Vinsældir Múmínálfanna, nágranna þeirra og vina í Múmíndal virðast takmarkalausar um þessar mundir. Vörur með myndum af fígúrunum eru áberandi í hönnunarbúðum, á lífsstílsbloggum og sölusíðum á netinu. Hér heima ganga vörurnar kaupum og sölum á Múmínmarkaðnum á Facebook. Múmínbollarnir eru þar vinsælastir, en nærbuxur, tepokar, búsáhöld og barnaföt eru á meðal þess sem hægt er að finna þar. Um daginn var verið að selja koju á síðunni sem virtist að engu frábrugðin öðrum kojum nema hvað hún var með múmínteppi. Sumt hefur söfnunargildi og selst dýrum dómum.
Á dögunum seldi Rannveig Ásgeirsdóttir þrjá bolla sem falla undir þann hatt; jólabolla frá 1997, teikninguna sem hætti í framleiðslu árið 2002 og Snabba-bolla sem hætt var að framleiða árið 2008. Bollarnir kostuðu sitt. 47 þúsund krónur voru settar á jólabollann sem er þó mun lægra verð en á Ebay þar sem verið var að selja hann á sama tíma á 74 þúsund krónur, en þar er hægt að finna bolla sem kosta allt upp í 350 þúsund krónur. Teikningin átti að fara fyrir 25 þúsund krónur og Snabba-bollinn á 17 þúsund krónur.
Bollarnir seldust á sólarhring
„Þetta er verðlagningin á þessum týpum,“ segir Rannveig sem lagðist yfir viðmiðunarsíður frá Finnlandi, þar sem mið er tekið af meðalverði á uppboðssíðum. „Þetta eru hlutir sem hafa söfnunargildi. Það er eins með þessar vörur og aðra hönnunarvöru, hlutir sem eru framleiddir í takmörkuðu upplagi, eru árstíðarbundnir, svo sem jóla- eða sumarbollar, eða gefnir út við sérstök tækifæri, afmæli eða annað, verða verðmætari með árunum.
Á svona viðmiðunarsíðu, sem ég hef skoðað, er dýrasti bollinn jólabolli Fazer gefinn út 2004 og eingöngu í 400 eintökum. Gangverðið er í kringum 4.500 evrur. Það er slatti af aurum fyrir bolla,“ eða 662.579 krónur.
Rannveig segist njóta þess að geta selt þeim sem yngri eru eitthvað sem er eldra, eitthvað sem er alveg sérstakt, enda sé áhuginn mikill. „Ég seldi þessa bolla á sólarhring,“ segir hún og bætir því við að sami aðilinn hafi keypt alla bollana og fengið afslátt fyrir vikið. Hún vill þó ekkert gefa uppi um verðið sem var endanlega greitt fyrir bollana. „Ég ætla að hafa þögn um það fyrir vildarvininn sem fékk að fóstra þá til framtíðar.“
Reyndar vill Rannveig sem minnst segja um það sem fram fer á Múmínmarkaðnum. „Þetta er lokuð grúppa og þar með gildir trúnaður um það sem þar fer fram. Það er svolítið persónulegt móment að vera þarna,“ útskýrir hún, „en ég viðurkenni að það fer vaxandi að fólk sjái söfnunargildið í þessum munum.“
Í leynifélagi hattifattanna
Múmínálfarnir hafa fylgt Rannveigu frá æsku. Hún varð forfallinn aðdáandi um leið og hún kynntist bókum Tove Jansson á bókasafninu. Alls voru gefnar út níu skáldsögur um múmínálfana á árunum 1945-1970. Rannveig las þær allar og upp til agna. „Við vinkonurnar elskuðum þennan ævintýraheim og vorum í leynifélagi þar sem við kölluðum okkur hattifattana. Þetta byrjaði svona – sem einhver nördismi þegar ég var krakki.
Seinna var ég barnapía fyrir frændsystkini mín og þá voru bækurnar til á heimilinu. Ég las þær aftur og þá fyrir þau og uppgötvaði aðra vídd í frásögnunum. Þá sá ég hvað það er mikil heimspeki og lífsspeki í sögunum. Þetta eru fullorðinssögur líka, heilmiklar heimspekibækur.
Ég er að verða fimmtug en ég er ennþá sama litla múmínálfabarnið inni í mér. Mér finnst það bara hollt. Það hafa allir gott af því að vera forvitnir og einlægir og kannski svolítið einfaldir á stundum, þá er auðveldara að fræðast meira.“
Safnaði undirskriftum fyrir endurútgáfu
Áhugi Rannveigar á þessum ævintýrum gekk svo langt að hún skrifaði um Tove Jansson og tilurð múmínálfana þegar hún var í íslensku í háskólanum.
Athugasemdir