Trója, þrælflækt saga
Svo orti meginskáldið Ezra Pound í Canto IV:
„Palace in smoky light,
Troy but a heap of smouldering boundary stones,…“
Löngu áður en ég las kvæði Pounds las ég sígildra söguheftið um Ilíonskviður upp til agna, barnungur. Mörgum árum seinna las ég sjálfa Ilíonskviðu Hómers: „Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkea ótölulegum mannraunum,…“
Um daginn var ég í Berlín og keypti bókarkorn um Trójustríðið eftir Michael nokkurn Siebler og nefnist kverið Troia Mythos und Wirklichkeit (Trója. Goðsaga og veruleiki). Er skemmst frá því að segja að ég las bókina af miklum áhuga og fékk netta Trójustríðsdellu fyrir vikið, hef síðan legið yfir youtubefyrirlestrum um fyrirbærið og gúglað einhver ósköp.
Trójustríðið raunveruleiki?
Lengi vel trúðu flestir fræðimenn því að Trójustríðið hefði verið hreinn skáldskapur.En á síðari árum hefur þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að allmikill sannleikskjarni sé í kviðunum og öðrum grískum sögnum um stríðið. Eitt er fyrir sig að Hómer (ef hann var til og ekki bara nafn á fjölda skálda) lýsir allnákvæmlega staðarháttum í kringum rústir þær sem taldar hafa verið Trójurústir. Annað er að hann lýsir furðunákvæmlega einni útgáfu af Tróju sem fundist hefur í rústunum og nefnist Trója VI. Það þótt þessi útgáfa hafi verið rústir einar um daga Hómers og gæti þetta bent til að hann hafi haft áreiðanlegar heimildir, líklega í formi munnlegra sögukvæða. Þriðja er að hann talar um volduga konunga í borgum á borð við Mýkeníu, Pylos og Tiryns. Mýkenía var um hans daga smáþorp, hinar tvær borgirnar löngu komnar í eyði. Seinna fundu fornleifafræðingar rústir konungshalla frá bronsöld á þessum stöðum og leirtöflur sem skrifaðar voru á eldfornu afbrigði af grísku (ég hef gengið um rústir Mýkeníu mér til óblandinnar ánægju!). Siebler segir að finna megi í Ilónskviðum fornyrði sem notuð voru af Mýkeníumönnum mörg hundruðum árum fyrir daga Hómers, á þeim árum sem stríðið gæti hafa átt sér stað (u.þ.b. 1250-1170 fyrir tímatal okkar, f.t.o.). En er líklegt að minningar um stríð þetta hafi lifað í munnlegri geymd í fjögur til fimm hundruð ár? Svarið er að það er ekki útilokað. Bandaríski fræðimaðurinn Milman Parry gerði rannsóknir á serbneskum söguljóðum sem varðveist höfðu munnlega og voru kveðin líkt og íslenskar rímur. Í þessum „Serbarímum“, sem er jafn langar og Ilíonskviður, er sæmilega nákvæmlega sagt frá orrustunni miklu í Kósóvó árið 1389 þar sem Lazar Serbajöfur beið ósigur fyrir her Ottómanatyrkja. Minningarnar um orrustuna höfðu sem sagt lifað í tæpar sex aldir í munnlegri geymd. Minnast má þess að ólæst fólk hefur oft mun betra minni en hinir læsu, það er líklega skýringin á því að Serbaskáld hafi munað þessar langlokur. En ég vil benda á að ósennilegt er að enginn þeirra Serba sem kunni söguljóðin hafi hitt læst fólk sem hafði lesið sér til um orrustuna og hugsanlega lært eitthvað af þeim. Slíku var ekki til að dreifa í Grikklandi á árunum 1100-750 f.t.o., þegar Mýkeníumenningin hrundi gleymdist ritlistin og Grikkir voru ólæsir öldum saman. Hvað sem því líður þá virðist sú veröld sem Hómer lýsir vera blanda af bronsaldarmenningu Mýkeníumanna og járnaldarmenningu hans gríska samtíma. Vopnin eru úr bronsi eins og þau voru fjögur hundruð árum fyrir