"Vísindin efla..."
Í gær þyrptist fjöldi manns víða um lönd í göngur til að mótmæla árásum á vísindin. Trump og liðsmönnum hans nægir ekki að tala um valkvæðar staðreyndir og hunsa velígrundaðar kenningar um hlýnun jarðar. Þeir ráðast líka beint á vísindin með því að berjast fyrir minni opinberum framlögum til vísindastarfa vestanhafs. „Lifa bæði á mysu og mjólk...“, Trump virðist í fúlustu alvöru trúa því að Bandaríkjamenn lifi af kolagreftri og bílaframleiðslu en sú tíð er löngu liðin. Í dag er hugbúnaðargerð meginiðnaður Banaríkjanna, í Kísildal vinna menn með vitinu, ekki stritinu.
Grunnrannsóknir, tækni, ríkisframlag
Starfsemin þar byggir að verulegu leyti á grunnrannsóknum vísindamanna. Ekki veit ég hvort GPS tækin voru þróuð í Kísildal en hitt veit ég að án afstæðiskenningar Einsteins væri ekki hægt að gera slík tæki. Án rannsókna vísindamanna á öreindum hefði leysigeislatækni aldrei komist á koppinn. Tæpast hefur leysigeislatæknin verið þróuð í dalnum væna, gagnstætt skammtatölvutækni. Sú tækni byggir á skammtafræði (e. quantum mechanics) en viðfang þeirra er öreindanna margháttaða furðueðli. Frumkvöðlar þessara fræða voru þýskir eðlisfræðingar sem störfuðu við ríkisháskóla og voru því á framfæri skattgreiðenda. Það eru bandarískir vísindamenn að miklu leyti líka, þeir kæmust ekki langt án opinberra styrkja. Fyrir stríð máttu bandarísk vísindi sín lítils og gátu ekki att kappi við hin ríkisreknu vísindi Þýskalands (nóta bene fram að 1933 þegar Hitler tók að rústa þýskt vísindastarf). Á fyrsta þriðjungi aldarinnar fengu þýskir vísindamenn þrjátíuþrisvar sinnum nóbelsverðlaun, bandarískir vísindamenn aðeins sex sinnum. Það þótt Bandaríkin væru mun fjölmennara land en Þýskaland og þótt vísindastarf væri nánast einvörðungu einkarekið þar vestra. Eftir stríð tók alríkisstjórnin bandaríska að dæla skattfé í vísindarannsóknir og Bandaríkin tóku afgerandi forystu í vísindaheiminum. Enda grunnrannsóknir þess eðlis að gróðinn af þeim er ágóði til langs tíma og ábatinn gjarnan óviss. Engan gat órað fyrir því að hreinfræðilegar rannsóknir á mörkum stærðfræði og rökfræði yrðu ábatasamar, án algebru kenndri við George Boole væru tölvuforrit ekki til (Boole þessi var uppi á nítjándu öldinni og stundaði grunnrannsóknir, hreinræktuð vísindi). Þessi óvissa gerir að verkum að það er auðvelt fyrir einkafyrirtæki að gerast laumufarþegar (e. free riders), hagnýta sér grunnrannsóknir sem aðrir hafa fjármagnað enda er aðgangur að afurðum slíkra rannsókna öllum opin. Í ljósi má ætla að það borgi sig sjaldnast fyrir einkafyrirtæki í tæknibransanum að dæla peningum í grunnrannsóknir þótt þær séu nauðsynleg forsenda tækninnar. Vart verður annað séð en að ríkið verði að standa undir mestum parti kostnaðarins við slíkar rannsóknir. En auðvitað sakar ekki að sjóðir í einkaeign hlaupi undir baggann, öðru nær.
Lokaorð
Sem sagt: Án grunnrannsókna, engin nútíma tækni, án ríkis-„afskipta“ lakari grunnrannsóknir og þar með lélegri tækni. Vilji Trump aftæknivæða Bandaríkin þá er honum frjálst að reyna það.
Vísindin efla tæpast alla dáð en þau efla alltént tæknidáð.
Athugasemdir