Vald og fé
Í lögbók íslenska þjóðveldisins, Grágás, segir um goðorðið "vald er þat, eigi fé".
En valdið og féð vilja tvinnast saman með ýmsum hætti, oft á leiðan máta.
Sumir telja rétt að efnað fólk stjórni. Efnamenn séu fjárhagslega sjálfsstæðir og því minni líkur á því að þeir verði háðir þrýstihópum sem hyllist til að „kaupa“ efnaminni stjórnmálamenn.
Gallinn við þessa kenningu er sú að hún er ekki studd reynslurökum.
Hafa verið gerðar skipulegar rannsóknir á tengslum ríkidæmis og stjórnmála sem styrkja þessa tilgátu?
Víkur nú sögunni vestur til Kaliforníu en þar situr sálfræðingurinn Paul Pitt. Hann og teymi hans hafa gert ýmsar rannsóknir á tengslum auðæfa og atferlis.
Niðurstaða þeirra er sú að auðmenn séu almennt tillitslausari, eigingjarnari og ruddalegri en aðrir.
Flest okkar vilja tillitssama, ósíngjarna og prúða leiðtoga. Að því gefnu að Pitt hafi á réttu að standa þá er fremur ólíklegt að fokríkir menn verði leiðtogar af þessu góða tagi.
Oft er sagt að mikill vilji meira, margir ríkisbubbar fá aldrei nóg, þeir vilja stöðugt meira fé.
Ekki verður séð að fjárhagslegt sjálfsstæði Silvio Berlusconis hafi komið í veg fyrir að hann misnotaði aðstöðu sína sem forsætisráðherra á ýmsa lund.
Hann er sagður hafa notað þrjár milljónir Evra til að múta tilteknum þingmanni. Forsætisráðherra sem ekki er moldríkur getur ekki mútað fólki með þessum hætti þótt hann feginn vildi.
Annar ríkisbubbi og fyrrum forsætisráðherra, Tælendingurinn Thaksin Sinawatra, er sagður hafa sett dælu í ríkssjóð og dælt fé til sinna fylgismanna.
Einnig er hann borinn þeim sökum að hafa notað vald sitt til að hygla fyrirtækjum í eigu fjölskyldu sinnar.
Minnumst þess líka að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben töpuðu ekki beinlínis á því að afnema auðlegðarskattinn.
Þess utan má ætla að vellauðugt fólk sé að jafnaði illa fært um að skilja aðstæður venjulegs fólks. Alla vega sýnist mér að þessir tveir íslensku pólitíkusar hafi takmarkaðan skilning á aðstöðu almúgans.
Fólk samsamar sig oftast þeim sem það á mest sameiginlegt með, ekki síst hvað efnahag varðar. Því eru miklar líkur á að ríkir stjórnmálamenn hygli stéttsystkinum sínum.
Af ofansögðu má sjá að kenningin um að efnamenn séu öðrum betur til stjórnmálaforystu fallnir á ekki við rök að styðjast.
Samt má ekki útiloka þann möguleika að auðmenn geti verið góðir stjórnmálamenn.
Franklin Delano Roosevelt var einhver mesti stjórnmálaskörungur sögunnar, þótt hann ætti til ríkra að telja.
En hann var enginn venjulegur Simmi.
Athugasemdir