daga Hómers. Einnig lýsir hann skjöldum og sverðum frá þessum tímum, t.d. skjöldum sem voru í laginu eins og talan átta en ekki er talið að skildir hans samtíma hafi verið þannig lagaðir. Hann segir líka frá hjálmum, alsettum galtatönnum, sem voru algengir á Mýkeníutímanum en ekki á hans eigin öld svo vitað sé. En einhver gagnrýnandi segir að vel megi vera að einhver hafi fundið slíkan hjálm og áttalaga skildi og sýnt Hómer (honum, henni, þeim) og hugmyndaflugið hafi þá hafist. Við má bæta að konungum er lýst sem e.k. stórbændum eins og höfðingjar hans eigin tíma hafa ugglaust verið. Það voru konungar Mýkeníumanna örugglega ekki, þeir bjuggu í stórum höllum og ríki þeirra velskipulögð skrifræðissamfélög þar sem öll viðskipti voru vandlega skráð af her skrifara. Hómer segir líka að lík hafi verið brennd en það var ekki til siðs meðal Mýkeníumanna svo vitað sé. Fundist hafa miklar grafir fyrirmanna og líkin sum með gullgrímur í andlita stað. Lítum á fleira sem styrkt gæti tilgátuna um að Trójustíðið hafi átt sér stað. Fundist hafa leirtöflur í rústum Hattusas, borgarinnar þar sem stórkonungar Hittíta sátu á bronsöld. Þar er talað um borg í vestri sem kallast Wilusa og telja margir fræðimenn að það gæti verið „Ilíos“ sem er annað nafn Tróju, samanber „Iliónskviður“. Sennilegt sé að borgin hafi heitað „Wilíos“ á frumgrísku Mýkeníumanna, tvöfaltvaff á undan sérhljóða hafi verið algeng í henni en horfið í síðari myndum grísku. Einnig er getið um Alaksandu, hæstráðanda Wilusa. Gæti það verið Alexandros, öðru nafni París, Trójuprinsinn sem rændi Helenu og olli með því Trójustríðinu? Vissulega var sá Alaksandu sem Hittítar nefna á dögum allöngu fyrir mögulegt stríð en hver segir að nafnið hafi ekki verið algengt meðal konungborinna Trójubúa? Leirtöflur Hittíta nefna hvað eftir annað um tveggja alda skeið stórveldis í vestri sem Ahhiwaya nefnist. Varðveitt er bréf sem einn stórkonungur Hittíta sendi konungi Ahhiwaya og kallar hann „bróður sinn“ og „stórkonung“. Sú kenning er orðin nokkuð viðurkennd að Ahhiwaya hafi verið land Akkea, en svo nefnir Hómer Grikki Trójustríðstímans. Sumir malda í móinn og segja að þetta sé öldungis óvíst, Grikkland Mýkenímanna hafi ekki lotið einum stórkonungi. En samkvæmt Hómer var Agamemnon eins konar yfirkonungur Grikkja þótt hann hefði takmörkuð völd yfir hinum konungunum. Ef til vill reit Hittítajöfur til einhvers yfirkonungs Akkea og hefur kannski haldið hann valdameiri en raun bar vitni. Fornleifafræðingurinn Eric Cline hefur athyglisverð rök fyrir tilgátunnni um að Ahhiwaya hafi verið land Akkea. Hann segir að sé Akkeatilgátan ekki sönn verði að gera ráð fyrir nýjum þætti, ríki sem hafi verið Ahhiwya en sem við vitum nákvæmlega ekkert um. Sé Ahhiwaya ekki Akkealand þá sé ekki hægt að finna stafkrók hjá Hittítum um Mýkeníumenn það þótt þjóðirnar hafi átt verslunarviðskipti við hvor aðra. Mýkenímenn voru siglingarþjóð og hafa skipsflök þeirra fundist víða, m.a. nærri yfirráðasvæði Hittíta. Er líklegt að Hittítar hafi ekki talið ástæðu til að nefna jafn öflugt samfélag og hið Mýkeníska en áhrifasvæði beggja voru mjög nálægt hvort öðru á ströndum Litluasíu. Í leirtöflum Hittíta er gefið í skyn að Hittiítar og Ahhiwayamenn hafi tekist á vegna Wilusa. Gæti það hafa verið hið eina sanna Trójustríð?
