Rio Tinto Alcan á Íslandi, eigandi álversins í Straumsvík, greiðir ýmis konar gjöld til móðurfélags síns í Sviss og á í innbyrðis viðskiptum við það fyrir upphæðir sem samtals nema mörgum milljörðum króna árlega. Um er að ræða greiðslur vegna einkaleyfa, tæknilega þjónustu, sameiginlega stjórnun auk þess sem fyrirtækið á Íslandi á í umtalsverðum viðskiptum við móðurfélagið vegna kaupa á súráli og rafskautum sem notuð eru í álframleiðslunni í Straumsvík. Þetta kemur fram í svörum frá upplýsingafulltrúa Alcan á Íslandi, Ólafi Teiti Guðnasyni.
Greiðslurnar til móðurfélagsins eru bókfærðar sem kostnaður við starfsemi Rio Tinto Alcan á Íslandi og því eru greiðslurnar sem slíkar ekki skattlagðar þegar þær eiga sér stað á milli landa. Í ársreikningi félagsins kemur til að mynda fram ríflega 13 milljón dollara, rúmlega 1.650 milljón króna, greiðsla sem að hluta rennur til móðurfélags Rio Tinto á Íslandi, Alcan Holdings Switzerland. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík, útskýrir þessa greiðslu með eftirfarandi hætti: „Hér er um að ræða annars vegar greiðslur til móðurfélags fyrir einkaleyfi á kertækni, og fyrir tæknilega þjónustu og sameiginlega stjórnun, og hins vegar ábyrgðargjald vegna ábyrgðar móðurfélags á tilteknum skuldbindingum fyrirtækisins.“
Athugasemdir