Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Yahya Hassan

Fyrir þremur árum gerðust þau undur og stórmerki í Danaveldi að ljóðabók náði metsölu, seldist í 100.000 eintökum á fáeinum vikum.

Höfundurinn var átján ára gamall palestínskur flóttamaður sem alið hafði mest allan sinn aldur í Danmörku.

Bókin kallaðist einfaldlega „Ljóð“, engir lágstafir notaðir, bara stórir stafir enda bókin eitt allsherjar org, svo lítið eins og ljóðakverið hans Bubba.

Rétt eins og Bubbi yrkir Hassan um dóp og djöfuldóm. En djöfuldómur Hassans er miklu ferlegri, ljóðmælandinn lýsir uppvexti í palestínskri flóttamannafjölskyldu þar sem börnin eru reglulega lúbarin í Guðs nafni.

Ljóðmælandi lendir svo á glapstigum unglingur. Dópar sig, fremur innbrot, misþyrmir fólki, lendir í endalausu skólaklandri, er stungið í fangelsi oftar en einu sinni o.s.frv.

Á köflum eru þessar lýsingar afar áhrifamiklar, sum kvæðanna eru verulega góð, t.d. ljóð sem í norskri þýðingu nefnist „Formørkelse“ og „Fødselen“.

 Skáldið virkar eins og nýr, en rammpólitískur Rimbaud. Þrátt fyrir skuggalegan bakgrunn er strákurinn allvel lesinn, þekkir verk Dostojevskís ágætlega.

Bókin er mikill reiðilestur og fá bæði dönsk yfirvöld, íslam og arabísk menning sinn skammt.

Enda var Hassan ógnað af íslömskum öfgamönnum og var lengi með lögregluvörð.

Á föstudaginn var birti norska Morgenbladet viðtal við skáldið og kom hann fyrir sjónir sem furðufugl með noju, þeysandi um á svakakúlu vélhjóli, verandi sannur frægðarmaður.

Hann  gaf í skyn að ný bók væri á döfinni. Það verður sannarlega spennandi fylgjast með þessum unga hæfileikamanni.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni