Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þríeykið er á réttri leið

Í gær gerðist það að Bandaríkin urðu þungamiðja covid-19 veirufaraldursins í þeim skilningi að þar eru nú flest skráð smit, fleiri en í Kína þar sem faraldurinn hófst og hefur að því er virðist verið stöðvaður að mestu sé kínversku tölunum treystandi. Bandarísku smitin eru einnig orðin fleiri en á Ítalíu þar sem hægt hefur á faraldrinum þótt hann sé þó enn í örum vexti.

Alvarlegast er ástandið nú í New York, höfuðborg heimsins. Margt bendir til að næstu daga muni skráðum smitum þar og annars staðar um Bandaríkin fjölga hratt. Það spillir horfunum að bandarísk sjúkrahús skortir búnað – grímur, pinna og öndunarvélar – til að sinna ört vaxandi innlögnum sjúklinga enda þótt heilbrigðisútgjöld séu tvisvar sinnum hærra hlutfall af landsframleiðslu í Bandaríkjunum en í Kanada og víðast hvar í Evrópu. Bandarískar fylkisstjórnir segjast margar ekki fá nægan stuðning alríkisstjórnarinnar. Trump forseti gerir illt verra með ógætilegu tali og með því jafnvel að segjast stefna að því að troðfylla kirkjur landsins um páskana þótt vitað sé að faraldurinn verður þá enn í örum vexti þar vestra.

Mikið vantar á samstarf yfirvalda innan Bandaríkjanna og einnig milli landa, að ekki sé talað um fátæk lönd í Afríku og víðar sem hafa enga burði til að sigrast á farsótt eins og þessari á eigin spýtur. Það liggur í hlutarins eðli að okkar heimshluti sleppur ekki úr hættu fyrr en heimsbyggðin öll er sloppin eins og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu og friðarverðlauna hafi Nóbels 2019, lýsti nýlega í blaðagrein.

Þaulreynd faraldursfræðilíkön lækna og stærðfræðinga liggja að baki spádómum þeirra um líklega ferla faraldursins. Þessi líkön eru náskyld og nauðalík ýmsum líkönum sem hagfræðingar nota til að skoða t.d. sambandið milli hallarekstrar í millilandaviðskiptum og ferils erlendra skulda. Þessi líkön eiga m.a. það sammerkt að þau tilgreina stika sem hægt er að stilla af til að flytja ferlana til. Hagfræðilíkönin sýna hvernig hægt er að hægja á skuldasöfnun fram í tímann með því að draga úr hallarekstri. Faraldursfræðilíkönin sýna hvernig hægt er að draga úr vexti og fjölda smita með því m.a. að halda fólki í hæfilegri fjarlægð frá öðru fólki og að því marki eru ýmsar leiðir færar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og sóttvarnayfirvöld í hverju landi gerþekkja vandann og eru víðast hvar í viðbragsstöðu. Það vekur traust að þríeykið góða sem ríkisstjórnin hefur falið forustu um viðnám gegn veirufaraldrinum hagar fumlausum málflutningi sínum í einu og öllu í samræmi við viðtekna vísindaþekkingu. Allur boðskapur þremenninganna hefur hingað til staðið eins og stafur á bók. Félagar mínir í Háskóla Íslands, læknar og tölfræðingar, eiga einnig þakkir skildar fyrir sitt framlag til kortlagningar vandans.

Morgunblaðið birti í gær fróðlega og grafalvarlega grein um veirufaraldurinn eftir þríeykið Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Ölmu D. Möller landlækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón ásamt Haraldi Briem fv. sóttvarnalækni. Við hlið greinarinnar birtist leiðari blaðsins um sama mál og segir þar m.a.: „Hitt getur verið rétt að það verði ekki miklu fleiri en þetta færðir til bókar eftir að hafa lent í því úrtaki sem talið er verðskulda pinna ofan í kok og upp í nös. Þeir pinnar eru um þessar mundir álíka eftirsóttir og vitlaust yfirstimpluð frímerki voru í búðinni hjá Kidda á Frakkastíg forðum.“ Það er því ekki bara Trump Bandaríkjaforseti sem flækist fyrir slökkvistörfum þessa dagana.

Fleiri smit eru nú skráð á Íslandi miðað við mannfjölda en nokkurs annars staðar nema í örríkjunum San Marínó, Andorra, Færeyjum og Vatíkaninu. Það virðist stafa af því að hér hafa fleiri verið prófaðir en í fjölmennari ríkjum. Framlag Íslenskrar erfðagreiningar til prófa er lofs- og þakkarvert dæmi um árangursríkt samstarf einkaframtaks og yfirvalda. Sú staðreynd að um helmingur nýrra smita greinist í fólki í lögskipaðri sóttkví virðist vitna um að ráðstafanir stjórnvalda til að hamla útbreiðslu faraldursins beri árangur. Við bætist sjálfskipuð sóttkví mikils fjölda fólks sem ráða má af því að jafnvel göturnar í hjarta Reykjavíkur er auðar að heita má dag eftir dag þótt sumar búðir séu opnar og útgöngubann sé ekki í gildi eins og sums staðar annars staðar í Evrópu og víðar.

Aldrei stóðum við frammi fyrir því að síðasti þorskurinn gæti horfið af Íslandsmiðum, ekki nema af völdum kjarnorkuslyss í Norðurhöfum eða einhverra viðmóta vofeiflegra atburða. En nú má heita að síðasti ferðamaðurinn hafi kvatt Ísland í bili. Gjaldeyristekjur landsmanna munu því skreppa saman í skyndingu. Ólíklegt virðist að ferðaútvegurinn muni aftur í bráð ná fyrri styrk þegar fárinu slotar. Að öðru leyti en því er undirstaða efnahagslífsins að mestu óbreytt, mannauðurinn sem mestu skiptir og allt það. Stjórnvöld hér virðast líta vandann svipuðum augum og stjórnvöld annars staðar um Evrópu. Því virðist mér líklegast að ferill efnahagslífsins næstu misseri verði V-laga frekar en U-laga, þ.e. að endurbatinn verði skjótur frekar en hægur, með þeim fyrirvara þó að ýmislegt óhóf síðustu missera sem hefur um sumt minnt á 2007 mun varla eiga afturkvæmt. Þessi tilfinning rímar við málflutning hagfræðinga úti í heimi. Richard Baldwin, prófessor í Genf, hefur við annan mann gefið út tvær bækur um málið í þessum mánuði þar sem margir málsmetandi hagfræðingar leggja á ráðin um viðbrögð stjórnvalda við efnahagsafleiðingum faraldursins. Boðskapur þeirra er: Nú þarf skjótar hendur, við þurfum að kveða veiruna niður hvað sem það kostar.

Ég er sama sinnis og segi: Þríeykið hér heima er á réttri leið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni