Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa sem afplánar nú dóm á Vernd, var um borð í þyrlunni sem brotlenti í gærkvöldi suður af Nesjavallavirkjun rétt fyrir átta í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er Ólafur fyrsti fanginn á Íslandi sem ferðast hefur með eigin loftfari yfir landinu á meðan hann afplánar dóm á Vernd.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir í samtali við Stundina að reglurnar séu mjög einfaldar. Fangar þurfi að skila sér á tilsettum tíma á áfangaheimili Verndar.
„Um helgar og á helgidögum sjá menn alfarið um sig sjálfir og ekki er gerð krafa um að menn séu í vinnu eða námi þannig að þeir hafa frjálsan tíma um helgar. Flestir nýta þann tíma til að vera með fjölskyldu og vinum en þetta er gert svo fangar geti aðlagast samfélaginu á ný, hægt og rólega,“ sagði Páll.
„Um helgar og á helgidögum sjá menn alfarið um sig sjálfir og ekki er gerð krafa um að menn séu í vinnu eða námi þannig að þeir hafa frjálsan tíma um helgar.“
Samkvæmt reglum um afplánun á Vernd þá eru fangar frjálsir ferða sinna frá 07:00 til 21:00 hverja einustu helgi.
Nýr raunveruleiki blasir við
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er það nú rætt hjá hinu opinbera og fangelsismálayfirvöldum hér á landi að bæta við lögum og reglum um þennan frítíma sem föngum gefst um helgar. Það hafi ekki komið fyrir áður að fangar hafi átt eða haft aðgang að loftförum og því sé þetta nýr raunveruleiki sem blasi við hér á landi. Samkvæmt sömu heimildum er í raun ekkert í lögum eða reglum um vistun á Vernd sem bannar föngum að fljúga landa á milli svo lengi sem þeir virða útivistartíma.
Þyrluferðir Ólafs vöktu athygli yfirvalda
Þannig gætu fjáðir fangar flogið að morgni laugardags til London, Parísar, Róm eða í raun hvert í heiminum sem er svo lengi sem þeir séu komnir aftur á áfangaheimilið fyrir klukkan 21:00. Samkvæmt sömu heimildum Stundarinnar voru það fréttir af ferðalögum Ólafs Ólafssonar og þyrlu hans sem vöktu áhuga manna á þessum reglum eða réttara sagt regluleysi.
Athugasemdir