Þúfan og hlassið, brjóstgjöfin og framleiðnin
Alltof algengt er að menn leiti skýringa á sögulegum og félagslegum ferlum í meintum lögmálum og öðru því sem algildi á að hafa. Of lítið er gert af því að huga að mögulegum mætti tilviljana og smáatriða, menn gleyma að þúfan litla getur velt hlassinu þiunga. Og að fiðrildið smáa getur valdið ofviðri með því einu að blaka vængjunum á tilteknu augnabliki á tilteknum stað.
Brjóstgjafarleysan mikla
Lítum á Íslandssöguna. Erlendir ferðamenn á fyrri öldum höfðu sumir orð á því að Íslendingar virtust ekki þrekmiklir. Þess utan var barnadauði mikill og meiri en víðast í Evrópu. Ein meginskýring á því síðastnefnda voru þau undarlegu ósköp að konur höfðu börn helst ekki á brjósti heldur gáfu kúamjólk og fasta fæðu. Það er talið hafa að nokkru leyti stafað af því að konur þurftu helst að fara að vinna eins fljótt og mögulegt er. Það hafi m.a. verið vegna þess að eiginmenn voru oft langdvölum á sjónum. En bent hefur verið á að vinnuharka hafi síst verið minni annars staðar í Evrópu og að franskir sjómenn hafi oft verið mánuðum saman í burtu, samt hafi brjóstgjöf tíðkast í Frakklandi. Brjóstgjafarleysan virðist því eiga sér rætur í einhverjum séríslenskum aðstæðum, jafnvel einhverri landlægri dellu (della er þúfuígildi). Spurt er: Kann brjóstgjafarleysan að vera skýring á þrek-og heilsuleysi Íslendinga á átjándu og nítjándu öld? Yfirleitt er talið að brjóstamjólk sé heilsubætandi og jafnvel greindaraukandi. Þrekleysi, heilsuleysi og mikill barnadauði hafa eflaust átt þátt í fátækt og vesöld Íslendinga. Kann brjóstgjafarleysan að hafa verið þúfan sem velti hlassinu?
Framleiðnisleysan mikla
Margt bendir til þess að framleiðni sé minni á Íslandi en í nágrannalöndunum. Getur verið að ein ástæða þess sé einfaldlega sú að fólk fái ekki nægan svefn vegna þess „smáatriðis“ að klukkan íslenska er ekki rétt stillt heldur samræmd meðaltíma Greenwich sem er langt austan við Ísland?
Lokaorð
„Mitt kall er ei að svara heldur spyrja“, sagði Henrik Ibsen í bréfi til Georgs Brandes. Ég á engin svör við þessum spurningum, kannski góðfús lesandi lumi á góðum svörum.
Athugasemdir