Hugi var ekki í sambandi við barnsmóður sína þegar hún varð ólétt. Þau höfðu kynnst lítillega í bænum og farið nokkrum sinnum heim saman. Tveimur mánuðum eftir síðasta stefnumótið fékk hann símtal, þar sem hann sat á Saffran og smjattaði á kjúklingi. Hann heyrði strax að það væri eitthvað mikið undir og brá í brún þegar hún tilkynnti honum að hún væri ólétt, 45 ára gömul. Það var sem tíminn stæði í stað. Sjálfur var hann 48 ára, tveggja barna faðir og ekki tilbúinn í frekari barneignir. Hún var hins vegar staðráðin í að eignast barnið og hann ákvað að taka þátt í því með henni.
Meðgangan gekk illa, barnsmóðir hans, Hugrún Sigurjónsdóttir, fékk meðgöngueitrun og í lok maí var hún gangsett fimm vikum fyrir settan dag. Fæðingin endaði með keisaraskurði og dóttir þeirra varði næstu sólarhringum á vökudeild, pínulítið og varnarlaust kríli. Fljótlega eftir heimkomuna fór kveisa að gera vart við sig og hún grét sáran, öllum stundum, svo mánuðum skipti. „Á tíu mánuðum var hún búin að grenja okkur bæði í bilun. Hún öskraði alla daga,“ útskýrir Hugi. Þau leituðu allra ráða, fóru til lækna og sérfræðinga sem fundu aldrei neitt að henni. „Ég hefði aldrei trúað því hvað það er mikið álag að sinna svona óværu barni. Á meðan barninu líður illa grefur það um sig í hjartanu og þig verkjar fyrir hönd barnsins alla daga. Það er engin gleðitilfinning sem fylgir því að vera með barn sem er í stöðugri vanlíðan.“
Þau reyndu allt. Eftir nokkra mánuði reyndu þau jafnvel óhefðbundnar leiðir, fóru með hana til heilara sem lagði hendur yfir höfuð hennar og vísaði þeim síðan til kírópraktors sem togaði stelpuna og teygði. „Ég var alltaf með þá kenningu að hún væri með verki í bakinu af því að mér fannst hún beita sér þannig. Eftir að við fórum til kírópraktorsins áttum við í fyrsta sinn í marga mánuði rólegt kvöld, þar sem hún var ekki öskrandi út í gegn. Við fórum aftur þangað og henni fór batnandi upp frá því.“
Athugasemdir