Trója nógu stór?
Sumir sem efast hafa um sanngildi Ilíonskviðu og annarra grískra sagna um Trójustríðið segja að rústir Tróju bendi til þess að hún hafi verið smáborg á tólftu og þrettándu öld f.t.o. og því hafi Mýkenar vart haft mikinn áhuga á henni. En þýski fornleifafræðingurinn Manfred Korfmann tók að athuga Tróju með nútímatækni og komst að þeirri niðurstöðu að allfjölmenn lágborg hafi verið í kringum það sem menn töldu vera hina eiginlegu Tróju. Nægilega stór og auðug til að vera freistandi fyrir innrásarheri. Reyndar eru ekki allir sammála þessu, t.d. ekki þýski sagnfræðingurinn Martin Zimmerman. Hvað um það, sú útgáfa af Tróju (Trója VI) sem líkist mest lýsingu Hómers virðist hafa orðið jarðskjálfta að bráð um 1250. Sumir telja að Mýkeníumenn gætu hafa notfært sér ástandið og hertekið borgina. Trójuhesturinn gæti verið goðsögulegt minni um jarðskjálftann þar eð hesturinn var tákn Póseidons en hann var guð jarðskjálfta í frístundum, að jafnaði guð hafsins. En Cline er efins um þessa hertökukenningu. Trója hafi verið endurbyggð eftir jarðskjálftann (Trója VII), greinilega af fólki sem tilheyrði sömu menningu og þeir sem byggðu Tróju VI. En númer VII hafi verið miklu fátækari en númer VI. Henni hafi samt verið eytt af innrásarher um 1170-80 og telur Cline að þar hafi verið að verki hafþjóðirnar svonefndu sem herjuðu víða á þessum árum og áttu þátt í að rústa bronsaldarmenningu Miðausturlanda (hallir Mýkeníumanna brunnu á þessum árum og voru yfirgefnar, kannski vegna árása hafþjóðanna, mögulega vegna jarðskjálfta). Cline setur fram þá kenningu að Hómer hafi blandað saman hruni Tróju VI og VII, rétt eins og hann blandaði saman járn- og bronsöld. Vel gæti verið að oftsinnis hafi komið til átaka milli Trójumanna og Mýkena og Hómer búið til úr fjölda átaka eitt langt stríð. Var barist út af Helenu hinni fögru eins og Hómer sagði? Líklega ekki, segir Cline. Trója hafi verið vel í sveit sett nálægt sundinu sem aðskilur Svarta- og Eyjahafið. Þar hefði mátt knýja kaupskip til að borga tolla og ráðamenn Tróju auðgast fyrir vikið (alþýðan hefur sjálfsagt mátt snapa gams en gerir hún það ekki alltaf?). Mýkeníumenn hafi mögulega ágirnst Tróju þess vegna.
Lokaorð
Hvort sem Trójustríðið hafi rauninni gerst eður ei, þá hefur hugmyndin um það getið af sér mikinn skáldskap, ekki síst Ilíonskviður Hómers. Gefum honum (henni, þeim?) næst síðasta orðið:
„Morgungyðjan, íklædd sóllauksmöttli, dreifði sér yfir alla jörðina“.
Hið besta var kvæðið ort.
Athugasemdir