Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Láta af hendi eign sína

Nú er eina ferðina enn verið að selja ríkiseignir á undirverði, að þessu sinni eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka. Fréttablaðið greinir fagnandi frá þessu á forsíðu í fyrradag 9. júní og segir: „Hagstæð verðlagning á hlutum í Íslandsbanka ... felur í sér mikinn afslátt miðað við gengi bréfa Arion banka“ og „nemur afslátturinn sem er gefinn í útboðinu á bréfum Íslandsbanka ríflega 50 prósentum“.

Bankasýsla ríkisins er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra og „fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti ...“ svo sem segir í lögum. Forstjóri Bankasýslunnar er þó hvergi sjáanlegur.

Sá sem heldur hefur orð fyrir Bankasýslunni í þessari lotu er formaður stjórnarinnar. Hann er nátengdur fjármálaráðherra og situr að auki við hlið Samherjamanna í stjórn Eimskips, óskabarns þjóðarinnar sem hrunverjar keyrðu í kaf og ber nú nýja kennitölu. Hinir tveir stjórnarmenn Bankasýslunnar eru fv. þingmaður og nv. frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem bar þyngsta ábyrgð á hruninu samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, og fv. stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins. Varamaður stjórnarinnar er nv. stjórnarmaður í Brimi. Samsetning stjórnarinnar vitnar ekki um mikla virðingu fyrir lögboðinni skyldu stjórnarinnar til að gæta hagsmuna almennings.

Eru þá engin lög í landinu sem aftra stjórnmálamönnum frá að selja eignir almennings á undirverði? – eins og þeir gerðu 1998-2003 með afleiðingum sem allir þekkja.

Ákvæði stjórnarskrárinnar, gömlu frá 1944 og nýju frá 2012, eru skýr:

„Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Hér er ríkisvald, sem hefur áður gert sig sekt um að selja eigur almennings á „hóflegu verði“ að mati Ríkisendurskoðunar,* að endurtaka leikinn í allra augsýn.

Bréf ríkisins í bönkunum eru að vísu ríkiseign, ekki þjóðareign. Því er ekki ástæða til að amast við sölu slíkra ríkiseigna á fullu verði. En þegar ríkið selur vinum sínum ríkiseignir aftur og aftur á undirverði, þá þarf að staldra við. Þá þarf að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort hægt er að stöðva söluna eða rifta henni með skírskotun til stjórnarskrárákvæðisins að framan. Því hér er verið að skylda fólkið í landinu til „að láta af hendi eign sína“ án þess að „almenningsþörf krefji“.

Lögregla og dómstólar ættu að réttu lagi að stöðva söluferlið eins og allt virðist vera í pottinn búið. Stjórn Bankasýslunnar og forstjórinn hafa brugðizt skyldu sinni og þurfa að víkja.

Ný ríkisstjórn þarf að loknum alþingiskosningum í haust að reyna að girða fyrir tortryggni og efla traust með því að lyfta lokinu af spillingunni og ljúka uppgjörinu við hrunið. Að því loknu verður tímabært að endurskipuleggja bankakerfið, ekki fyrr. Það þarf að gera hlutina í réttri röð. Reynslan sýnir að bankar í röngum höndum geta valdið gríðarlegu tjóni.

Gamla Ísland skín enn í gegnum skartklæðin eins og Jónas Kristjánsson ritstjóri sagði 2012. Látum ekki bjóða okkur þetta lengur. Hreinsum til í kosningunum í haust. Spúlum dekkið. Kosningarnar verða að vísu ólögmætar eina ferðina enn þar eð atkvæði vega enn misþungt eftir búsetu þótt 67% kjósenda hafi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 lýst stuðningi við svo hljóðandi stjórnarskrárákvæði: „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“

Kjósum þá flokka eina sem lofa að lögfesta nýju stjórnarskrána strax.

 

* Skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2001 um einkavæðingu bankanna er ekki lengur að finna á vefsetri Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni segir m.a.: „Sú söluaðferð að auglýsa ráðandi hlut til sölu á sama tíma í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. verður að teljast óheppileg. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þessa söluaðferð og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að koma á samkeppni milli áhugasamra kaupenda. Enn fremur vaknar spurning um hvort sá tími sem valinn var til sölunnar hafi verið heppilegur.” Ríkisendurskoðun þarf að setja skýrsluna aftur inn á vefsetrið innan um aðrar skýrslur frá sama ári. Vefslóðin var https://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/einkavaeding.pdf

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu