Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Óvænt samhengi hlutanna

Óvænt samhengi hlutanna

Í vikunni sá ég fyrir tilviljun tvö myndskeið á netinu, eitt af öðru, og af einhverjum ástæðum hafa þau marað í vitund minni síðan, hlið við hlið, sem kannski er ósanngjarnt enda um alls kostar óskylt efni að ræða. En hvað um það, nú er svo komið að ég get ekki hugsað um þau nema í beinum samanburði hvort við annað.

Fyrra myndbandið var brot úr einhverjum íslenskum sjónvarpsþætti sem mér skilst að snúist um að sýna landsmönnum heimili fólks „fyrir og eftir breytingar“. (Ekki spyrja mig hvers vegna þetta myndskeið skaut upp kollinum í stafrænni hliðartilvist minni). Vel stætt par, MS og HBS, er að gera upp stærðarinnar sumarbústað við Þingvallarvatn. Um er að ræða feykistórt sumarhús, sem sjálfsagt er rúmbetra og vistlegra en aðalheimkynni 99% mannkyns, og ljóst strax frá upphafi að hér verður ekkert til sparað. Maður tekur ósjálfrátt, sem innlifaður sjónvarpsáhorfandi, að hugsa sér gott til glóðarinnar og hlakka til að sjá hvernig útkoman verður „eftir breytingar“. Svo er klippt á hárréttri stundu: Liðið hefur langur tími (fimm ár!) og stjórnandi þáttarins, sympatískur og hress orkubolti, leiðir okkur skrefléttur og brosandi á vit sannleikans. Framleiðendur þáttarins, reynsluboltar í faginu, læða undir tilfinningaþrunginni stemningstónlist til að tryggja að við, sem sitjum heima í stofu, séum rétt innstillt andlega. MS stendur hnakkakerrtur inni í stofu, sigursæll hershöfðingi að lokinni vel lukkaðri orrustu, og patar fjálglega með höndunum staddur á einhvers konar óskilgreindu svæði mitt á milli eldhúss og stofu. Takk! segir hann þegar þáttastjórnandinn óskar honum til hamingju með afraksturinn. Í framhaldinu spara þeir félagar ekki lýsingarorðin: fljótlega verður okkur ljóst að lyft hefur verið grettistaki í því skyni að gera sumarbústaðinn sem glæsilegastan. Nema hvað, örstuttu síðar renna á sjónvarpsaðdáandann tvær grímur. Myndavélin hnusar vítt og breitt af innviðum sumarhússins og bráðlega verður deginum ljósara að ósamræmi ríkir á milli hinnar andaktugu mælsku stjórnandans og MS annars vegar og raunverulegs útlits bústaðarins hins vegar. Sannleikurinn hæfir okkur í andlitið eins og blaut tuska: Sumarhúsið er ekki fallegt. Það lítur út eins og svekkjandi og ópersónulegt hótel. Eins konar karakterlaust hylki utan um ekkert nema einn lúinn hund og nokkur óeftirtektarverð húsögn í gráum tónum. Áhorfendur heima í stofu, vítt og breitt um landið, gnísta tönnum af vonbrigðum. Þarna eru engar bækur. Hvorki málverk né borðleikir. Engin hljóðfæri – raunar engar nauðþurftir vitsmunavera. Þarna er í rauninni ekkert nema einhvers konar gylltur sjónauki sem starir út í tómið. Maður hálfpartinn óskar þess að þarna stæði frekar bara svolítið skóglendi, kannski fuglshreiður á grein? Og hversu mikið kostaði þessi stílhreini tómleiki? spyr áhorfandinn sig í andnauð. Þetta er fyrra myndbandið sem ég sá, og það hefur, af einhverjum ástæðum, sótt talsvert á huga minn.

Seinna myndskeiðið lýsti einnig heimkynnum en þó ekki sterkefnaðs mannfólks heldur rostunga. Vegna loftslagsbreytinga, sem hljótast af því hversu miklum koltvísýringi við mennirnir dælum út í andrúmsloftið til að standa straum af ósjálfbærum lífsstíl okkar, eru náttúruleg heimkynni rostunga í Kyrrahafinu við Rússlandsstrendur nú að hverfa. Hafísinn, fyrra búsvæði þeirra, bráðnar og kemur ekki aftur. Af þeim sökum flykkjast rostungarnir nú upp á strendur árlega og hírast þar í lygilegri mergð (sjón er sögu ríkari). Myndband þetta er upprunnið í þáttaröðinni One Planet og þarna ber fyrir augu okkar tuttugu kílómetra flæmi af rostungum, sem vísindamenn áætla að sé um ¾ af öllum Kyrrahafsstofni tegundarinnar. Vegna rýmisskorts á ströndinni klaufast margir rostunganna sífellt hærra upp á land, þeir feta sig stirðir um þverhnípta hamra – áhorfandinn heima í stofu sýpur hveljur. Meðalrostungurinn er um tonn að þyngd, klaufaleg vera, ekki náskyldur ættingi fjallageitarinnar. Þegar hungrið sverfur aftur að og rostungarnir hyggjast halda aftur niður að hafi í fæðuleit, hrapa margir þeirra fyrir björg og týna lífi. Sú sena er með þeim átakanlegri sem ég hef séð lengi. Einn af öðrum hrapa þessi stóru, fallegu dýr tugi metra niður í fjöruna og skella á grjóti og hnullungum. Rostungarnir eru algjörlega varnarlausir gagnvart þeim breytingum sem eru að ganga yfir jörðina og hafa glatað heimkynnum sínum.

Það var mjög skrítin reynsla að sjá þessi tvö myndbönd svona í röð – fyrst vel stæða parið sem var að gera upp sumarbústaðinn sinn; síðan rostungana sem tapað hafa heimkynnum sínum – en kannski er þetta einn af slembikröftum Internetsins: stundum tekst því að ljá hlutum, sem við fyrstu sýn virka algjörlega óskyldir, samhengi og skyldleika.

#

Grein þessi birtist upphaflega í Leslistanum (#61), vikulegu fréttabréfi um bækur og annað áhugavert Lesefni, sem Sverrir Norland gefur út ásamt Kára Finnssyni. Hér má skrá sig ókeypis í áskrift.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni