Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Verður Rubio næsti forseti?

Þá er forkosningunum í Iowa lokið, Clinton virðist hafa marið Sanders, Cruz fengið flest atkvæði meðal Repúblíkana.

En það sem vekur mesta athygli mína er gott gengi Marco Rubios, hins unga öldungardeildarþingmanns frá Flórída. Hann fékk 23% atkvæða eða litlu minna en Trump (24%) og Cruz (27%).

Hann er talinn maður valdahópsins í flokknum og ekki sagður vinsæll meðal halelúja-liðsins í Miðvestrinu en gekk samt svona vel í Miðvesturríkinu Iowa. .

Ég hugsa að hann vinni forkosningar í New Hampshire og eigi mjög góða möguleika á að verða forsetaefni Repúblikana.

Verði hann það tel ég hann líklegan til sigurs.

Í fyrsta lagi er sjaldgæft að sami flokkur vinni forsetakosningarnar þrisvar í röð.

Í öðru lagi er Obama ekki sérlega vinsæll og það kann að bitna á frambjóðanda Demókrata.

Í þriðja lagi er Hillary Clinton mjög umdeild, margir vantreysta henni (ég gef mér að hún verði frambjóðandi Demókrata).

Í fjórða lagi eru Bandaríkjamenn hrifnir af æsku og framtíð, hinn fjörutíuogfjögurra ára gamli Rubio er ansi miklu yngri en Hilary og mun yngri en Sanders ef út í það er farið.

Í fimmta lagi mun hann taka æði mikið af spænskumælandi fylgi frá Demókrötum og vinna hið mikilvæga ríki Flórída sem Obama vann tvisvar.

Það verður hægt að þola Rubio sem forseta, ekki brjálæðingana Trump og Cruz (um þann síðastnefnda hefur verið sagt að hann sé til hægri við veruleikann). Rubio er enginn hægriöfgamaður þótt hann sé helst til  hægrisinnaður fyrir minn smekk.

En Bandaríkin hefðu gott af smá vinstriinnspýtingu í boði Sanders. Auk þess er Hillary Clinton reynslubolti með mikla stjórnunarhæfni þótt hún sé helst til tækifærissinnuð og of háð Wall Street.

Skömmu eftir að Bill Clinton var kjörinnn forseti hitti móðir mín fyrrverandi kennara Clinton-hjónanna við Yale-háskólann.

Sú kona sagði: „The wrong Clinton became president“.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni