Ekki voru allir sáttir við auglýsingu veitingastaðarins Joe & the Juice sem birtist á sérstökum auglýsingatölvuskjá í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um helgina. Þar auglýsti veitingastaðurinn að ekkert væri framundan fyrir ferðamenn nema 40 kílómetrar af hrauni og mosa.
„Við hljótum að gera athugasemdir við þetta strax á morgun“
Meðal þeirra sem gagnrýndu auglýsinguna var bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, en hann sagði í kvöld á samfélagsmiðlum að bæjarfélagið myndi gera athugasemdir við hana.
„Við hljótum að gera athugasemdir við þetta strax á morgun,“ sagði bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, í dag.
Reiði á samfélagsmiðlum
Í auglýsingunni stóð orðrétt: „Welcome! Ahead: 40 KM of nothing but lava and moss. You better stock up.“ Það þýðir einfaldlega á íslensku að ekkert sé framundan fyrir ferðamenn nema hraun og mosi þar til komið er til Reykjavíkur.
Líkt og gefur að skilja þótti þjónustufyrirtækjum á svæðinu á sig hallað og braust út reiði í hópum á Facebook, meðal annars í hópi íbúa í Reykjanesbæ.
Svo virðist sem að þessar gagnrýnisraddir hafi heyrst í flugstöðinni því samkvæmt heimildum Stundarinnar var ákveðið að taka auglýsinguna úr birtingu í dag.
Auðsótt að taka úr birtingu strax
Haft var samband við Guðna Sigurðsson, upplýsingafulltrúa ISAVIA, en hann sagði ekki um auglýsingaskilti að ræða heldur auglýsingu á skjá í komusal og því hafi verið hægt að taka hana úr birtingu með skömmum fyrirvara.
„Eftir að gagnrýni á auglýsinguna kom upp var það sameiginleg ákvörðun rekstraraðila Joe & the Juice og Isavia að best væri að skipta auglýsingunni út. Þar sem þetta var rafræn auglýsing í skjá var auðsótt mál að taka auglýsinguna úr birtingu strax.“
Athugasemdir