Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hvorn kysir þú heldur?

Þeir eru af svipuðu sauðahúsi. Þeir stunduðu báðir fasteignaviðskipti og fóru þaðan yfir í skemmtibransann, sjónvarp og stjórnmál. Þeir ganga báðir fyrir smjaðri, glæsihýsum með gylltum mubblum og gullklósettum, smástelpum, sólbrúnku og lituðu hári. Annar söng dægurlög á súlustöðum og bauð gestum sínum í kynsvall á setri sínu í Sardiníu. Hinn gekk inn og út úr búningsklefum keppenda í Ungfrú heimur, hann átti keppnina.

Sumir þykjast sjá groddalegan sjarma í þeim báðum, aðrir sjá bara grodda, fífldirfsku og illseðjandi þörf fyrir að storka öðrum eins og til að refsa þeim fyrir að líta niður á þá. Báðir virðast fúsir til að gera nánast hvað sem er til að geta baðað sig áfram í sviðsljósinu. Báðir eru haldnir sjúklegri sjálfsdýrkun.

Ég hef þessa upptalninu frá ítalska blaðamanninum Beppe Severgnini.

Mennirnir tveir sem málið snýst um eru – þú gizkaðir rétt! – Donald Trump and Silvio Berlusconi.

En svo er ýmislegt annað sem skilur þá að.

Berlusconi var forsætisráðherra Ítalíu þrisvar sinnum frá 1994 til 2011, í meira en níu ár samanlagt, lengur en nokkur annar maður í sögu ítalska lýðveldisins. Trump entist bara eitt kjörtímabil.

Ítalski hagfræðingurinn Luigi Zingales, prófessor í Chicago, varaði andstæðinga Trumps fyrir kosningar við að gera lítið úr honum og hamra á siðblindu hans enda hrökk sú aðferð skammt gegn Berlusconi. Í þessu ljósi má skoða þá staðreynd að Trump fékk 47% atkvæða í forsetakjörinu um daginn. Allir vissu að Berlusconi braut lög þvers og kruss enda fékk hann fangelsisdóm eftir að hann hvarf úr embætti.

En Berlusconi ber samt af Trump eins og mold af mykju. Berlusconi var vingjarnlegur og samstarfsfús, einnig við andstæðinga. Hann lagði sig einnig eftir samstarfi við aðrar þjóðir. Trump fór aðrar leiðir, leit niður á samstarf og sóttist eftir illdeilum, bjó þær til ef með þurfti.

Og svo er eitt enn. Þegar Berlusconi beið ósigur sem gerðist í þrígang, þá hvarf hann úr embætti með bros á vör, einnig 2011 þótt hans biðu sektardómar í réttarsölum.

Sem sagt: Berlusconi kann að tapa. Hann sakaði andstæðinga sína ekki um svik og svindl, ekki einu sinni þegar hann tapaði kosningum 2006 með 25 þúsund atkvæða mun af 38 milljónum greiddra atkvæða.

Hvaða ráð býður Beppe Severgnini bandarískum demókrötum? – sem óttast nú að Trump muni halda áfram að velgja landinu og lýðræðinu undir uggum utan virkisveggjanna. Hvernig er hægt að halda honum í skefjum? spyrja menn.

Severgnini segir að reynslan af Berlusconi ætti að kenna mönnum m.a. þrennt.

• Fyrsta atriðið er að hætta að hugsa og tala um Trump í sífellu og hætta að velta honum upp úr misgerðum hans og meintum glæpum því það myndi halda honum áfram í sviðsljósinu, einmitt þar sem hann þráir helzt að vera af hvaða tilefni sem er. Berlusconi komst aftur og aftur til valda þar eð andstæðingar hans héldu áfram að sjá honum fyrir súrefni.

• Annað atriðið er að varast að veita kjósendum færi á grunsemdum um pólitískar hefndarráðstafnir í réttarsölum. Berlusconi tókst að nota réttarhöldin gegn honum vegna skattsvika o.fl. til að afla fylgis. Jafnframt er brýnt að láta Trump samt ekki sleppa of auðveldlega. Hann mun segja að náðun jafngildi sýknu enda þótt t.d. Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi úrskurðað að sá sem þiggur náðun játar þar með sekt sína. Jafnræði borgaranna frammi fyrir lögum krefst þess að hvorki Trump né öðrum sé hlíft við ábyrgð gagnvart lögum af pólitískum ástæðum.

• Þriðja atriðið er að horfast í augu við að Trump nýtur enn fylgis líkt og Berlusconi enda þótt báðir hafi lotið í lægra haldi, Trump við fyrsta færi sem bauðst og Berlusconi á lengri tíma. Ef andstæðingar Trumps láta sér duga að velta honum upp úr heimsku og siðblindu eiga þeir á hættu að hafa hann hangandi yfir sér enn um sinn og jafnvel á endurkjöri hans 2024. Nema hann hafi reytt af sér fylgið með því að kunna ekki að tapa og reyna heldur valdarán sem fór út um þúfur. Reynslan mun skera úr því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni