Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Dauðans alvara

Kórónuveirufaraldurinn hefur nú haldið heiminum öllum í fjötrum í bráðum hálft annað ár, en nú sér loks til lands í krafti öflugra sóttvarna.

Opinberar tölur sýna að 174 milljónir manna hafa sýkzt af kórónuveirunni og 3,7 milljónir hafa týnt lífi. Alvarlegast er ástandið í Bandaríkjunum í þeim skilningi að fimmtungur allra smita og sjöttungur allra dauðsfalla um heiminn hafa átt sér stað þar vestra þótt Bandaríkjamenn telji aðeins 4% af íbúafjölda heimsins alls. En kaninn, sem hafði misst faraldurinn úr böndum vegna mistaka stjórnvalda, tók sér tak með nýjum forseta og hefur nú bólusett 51% landsmanna einu sinni og 42% tvisvar. Þó hefur hægt verulega á bólusetningu þar vestra að undanförnu. Framan af fengu þrjár til fjórar milljónir Bandaríkjamanna sprautu á degi hverjum, en nú fær aðeins um ein milljón sprautu dag hvern. Hlutfall bólusettra hækkaði framan af um eitt prósentustig á dag en nú þarf að bíða 3-4 daga eftir hverri hækkun um eitt prósentutig.

Fyrirheit Bidens forseta um að 70% allra fullorðinna Bandaríkjamanna hafi fengið bólusetningu á þjóðhátíðardaginn 4. júlí er í uppnámi eins og sakir standa. Í þeim fylkjum þar sem Biden sigraði Trump í forsetakjörinu í fyrra hafa 65% til 87% fullorðinna þegið bólusetningu, en í þeim fylkjum þar sem Trump sigraði Biden hafa aðeins 45% til 65% fullorðinna þegið bólusetningu.

Bretar hafa nú bólusett 60% af sínu fólki einu sinni og 41% tvisvar. Hliðstæðar tölur fyrir Ísland eru 52% og 28% og Danmörku 42% og 23%. Ísland stendur vel að vígi.

Vandinn er miklu alvarlegri í fátækari löndum þar sem færri og veikari vörnum gegn veirunni verður við komið. Bandaríkjamenn hafa skv. opinberum tölum misst 612.000 manns í faraldrinum, Brasilía 473.000, Indland 349.000, Mexíkó 229.000, Perú 186.000 og Bretland 128.000. Sé miðað við mannfjölda raðast löndin öðruvísi. Bandaríkin og Bretland hafa misst tæplega tvo af hverju þúsundi íbúa (2 prómill) líkt og Ítalía, en Perú hefur misst sex af hverju þúsundi (6 prómill) og Ungverjaland og Tékkland þrjá af hverju þúsundi (3 prómill). Indland hefur misst tvo af hverjum tíu þúsundum (0,2 prómill).

Þessar opinberu tölur vekja spurningar og efasemdir. Getur þetta verið rétt? Væri ekki nær að bera fjölda dauðsfalla 2020 og það sem af er þessu ári, 2021, saman við fjölda dauðsfalla við eðlilegar kringumstæður og túlka fjölda umframdauðsfalla sem líklega afleiðingu heimsfaraldursins? – frekar en að reiða sig á fjölda dauðsfalla þar sem veirusýkingin er skráð sem dánarorsök. Með öðrum orðum: Getur ekki verið að dauðsföll af völdum veirunnar séu vanskráð?

Sérfræðingar á vegum vikuritsins The Economist lögðust yfir málið og komust að ískyggilegri niðurstöðu. Hún er þessi: Umframdauðsföll, sem líklega má rekja til faraldursins, eru talin vera á bilinu 7-13 milljónir á heimsvísu, þ.e. tvisvar til fjórum sinnum fleiri en opinberlega skráð dauðsföll af völdum veirunnar. Munurinn er ekki mikill í Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum, en hann er miklu meiri víða annars staðar, t.d. tólffaldur í Egyptalandi, fimmfaldur í Rússlandi, þrefaldur í Perú og Suður-Afríku og tvöfaldur í Búlgaríu og Mexíkó.

Sums staðar er munurinn neikvæður. Þar er fjöldi dauðsfalla af völdum veirunnar meiri en nemur umframdauðsföllum. Í því felst að fjöldi dauðsfalla af völdum faraldursins er þá ofskráður frekar en van. Og sums staðar er fjöldi umframdauðsfalla neikvæður, sem þýðir að dauðsföll hafa verið færri en í meðalári, t.d. vegna þess að samkomutakmarkanir hafa leitt til fækkunar dauðsfalla af öðrum orsökum, færri flensusmita o.s.frv. Ísland er í þessum hópi landa ásamt Danmörku, Noregi, Kýpur, Márítíus, Nýja-Sjálandi og allmörgum Asíulöndum. Þessi lönd misstu faraldurinn aldrei úr böndum heldur héldu uppi samkomuhindrunum, smitrakningu og sóttkvíum í samræmi við leiðbeiningar heilbrigðisyfirvalda um ýtrustu sóttvarnir.

Við eigum þríeykinu góða mikið að þakka og getum því æ fleiri tekið sumrinu fagnandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni