Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hafsbotninn sem mælikvarði á ást okkar

Hafsbotninn sem mælikvarði á ást okkar

Nýlega las ég hina prýðisgóðu Landmarks eftir Robert MacFarlane og staldraði þar sérstaklega við afar minnisstæðan kafla sem höfundur ritar um J.A. Baker, enskan höfund og ötulan fuglaskoðara sem var uppi á síðustu öld. Heillandi manneskja. Baker var svo sjóndapur – í rauninni bara blindur – að hann hafði enga meðfædda hæfileika sem fuglaskoðari, en bætti upp fyrir sjóndepurðina með skarpri hugsun, lestri og skrifum. Meðal annars skrifaði hann sígilda bók (The Peregrine – Förufálkinn) og hélt ótal dagbækur. Þá sendi hann vinum og vandamönnum óteljandi bréf og sparaði þar ekkert til. Hann lifði líka allt aðra tíma en við gerum nú í okkar athyglisbrostnu stafrænu. Í þá daga skrifaðist fólk á, bréfleiðis með pappír og penna, frekar en að senda stutt textaskilaboð potandi annars hugar í skjá, og það tók sér góðan tíma í að lýsa hugsunum sínum, daglegu lífi og umhverfi. Á einum stað í bókinni segir til dæmis frá því að Baker hafi oft eytt mörgum vikum í að skrifa eitt bréf og af þeim ástæðum tvídagsetti hann þau: „Ritun hafin.“ „Ritun lokið.“ Þetta voru engar örskeytasendingar. Bréf eitt, sem hann sendi góðvini sínum og hóf að rita 19. september 1945 og lauk 5. október sama ár, spannaði sextíu og fjórar handritaðar blaðsíður. Sextíu og fjórar! Ég er heppinn ef vinir mínir nenna að senda mér sextíu og fjögur orð. Mér fannst eitthvað svo magnað og fallegt við slík samskipti – og slíka vináttu. Hægur lífsstíll, kæri lesandi. Einkum vekur athygli hvað slík bréfaskrif eru einkaleg og í raun andhverfa útbreiddasta samskiptamáta okkar í dag, þar sem fólk ræðist oftar en ekki við á netinu fyrir allra augum og í ofanálag vaktað af stórfyrirtækinu sem leggur til umræðuvettvanginn. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að bréfaskrif á pappír fara fram á milli tveggja einstaklinga (nema stjórnvöld gufuopni umslögin og liggi þannig á gægjum um þegna sína). Í hið minnsta fara bréfaskrif að jafnaði fram utan sjónfæris þúsunda nafnlausra áhorfenda á gægjum innum gluggana í tölvunni.

Í hvert skipti sem ég opna samfélagsmiðil blasir við mér tilkynning í svofelldum dúr: Elsku eiginkona mín, í dag höfum við verið gift í þrjátíu ár og ég elska þig æ meir með hverri sólrisunni, hverju sólarlaginu! Megum við njóta þrjátíu ára í viðbót af farsælu hjónabandi, þú ógnarsæta sveskja! Með fylgir svo mynd af skælbrosandi pari sem bætt hefur á sig allnokkrum kílóum frá því að það var pússað saman í Háteigskirkju á sínum tíma, spikið nú varðveitt sem góðærislegar undirhökur og dúandi björgunarhringir, og ekki er ólíklegt að skálað sé í rammáfengum drykk á ljósmyndinni. Neðan við ljóðrænu skrifin hans frænda hlykkjast svo langur hali af athugasemdum vina og vandamanna plús að yfirlýsingar af þessum toga eru dæmdar til að sækja minnst tvö hundruð og fimmtíu læk og hjörtu. Sama gildir til að mynda um ljósmyndir af börnum, þau eru óviðjafnanlegir seglar á stuðningsyfirlýsingar í formi læka, þumla og hjartna. Fallega dóttir mín, í dag ertu tveggja ára gömul krúttsprengja og þú ert svo mikill snillingur að þú átt eftir að verða bæði forsætisráðherra, forseti og leikkona í Þjóðleikhúsinu! Orðsendingin er varla ætluð hinu ávarpaða barni, sem þrátt fyrir að vera bráðger og heilbrigður samfélagsþegn er sennilega ekki orðið fyllilega læst á stafrófið, hvað þá byrjað að nota samfélagsmiðil (ég vona allavega ekki). Eins er algengt að foreldrar skrifi: Ó, himneska dóttir mín, nýútskrifaði stúdent! En hvað ég er glaður með þínar prýðilegu lokaeinkunnir – til hamingju, hjartans heillakerling! Við hvern er eiginlega verið að tala hér? Af hverju ekki frekar að senda barninu sínu sextíu og fjögurra blaðsíðna handritað bréf? Hmm? Ég bara spyr. Þannig mætti í hið minnsta raunverulega votta barninu sínu ást og aðdáun!

Sem ég las um hin manísku bréfaskrif Bakers varð mér hugsað til annarrar klausu sem ég rakst á fyrir nokkrum árum – ég man því miður ekki hvar – og lýsti bréfasendingum á milli heimsálfa á allt öðru skeiði mannkynssögunnar. Á þeim tíma (sirka árið sautján hundruð og súrkál) gat það tekið tilfinningarík og vel stíluð bréf allt að fjögur ár að berast frá Japan til Evrópu – að því gefnu að skipið sykki ekki á leiðinni! Ímyndaðu þér, hér koma skilaboð frá mér og ég vona að þau skili sér yfir hafið til þín á milli heimsálfa og endi ekki sem fæða sæhesta. Mér finnst eitthvað svo ómótstæðilegt við að einkalegar játningar okkar séu aðeins ætlaðar einni manneskju og eigi á hættu að hafna, frekar en í höndum móttakandans, á hafsbotni. Það er alvöru, og auðvitað miklu betri, mælikvarði á vináttuna en stafræn útbreiðsla ástarjátninga okkar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni