Aðalmeðferð fór fram í máli Sigurðar Brynjar Jenssonar og annars manns, fæddur árið 1988, í dag en tvímenningarnir eru sakaðir um frelsissviptingu og rán í sameiningu meðan hinn maðurinn er sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás. Samkvæmt ákæru sviptu þeir stúlku á 19. ári og karlmann á 22. ári frelsi sínu.
Sigurður Brynjar neitaði sök við héraðsdóm en hann var í sumar dæmdur fyrir aðild að Vogamálinu svokallaða. Atvikið sem hann er nú ákærður fyrir átti sér stað aðeins mánuði eftir að dómur féll í því máli.
Einn liður ákærunnar beinist eingöngu að eldri manninum en hann er sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás í tengslum við málið. Maðurinn er sagður hafa skorið karlmanninn með hnífi í hægri fótlegg og er hann lá á grúfu á gólfi íbúðarinnar slegið og sparkað í höfuðið á manninum. Hann er enn fremur sakaður um hafa slegið karlmanninn með hamri í höfuðið og stúlkuna með hamri í vinstri handlegg. Hann er sagður hafa skorið bæði stúlkuna og karlmanninn á vinstri kinn með hníf. Bæði hlutu þau fjögurra sentímetra langa skurði á kinnum. Hann viðurkenndi fyrir rétti að hafa beitt leatherman-hníf sínum á brotaþola.
Sefur með hamar undir koddanum
Sigurður bað um fresta skýrslutöku sinni sem hann og fékk. Því var byrjað á skýrslutöku hins mannsins, eða ákærða B til þæginda. Hann lýsti forsögu málsins á þá leið að báðir brotaþolar hafi komið til sín í heimsókn ásamt þriðja manni. Hann hafi síðar farið og sótt Sigurð og þegar heim var komið fóru þremenningarnir á brott. Þá hafi hann tekið eftir því að lyf í sinni eigu, seroquel og lyrica, hafi verið horfin. Enn fremur hafi sími Sigurðar ekki verið á sínum stað.
Hann og Sigurður hafi því farið að heimili stúlkunnar og þar sem hún hafi á endanum sagt honum að annar brotaþola hafi tekið lyfin. „Þá verð ég pirraður á henni, þá förum við aftur til þeirra og [brotaþoli] er sofandi og ég kýli hann en hann vaknar ekki við það, svo ég sker hann í löppina, mjög grunnt. Ég ætlaði ekki að meiða hann. Hann réttir mér örfáar töflur. Þá byrja ég að rispa [stúlkuna] og hann mjög grunnt í kinnina,“ sagði maðurinn í réttarsal. Hann ítrekaði að hún hafi ekki verið beitt harðræði og frelsi hennar hafi ekki verið skert.
Maðurinn er ákærður fyrir að ráðast á brotaþola með hamar. Hann neitaði því staðfastlega í réttarsala. „Það segir sig sjálft að ef ég hafi lamið þau ítrekað í hausinn með hamri væru þau dauð,“ sagði maðurinn. Spurður nánar út í orð sín í yfirheyrslu þar sem hann hafi sagt að hann svæfi með hamar undir koddanum svaraði maðurinn játandi og sagðist „ég er stundum paranojaður“.
Maðurinn gerði lítið úr aðkomu Sigurðar að málinu og neitaði enn fremur staðfastlega að hann hafi rænt brotaþola. „Ég tók tvær peysur sem [brotaþoli] var með í láni. Þau rændu símanum hans [Sigurðar]. Hann tók símann sinn til baka og síðan tók ég þessar töflur, þetta voru örfáar töflur. Maðurinn sagðist hafa verið vakandi í viku á amfetamíni þegar atvikið átti sér stað.
Með sýnilegt ör
Stúlkan kom því næst í skýrslutöku. Hún hóf mál sitt á því að lýsa því er hún var komin heim til sín frá heimili ákærða. Þá hafi Sigurður og karlmaðurinn verið fyrir utan íbúð sína þar sem þeir „öskruðu og görguðu“. Hún hafi komið með hugmynd að þriðji maðurinn, ekki brotaþoli, hafi rænt lyfjunum.
„Við áttum að hafa stolið síma og einhverjum pillum, fólk var byrjað að kvarta vegna hávaðans á ganginum, þeir sögðu að ég ætti að hjálpa þeim að finna þennan gæja sem átti að hafa stolið þessum síma. Við fórum heim til hans og tókum hann með okkur. Þeir voru hóta honum að sprauta hann með einhverju, berja hann og fara illa með hann,“ sagði stúlkan. Tekið skal fram það sem stúlkan lýsir hér að framan er ekki að finna í ákæru og nafn mannsins er ekki að finna þar.
Stúlkan sagðist hafa reynt að fá ákærðu til að hætta án mikils árangurs. Þriðji maðurinn hafi að lokum bent á annan brotaþola, ekki stúlkuna, og þá hafi Sigurður reiðst og sagt hana samseka.
„Þá byrjaði hann að reyna að berja mig í andlitið, sprauta einhverjum vökva á mig, hann byrjaði bara að vera fokking leiðinlegur,“ sagði stúlkan.
Þegar komið var að heimili hennar hafi [ákærði B] tekið hana „smá hálstaki á leiðinni svo ég myndi opna fyrir þeim, hann hrinti mér og var leiðinlegur,“ lýsti stúlkan. Þegar þangað var komið hafi þau farið inn í svefnherbergi þar sem brotaþolinn hafi verið sofandi. Stúlkan sagði að þá hafi ákærði B ráðist á manninn og meðal annars slegið hann nokkrum sinnum með hamri í hausinn. Hún var margspurð út í þetta atriði og svaraði staðfastlega að hún hafi séð manninn sleginn með hamri.
Spurð um áverka sýndi hún lögmönnum og dómara ör á kinn hennar eftir að [ákærði B] skar hann.
Athugasemdir