluð súperráðherranefnd fund með bankastjórn Seðlabankans, en í henni sátu forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er talað um hvernig Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans dró á fundinum upp „mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna. Upplýsingarnar bentu til yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf“ segir í skýrslunni.

Þingflokki Samfylkingarinnar var svo tilkynnt efni fundarins fjórum dögum seinna. Þannig var þessi vitneskja á vitorði fleiri en aðeins þeirra embættismanna sem sátu fundina. Viku seinna seldi Benedikt svo hlut í Glitni fyrir um 850 milljónir króna. 

Bjarni seldi sín bréf líka, en fyrir þau fékk hann 126 milljónir. Hefur hann ekki sagst muna hvenær hann seldi bréfin, en að ákvörðun þeirra feðga um söluna séu algjörlega ótengd þeim trúnaðarupplýsingum sem þeir bjuggu yfir og komið hafði fram á lokuðum fundum.

Sagðist Bjarni einfaldlega hafa séð óveðursský á lofti þegar hann seldi bréfin, en engar trúnaðarupplýsingar hafi komið þar að. Ákvörðunin hafi verið byggð á opinberum upplýsingum.

Vert er að geta þess að Bjarni var einn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, utan ráðherraliðsins, sem voru inni í málum í aðrdraganda hrunsins, enda voru þeir Illugi Gunnarsson sérstaklega kallaðir til skrafs og ráðagerða dagana fyrir hrun.
Sagði Bjarni málið vera eðlilegt og að hann vilji að öðru leyti ekki tjá sig um sín persónulegu fjármál. Átti þessi sala sér stað á sama tíma og gjörningar Bjarna með Vafning voru að þróast.

4 Vissi ekki um lekann (þótt sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu hefðu rannsakað hann)

Í gegnum allt lekamálið svokallaða studdi Bjarni vopnasystur sína Hönnu Birnu eindregið, jafnvel eftir að í ljós kom að lekinn hefði verið á hennar ábyrgð, aðstoðarmaður hennar hefði verið dæmdur og hún sagt af sér.

Rekstrarfélag Stjórnarráðsins heyrir undir fjármálaráðuneytið. Hanna Birna fól rekstrarfélaginu sjálf að gera athugun á því hvort einhver trúnaðargögn hefðu lekið til aðila sem ekki áttu rétt á þeim lögum samkvæmt. Komst félagið að því að engum gögnum hefðu verið lekið, þrátt fyrir að hafa rannsakað tölvupóstssamskipti aðstoðarmanns Hönnu Birnu þar sem lekinn kemur bersýnilega fram. Aðspurður hvort Bjarni, sem æðsti yfirmaður þessa rekstrafélags sem virtist jafnvel hafa tekið þátt í að hylma yfir lekann, væri ekki í raun samsekur í málinu sagði Bjarni: „Það er algjörlega fráleit nálgun.“

„Það er algjörlega fráleit nálgun.“

Gísli Freyr aðstoðarmaður Hönnu Birnu var að lokum dæmdur fyrir lekann og Hanna Birna sagði af sér ráðherraembætti. Sagðist Bjarni í kjölfarið treysta henni fullkomnlega, og sagði að hún ætti óskorað traust þingflokksins og taldi engann vafa á því að hún ætti afturkvæmt á Alþingi.

5 Vissi ekki að hann ætti félag í skattaskjóli

Snemma á síðasta ári komu fram fréttir þess efnis að skattrannsóknarstjóra ríkissins stæði til boða að kaupa gögn sem innihéldu upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Var fljótlega settur þrýstingur á Bjarna að ganga á eftir því, svo varpa mætti ljósi á þá sem reyndu að koma peningum undan skatti hér á landi. 

Lét hann hafa það eftir sér að ekki kæmi til greina að greiða fyrir gögn um meint skattaundanskot Íslendinga erlendis með ferðatöskum af seðlum. 

„Það stang­ast á við lög“

„Ríkið get­ur ekki af­hent nafn­laus­um ein­stak­ling­um sem ekki geta gefið út reikn­inga stafla af tíu þúsund króna seðlum. Það stang­ast á við lög og við því verður að bregðast ef eitt­hvað slíkt er uppi á borðum,“ sagði Bjarni.

Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, sagði að svo virtist sem frændhyglin væri að þvælast fyrir fjármálaráðherra, og lét einnig hafa eftir sér: „Hann dregur þjóð sína á asnaeyrunum.“

Bjarni sagði um­mæli Birgittu vera ómerki­leg og þvætt­ing, þar sem hann hafi þvert á móti beðið óþol­in­móður eft­ir því að fá fram­kvæmd í málið. „Mér hef­ur fund­ist þetta mál taka of lang­an tíma,“ sagði Bjarni. „En það er aðal­atriðið að fá í það niður­stöðu og von­andi get­ur þetta orðið að gagni við að upp­ræta skattsvik vegna þess að í mínu ráðuneyti, á meðan ég sit þar, verður ekk­ert skjól að finna fyr­ir þá sem ekki hyggj­ast standa und­ir sín­um sam­fé­lags­legu skuld­bind­ing­um og greiða skatta.“ 

Bjarni sagðist ennfremur í Kastljósi 11. febrúar í fyrra hvorki eiga eignir né hafa átt viðskipti í skattaskjólum.

Eftir að í ljós kom svo að þvert á fyrri yfirlýsingar átti Bjarni einmitt 40 milljónir króna í fyrirtækinu Falson og Co. sem var skráð á Seychelles eyjum kom annað hljóð í strokkinn. Sagðist Bjarni þá ekki hafa vitað að félagið væri skráð í þekktu skattaskjóli, og að þessi skortur hans á vitneskju væri ástæðan fyrir því að hann fór með rangt mál í Kastljósi. Hann hafi allan tímann haldið að félagið væri í Lúxemborg. „Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði.“ Ennfremur segir hann að sér þyki þetta miður „en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi.“ Bjarni hefur enn engin gögn lagt fram sem taka af allan vafa um hvort allar eignir hans í þessu alþekkta skattaskjóli hafi verið gefnar upp til skatts.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár