Vitið og stritið. Aftur.
Ég hélt að menntahatrið mikla væri fyrir bí á Íslandi. En í sumar sem leið varð ég þess var að svo er ekki.
Bullgrein í Mogga
Ég leit aldrei þessu vant í Morgunblaðið.
Þar gat að líta aðsenda grein eftir einhverja Stefaníu Jónasdóttur („Jöfnuður og fleira“, Morgunblaðið 31/7 2015).
Konan hellir sér yfir menntamenn, sérstaklega BHM menn. Þetta „hrokafulla fólk“ fari í verkfall þótt laun þess séu góð, enda sé það fúlt yfir því að verkafólk sé að nálgast það í launum.
Henni finnst ekki nóg að brigsla menntafólki um hroka heldur býður hún upp á eftirfarandi gullkorn:
„…það þeim höndum sem skapa verðmæti, svo að þið sem menntuð eruð getið staðið blaðrandi á torgum og ráðstefnum, já þið eruð svo fjandi menntuð, ekkert er hugsað út í hvaða gagn þið gerið“.
Höfundur trúir greinilega á gömlu goðsöguna um að stritið eitt skapi verðmæti. Það er tóm tjara.
Ef menntamenn hefðu ekki stritað pungsveittir við að beita viti sínu til að finna upp vélar og ýmis önnur tól þá væru sjómenn enn á tíæringum og bændur slægu með orf og ljá.
Hyrfu afurðir mennta allt í einu myndi drjúgur hluti þjóðarinnar (og mannkynsins alls) deyja úr hungri.
Stefanía bölsótast út í hjúkrunarfræðinga en skilur ekki að án menntaðra lækna og hjúkrunarkvenna myndi mun stærri hluti þjóðarinnar vera óvinnufær vegna veikinda, með þeim afleiðingum að verðmætasköpun yrði mun minni.
Þess utan myndi margt dugmikið fólk deyja fyrir aldur fram, það myndi líka draga úr verðmætasköpun.
Stefaníu láist að hallmæla hinni vondu kennarastétt sem eins og allir vita lifir í vellystingum pragtuglega án þess að dýfa hendi í kalt vatn.
En í nútímasamfélagi er menntun alger forsenda þess að efnahagskerfið virki, menn þurfa að vera sæmilega vel læsir, kunna reikning, tölvunarfræði og helst eitthvað í ensku til að geta unnið eitthvað af viti, jafnvel bara einföld störf.
Kennarar sjá til þess að menn öðlist slíka lágmarksmenntun. Þannig stuðlar kennarastéttin að aukinni verðmætasköpun.
Hreinfræði geta verið hagnýt
Í ofan á lag skapar hámenntað fólk forsendu þess að menn geti notið nútíma lífskjara, t.d. að geta ekið í bílum með GPS kerfi.
Albert Einstein var ekki beinlínis ómenntaður og setti fram hina frægu afstæðiskenningu.
Hún virtist í fljótu bragði hrein kenning án hagnýtrar þýðingar. En nú hefur komið í ljós að án hennar væri GPS tæknin ekki möguleg.
Hvar væru sjómenn án þessarar tækni? Hvar væru fiskveiðar Íslendinga án tölvunnar?
Heimspekingurinn Blaise Pascal (1623-1662) fann upp eins konar reiknivél sem var forveri tölvunnar.
Breski stærðfræðingurinn og rithöfundurinn Ada Lovelace (1815-1852) gerði fyrsta tölvuforritið. Annar breskur stærðfræðingur, George Boole (1815-1864), fann upp hina svonefndu „boolsku algebru“ en það er grunnur tölvumálsins. Tölvurnar eru „mæltar“ á þessa algebru.
Vart þarf að segja að tölvan hefur verið efnahagnum mikil lyftistöng, hún er sköpuð af vondum menntamönnum. Fólki sem hefur unnið með vitinu, ekki stritinu.
Þá kann einhver að segja að þetta sýni bara að hagnýt menntun skapi verðmæti, önnur menntun stuðli ekki að verðmætasköpun.
En það er hrein della.
Það er illmögulegt að sjá fyrir hvers konar menntun getur reynst hagkvæm.
George Boole stundað hreina stærð- og rökfræði án umhugsunar um mögulegt hagnýtt gildi.
Hið hagnýta gildi pælinga hans var ekki uppgötvað fyrr en löngu eftir dauða hans.
Hið sama gildir um Einstein eins og ég hef reyndar þegar nefnt. Hans pælingar voru hreinfræðilegar en öðluðust hagnýtt gildi seinna.
Án kjarneðlisfræði væri ekki hægt að nýta kjarnorku til þess að framleiða rafmagn. En fræðimennirnir sem sköpuðu það fag höfðu flest annað en hagnýt markmið í huga.
Þá fýsti einfaldlega að skilja innviði alheimsins.
Hugvísindi og hagkvæmni
Hvað þá með hina vondu hugvísindamenn? Eru þeir ekki bara afætur?
En án heimspeki væri ekki nútíma-náttúruvísindi ekki til og án þeirra væri obbinn af skilvirkustu tækni nútímans ekki til og allt mannkyn örfátækt.
Heimspekingurinn Demokrítos setti fram fyrstu öreindakenninguna, Einstein sótti innblástur í heimspekikenningar Davids Hume og Ernsts Mach.
Heimspekingar á borð við Gottlob Frege og Bertrand Russell lögðu sitt af mörkunum til að skapa nútíma rökfræði.
Hún hefur reynst mikilvæg í tölvunarfræðum.
Eins og gefið hefur verið í skyn er oft erfitt að sjá hvaða menntun geti verið hagnýt.
Félagi minn norskur er hugvísindamaður sem fæst við rannsókn á gömlum þöglum heimildarmyndum um heimskautaferðir.
Afskaplega óhagnýtar rannsóknir eða hvað?
En svo gerðist að vísindamenn sem rannsaka hlýnun jarðar uppgötvuðu að hann hefði rannsakað myndir sem sýndu heimskautasvæðin eins og þau voru fyrir tæpri öld.
Þeir gátu nýtt þekkingu hans á þessum myndum til að efla skilning sinn á þróun heimsskautaíssins. Um mikilvægi þeirrar þekkingar fyrir seinni kynslóðir þarf ekki að fjölyrða.
Eitt sinn var danskur viðskiptamaður beðinn um að taka yfir og bjarga fyrirtæki sem rambaði á barmi gjaldþrots.
Hann lét það verða sitt fyrsta verk að reka alla viðskipta- og verkfræðinga fyrirtækisins en ráða í þeirra stað atvinnulausa hugvísindamenn.
Og sjá! Fyrirtækið blómstraði.
Aðspurður sagði viðskiptamaðurinn að hugvísindamenn væru þjálli í hugsun en verk- og viðskiptafræðingar, því væru þeir fundvísari á nýjar leiðir í fyrirtækjarekstri (ég las um þetta í norsku blaði fyrir hartnær aldarfjórðungi og sel ekki dýrara en ég keypti það).
Lokaorð
Bókvitið verður í askana látið, verðmæti eru fremur sköpuð með viti en striti, gagnstætt því sem þessi Stefanía heldur.
Auk þess getur það sem virðist óhagnýtt reynst fjáranum hagnýtara þegar til langs tíma er litið.
Því eins og sænska skáldið Gunnar Ekelöf orti: „Det opraktiska är det enda praktiska i längden».
«Hið óhagnýta er það eina sem hagnýtt er þegar til lengdar lætur».
Athugasemdir