Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Veiran afhjúpar muninn á Bandaríkjunum og Evrópu

Veiran æðir áfram. Fjöldi greindra smita um heiminn nálgast nú 11 milljónir og fjöldi dauðsfalla nálgast 520.000. Bandaríkjamenn telja aðeins um 4% af íbúafjölda heimsins en greind smit og dauðsföll þar vestra eru samt um fjórðungur greindra smita og dauðsfalla um heiminn allan. Nánar tiltekið eru 131.000 manns fallin í valinn af völdum veirunnar í Bandríkjunum. Smitum og dauðsföllum fer hraðfjölgandi víðast hvar um landið. Sá grunur læðist að læknum að smitin kunni að vera tífalt fleiri en greinzt hafa. Anthony Fauci helzti sóttvarnalæknir ríkisins segist óttast að alríkisstjórnin og fylkisstjórnirnar séu í þann veginn að missa tök á þróuninni og þá um leið getuna til að stemma stigu fyrir útbreiðslu veirunnar með samkomuhindrunum, smitrakningu og sóttkvíum og til að sjá fórnarlömbum veirunnar  fyrir viðunandi hjálp. Á sama tíma hefur hægt mjög á útbreiðslu faraldursins um alla Evrópu. Hluti skýringarinnar á þessum mikla mun á Bandaríkjunum og Evrópu er að í Hvíta húsinu situr forseti sem er bæði fífl og gangster, en svo illa er ekki komið fyrir Evrópu nema bara á stöku stað.

Fleira hangir á spýtunni. Engum sem fylgist með framvindu mála ætti að þurfa að koma á óvart þessi mikli munur á Bandaríkjunum og Evrópu. Ljóst hefur verið um langt skeið að Evrópa hefur vinninginn í samanburði við Bandaríkin í efnahagslegu tilliti. Sjálfur hef ég birt margar ritgerðir um málið frá ýmsum hliðum með því meðal annars að kortleggja muninn á þjóðartekjum á hverja vinnustund í Bandaríkjunum og Evrópulöndum sem hafa eitt af öðru siglt fram úr Bandaríkjunum á liðnum árum. Evrópumenn lifa að jafnaði fjórum árum lengur en Bandaríkjamenn. Meðallanglífi og meðaltekjur haldast í hendur. Meðallanglífi í Bandaríkjunum styttist þrjú ár í röð 2015-2017 í fyrst sinn í 100 ár. Meðaltekjur á mann í hópi venjulegra launþega í Bandaríkjunum hafa staðið í stað í meira en 40 ár. Fjögur af hverjum tíu bandarískum heimilum hafa ekki efni á að láta skipta um dekk á bílnum sínum skv. upplýsingum Seðlabanka Bandaríkjanna.

Í þessu ljósi þarf að skoða meðfylgjandi mynd sem segir meira en mörg orð.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni