Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Löngu tímabær dauði Bókabúðar Máls & menningar

Löngu tímabær dauði Bókabúðar Máls & menningar

Nú er búið að loka Bókabúð Máls & menningar. Það liggur við að manni sé létt. Þetta var auðvitað löngu tímabært.

Sumir hafa lýst sorg sinni fjálgum orðum en það var auðvitað öllum ljóst að í þetta stefndi. Gleðin var álíka fjarri þessari búð á síðustu árum og lífið er íbúa líkkistu. Nokkurn veginn frá því að hin frábæri verslunarstjóri Kristján Freyr sagði skilið við búðina byrjaði allt þarna að drabbast niður. Ég hafði verið fastur viðskiptavinur þessarar stofnunar frá unglingsárunum en brátt hætti ég að sækja kaffihúsið, keypti þó enn stundum bækur hjá þeim af samúð (af samúð!), svo hætti ég því líka.

Það magnaða var að allt fram á síðustu stundu hélt búðin frábæru starfsfólki á gólfi – en eigendurnir færðu sér með engum hætti í nyt sköpunarkraftinn sem þar bjó. Þarna voru ekki lengur haldnir viðburðir og bókaúrvalið þróaðist út í gjafabókaútgáfur af Stríð & frið og Móbý Dick ásamt nýjum íslenskum titlum og svo voru það póstkort, lundar og annað dúllerí handa ferðafólki. Enda gripu aðstandendurnir fyrsta tækifæri í heimsfaraldrinum og gáfust upp. Túristarnir voru hættir að kaupa skranvarninginn.

Það er engin ráðgáta hvernig reka má öfluga bókabúð í samtímanum. Bókabúð er staður þar sem gaman er að koma. Þýskaland gerir þetta vel: í bókabúðum fara fram alls kyns viðburðir sem örva auðvitað sölu bókanna. París er líka frábært dæmi: þar styður borgin við bókabúðir með margvíslegum hætti enda úir þar og grúir af bókabúðum og fáir lesa meira en Parísarbúar.

Bókabúð er nefnilega ekki eins og hver önnur búð – hún er samfélags- og menningarmiðstöð, eitt fárra verslunarforma sem áminnir okkur um að samfélag manna er ekki bara tilfinningalaus markaður með vörur heldur líka hugmyndir og sögur af ólíkri reynslu okkar allra.

Bókum þarf að stilla upp á fallegan og söluvetjandi hátt – af alúð, hugsun og áhuga sem vitnar um bókaást aðstandenda búðarinnar. Ef sú ást er ekki til staðar, líkt og í tilviki BM&m á síðustu stigum, gengur búðin ekki upp.

Eigandi bókabúðar ber virðingu fyrir starfsfólki sínu og er samherji þess. Eigandi góðrar bókabúðar greiðir jafnóðum skuldir sínar við útgefendur. Eigandi góðrar bókabúðar fylgist með því sem er að koma út og veit hverjir útgefendur, höfundar og helsta bókafólkið er. Ekkert af þessu virðist (því miður) hafa gilt um Bókabúð Máls & menningar á síðustu árum verslunarinnar.

Við Veghúsastíg hékk – og hangir sjálfsagt enn? – plakat af nokkrum höfundum og bókum þeirra í jólabókarflóðinu haustið 2017. Auðvitað langaði mann ekkert í þessa búð. Það var eins og hún væri löngu dauð. Manni er létt með að nú sé formlega búið að jarða hana.

Örlög Bókabúðar Máls & menningar þýða ekki að ómögulegt sé að reka sjálfstæða bókabúð í Reykjavík. Þetta þýðir bara að rekstur BM&m á síðustu árum var skólabækardæmi um allt sem ætti að forðast.

Og nú opnast tækifæri fyrir þá sem eru frumlegir, kraftmiklir og skapandi til að gera eitthvað nýtt.

Fólk er fjarri því hætt að kaupa og lesa bækur. Þörfin á stöðum til að hittast og hlúa að menningunni hefur sjaldan verið meiri (strax og covid er yfirstaðið).

Ég – og margir aðrir – erum með fullt af hugmyndum og ég held kannski áfram að viðra þær á næstu dögum og vikum. Ég vona að þetta samtal haldi áfram að þróast og þroskast því að rekstur bókabúða ætti að vera, rétt eins og bókmenntirnar sjálfar, samvinnu- og samfélagsverkefni. Menningin er burðarstólpi samfélagsins; án hennar er kannski ekki hægt að tala um nokkurt samfélag.

Reykjavík er ein af bókmenntaborgum UNESCO. Við þörfnumst alvöru bókmenntahúss, rétt eins og við eigum Hörpu fyrir tónlistina, Þjóðleikhúsið fyrir leiklistina, Bíó Paradís fyrir kvikmyndirnar, Marshall-húsið fyrir myndlistina...

Ég er meira að segja komin með tillögu að nafni:

Lilja.

„Allir vildu sína Lilju kveðið hafa...“ Harpa fær systur í Lilju – enda er tónlistin ekkert án ljóðlistarinnar, ljóðlistin ekkert án tónanna... Væri það ekki eitthvað?

Það kemur eitthvað – betra – í staðinn fyrir þessa búð sem andaðist löngu fyrir útför sína. Ég efast ekki um það.

(Þessi hugleiðing birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar.)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni