Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Fæðingarorlof á ferilskrá

Fæðingarorlof á ferilskrá

Eitt sem ég hef verið að velta aðeins fyrir mér síðustu daga varðandi fæðingarorlof:

Ferilskráin mín er orðin býsna löng og fjölbreytt en ein mest þroskandi og krefjandi reynslan var án vafa þegar ég var í fæðingarorlofi einn heima með Ölmu, eldra barnið okkar, um tæplega hálfs árs skeið úti í New York á meðan Cerise fór aftur í vinnuna. (Hún fékk ekkert fæðingarorlof en gat tekið sér 2 1/2 mánuð í orlof á framsækna listasafninu þar sem hún starfaði í landi frelsisins. Elsku Bandaríkin.)

Þessi reynsla mín – að vera stay-at-home dad, stundum vissulega mjög frústeraður (ég mæli ekki með því að vinna að skáldsögu meðan barnið þitt dottar í einni háværustu stórborg heims) – gerði mig skipulagðari, ósérplægnari, jákvæðari og almennt upplitsdjarfari og hressari með lífið – og veitti mér auðvitað innsýn í hlutskipti svo ótal margra mæðra í áratuga og aldanna rás. Ég segi stundum, hálfvegis í gamni, sumpart í alvöru, að enginn ætti að fá að gegna ábyrgðar- eða stjórnunarstöðu í samfélaginu nema hafa reynslu af því að hugsa daglangt um lítil börn, sín eigin eða annarra, yfir nokkurra mánaða skeið. Það kennir manni að sýna ábyrgð. Og slíkt ætti sannarlega að fara á ferilskrá þegar fólk sækir um vinnu.

Ég fór að hugsa um þetta um daginn þegar ég hitti vin minn í drykk og hann nefndi að konan hans væri að byrja aftur að vinna eftir árshlé í fæðingarorlofi með annað barnið þeirra. Auðvitað er hún ekki að „byrja aftur að vinna“ – síðasta ár hefur hún unnið myrkranna á milli – en samt er litið svo á það af hinum svokallaða vinnumarkaði. Að leiða framtíðarþegna samfélagsins inn í heiminn á ábyrgðarfullan og ástríkan hátt er ekki vinna.

Á ferilskránni hennar er nú árseyða, líkt og hún hafi tekið sér frí í heilt ár. En ekkert er fjær sanni. Auðvitað vita fjöldamargir, ef ekki flestir, vinnuveitendur hversu krefjandi og þroskandi það er að ala upp börn – þeir eru sjálfir foreldrar. Og mér finnst eiginlega fáránlegt að slíkt skipi ekki heiðurssess á ferilskrá. Feður hafa líka í auknum mæli reynslu af því að bera 100% ábyrgð á börnum sínum yfir daginn (þó að það heyri sjálfsagt enn til algjörra undantekinga að þeir geti helgað sig slíku starfi í 6 mánuði eða lengur vegna alls kyns þrýstings frá samfélaginu) og því ætti vitundin um hversu krefjandi hlutverkið er að streyma smátt og smátt inn í sífellt fleiri anga samfélagsins.

Ég legg í hið minnsta til að fólk byrji að setja þetta á ferilskrána sína þegar það sækir um vinnu: „Í fullu starfi við uppeldi eigin barna frá jan 2020-jan 2021.“ „Fæðingarorlof“ er líka kjánalegt orð – hér er ekki um neitt „orlof“ að ræða. Það mætti einhver hagleiks-orðasmiður brydda upp á nýrri tillögu þar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu