Trump og gamli gringó
Carlos Fuentes (1928-2012) var einn helsti rithöfundur Mexíkóa. Nú er hann
dauður og fær ekki nóbelsverðlaunin. Þau hefði hann getað fengið fyrir snilldarverkið Gamla gringó sem ég las á dögunum, rafmagnað drama í anda töfraraunsæis, frumlega uppbyggt og fantavel skrifað. Bókin byggir á sögusögnum um örlög bandaríska rithöfundarins og háðfuglsins Ambrose Bierce (1842-1914?) sem fór til Mexíkó árið 1914 til að kynna sér borgarastyrjöldina þar, jafnvel til að deyja. Hann hvarf í Mexíkó og veit enginn hver örlög hans urðu. Saga Fuentes byggir á þessu hvarfi en aðalpersónan er aldrei nefnd á nafn, bara kölluð „gamli gringó“. Sá fer til Mexíkó til að láta drepa sig í bardaga, leiður á lífinu eftir sviplegt andlát sona sinna. Hann gengur í her uppreisnarmanna, lendir í slagtogi við einn hershöfðingja þeirra og unga bandaríska kennslukonu. Hershöfðinginn lendir í bólinu með konunni og þykir það mikil upphefð, að hafa unnið kynlífssigur á meginóvininum, Bandaríkjunum. Hann hefur til umráða gögn sem eiga að sanna að jarðnæði, sem landeigendur höfðu lagt undir sig, tilheyrði í raun kotbændum. En gringóinn tekur þau og kveikir í þeim, hershöfðinginn banar honum. Sá gamli gerir þetta líklega til að tryggja sér dauða en um leið má líta á atburðinn sem tákn fyrir yfirgang Bandaríkjanna gegn Mexíkó. Sá yfirgangur er eitt meginstef bókarinnar. Víkur nú sögunni til nútímans og þess gamla gringós sem í Hvíta húsinu situr. Hann ritar nú nýjan kafla yfirgangssögunnar með því að krefjast þess að Mexíkóar borgi fyrir múrinn sem hann hyggst reisa á landamærunum. Fuentes hefði getað skrifað magnaða skáldssögu um þessa upp á komu. Bierce hefði getað bætt við atriðisorði í hina meinhæðnu og nöpru „orðabók“ sína The Devil´s Dictionary. Þar segir hann um höfuðborgir: „CAPITAL, n. The seat of misgovernment“.
Athugasemdir