Þessi færsla er meira en ársgömul.

Að kulna eða ekki kulna

Að kulna eða ekki kulna

Í morgun vaknaði ég og var eitthvað lufsulegur. Ég fattaði strax að ég var kominn með kulnun.

Þegar ég hafði drukkið einn kaffibolla fattaði ég hins vegar að ég hafði ranggreint mig með kulnun.

Ég var ekki með kulnun.

Þegar ég hafði rokið af stað á fyrsta fund dagsins og var að læsa reiðhjólinu mínu við staur hafði ég hins vegar aftur greint mig með kulnun. Ég var eitthvað þokukenndur í hugsun. Myrkur.

Kulnun, hugsaði ég. Klárt mál.

En um leið og ég hitti hinn knáa og skælbrosandi samstarfsmann minn á fundinum áttaði ég mig á því að ég hafði aftur ranggreint mig með kulnun.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Ég var ekki með kulnun.

Núna settist ég svo niður við tölvuna til að klára punkta fyrir fyrirlesturinn sem ég er að fara að flytja á eftir. Og þá fann ég það svo skýrt - kulnun.

Ekki spurning. Ég er útbrunnið kerti.

En svo fattaði ég bara að það var gat á sokkunum mínum. Svo að ég skipti um sokka.

Fötin skapa manninn.

Ég var ekki lengur með kulnun.

En núna – rétt áður en ég ýti á „Birta“ – átta ég mig á því að einhver kynni að túlka þennan texta svo að ég sé að gera grín að fólki með kulnun. Það er mér fjarri (ég er að gera grín að samfélagsumræðunni).

En tilhugsunin um að ég fái skammir – er nóg til að ég fái kulnun!

Já, klárt mál. Ég er með kulnun.

En ég man líka að til að forðast kulnun þarf að hafa gaman af lífinu:

hreyfa sig, hitta fólk, vera úti, lesa bækur, skiptast á hugmyndum, skapa eitthvað sem skiptir mann máli, fara handahlaup, finna ilm af grasi sem teygir sig eftir hækkandi sólu, spila á hljóðfæri, segjast elska einhvern ...

Nei, ég er ekki með kulnun. Hjálpumst að við að búa til skemmtilegt samfélag. Verum ekki umboðsmenn leiðans heldur talsmenn gleðinnar: þá kviknar aftur á neistanum ...

Æ, hvað er ég að bulla? Væmin froða.

Kulnun, klárt mál. Ég er kominn með kulnun.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu