„Auðvitað er þetta tabú í nútímasamfélagi. Fáir gefa frá sér barn. Ég á vinkonur sem hafa unnið á kvennadeild þangað sem unglingsstúlkur koma óléttar inn og eru að taka ákvörðun um það hvort þær eigi að fara í fóstureyðingu eða eiga barnið. Almenna umræðan snýst um þessa tvo kosti, en ekki þann þriðja, sem er að ganga með barnið og gefa það. Það var líka viðhorfið sem ég mætti á meðal minna vinkvenna. Ég átti bara að bíða þar til dóttir mín yrði eins árs – eins og ég þyrfti bara að afplána eitt ár og svo færi allt að blómstra.“
Þegar Hugrún Sigurjónsdóttir uppgötvaði að hún væri orðin barnshafandi íhugaði hún þann möguleika að fara í fóstureyðingu, en komst fljótlega að því að það væri ekki rétt ákvörðun fyrir hana. „Mig langaði að eiga þetta barn. Kannski lét ég undan því allir voru að óska mér til hamingju og tala um hvað þetta yrði æðislegt. Við það tvíefldist ég í þeirri skoðun að kannski hefði þetta bara átt að fara svona. Líka af því að ég var orðin svo gömul.“
Nokkrum árum áður hafði Hugrún farið til læknis að ræða getnaðarvarnir. Hann sagði henni að hafa ekki áhyggjur af því, hún væri komin á aldur. Svo liðu árin, þar til hún uppgötvaði allt í einu að hún var orðin barnshafandi. Hún hafði ekki ætlað sér það. Vel menntuð kona, sjálfstæð og hafði aldrei séð sjálfa sig fyrir sér sem einstæða móður. Kannski hefði hana langað til þess að eignast barn í langtímasambandi en fyrst það hafði aldrei orðið þá hafði hún í raun aldrei þurft að gera það upp við sig. Nú var hún orðin 45 ára, ein og ólétt eftir mann sem hún þekkti aðeins lauslega. Tæpum átta mánuðum síðar, þann 30. maí 2015, var hún orðin móðir, 46 ára gömul.
Athugasemdir