„Það er hægt að fara í annað hvert hús hér á Fáskrúðsfirði og biðja um reynslusögur af þessum manni. Það eiga allir til sögur af honum,“ segir Kjartan Freyr Hlöðversson, íbúi á Fáskrúðsfirði, en hann starfaði sjálfur í frystihúsinu þar til nýlega. Hann segist hafa orðið vitni að því þegar umræddur yfirmaður gerði athugasemdir við líkamsvöxt kvenna og þá segir hann manninn oftar en einu sinni hafa gert athugasemdir við holdafar hans og þyngd. „Hann hefur kallað mig feitan fyrir framan annað fólk og sagt hluti eins og að ég ætti ekki að borða með hinum í kaffinu því ég myndi klára allan matinn. Ég hló að þessu á þessum tíma, en eftir því sem ég hugsa meira um þetta þá sé ég að þetta eru mjög óviðeigandi ummæli. Það eru ekkert allir sem geta hrist svona athugasemdir af sér,“ segir Kjartan.
Töluverð ólga hefur verið meðal starfsfólks í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði síðustu vikur. Ung kona skrifaði grein í héraðsfréttamiðil Austurlands þar sem hún lýsti langvarandi kynbundnu áreiti í ónafngreindu frystihúsi fyrir austan, en jafnvel þótt hvorki bæjarfélag né gerandi hafi verið nefnd í greininni varð öllum á Fáskrúðsfirði ljóst um hvern væri að ræða. Stjórnendur Loðnuvinnslunnar brugðust strax við og réðu tvo sálfræðinga til að ræða við starfsfólk og vinna aðgerðaráætlun til að bregðast við ástandinu. Engu að síður óttast starfsfólk að ekkert muni breytast, málið verði kæft enn einu sinni og maðurinn fái að halda uppteknum hætti. Honum var ekki vikið úr starfi á meðan athugunin fór fram.
Athugasemdir