Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

TRAUST, NOREGUR, OLÍA

Einhvern tímann sungu menn «Traustur vinur getur gert kraftaverk». Þeir vissu ekki að traust getur gert efnahagsleg kraftaverk.  

Traust og hagsæld

Norski hagfræðingurinn Alexander Cappelen hefur haldið því mjög á lofti að mikið traust Norðmanna á ríkinu og á öðru fólki  væri mesta auðlind þeirra, meira virði en olíusjóðurinn sem græðgisíslendingarnir  girnast svo mjög. Væri traust Rússa jafn mikið þá væru þeir 70-80% ríkari, segir hagfræðingurinn.

Hvers vegna er traust hagkvæmt? Vegna þess að mikill skiptakostnaður (e. transaction cost) er af vantrausti. Ef menn vantreysta hver öðrum þá er líklegt að þeir noti tíma, orku og þar með peninga til að verja sig gegn hver öðrum. Þeir þurfa líka að athuga vandlega hvort viðskiptvinir séu ærlegir eða ekki o.s.frv.

Það er ekki síst vegna þessa mikla trausts sem Norðmenn hafa sætst á að setja olíugróðann að miklu leyti í sjóðinn fræga.  Ein af forsendum traustsins er tiltölulega mikil efnahagsjöfnuður, þannig getur jöfnuður verið ábátasamur. Gagnstætt því sem frjálshyggjumenn halda.

Ástæðan er sú að ef mikill ójöfnuður er í samfélaginu þá eru miklar líkur á að hinir ríku og síður ríku lifi aðskildir frá hver öðrum, skilji því ekki hvern annan og vantreysti.

Víkjum aftur að sjóðnum væna. Að minni hyggju hefði  olíusjóðurinn  ekki verið mögulegur án þess sem ég hef nefnt «sam-framtakssemi» Norðmanna, hæfni þeirra til sameiginlegs átaks. Frjálshyggjumenn segja að einstaklingshyggja sé forsenda efnahagsframfara en án ákveðinnar hóphyggju væri samframtakssemin ekki möguleg.

Olíusjóðurinn væri heldur ekki mögulegur án þjóðernishyggju, Norðmenn sættast á að olíuauðurinn nýtist Norðmönnum framtíðarinnar. Norskir einstaklingar  samsama sig þjóðinni sem heild. Þess utan er þjóðin  fremur einsleit menn treysta betur þeim sem líkjast manni sjálfum.

Þjóðernishyggja hefur sínar góðu hliðar þótt alþjóðarembungar skilji það ekki.

Frjálshyggjumenn telja mönnum trú um að samkeppni sé allra meina bót en það er samstaða, ekki samkeppni,  sem gert hefur  olíusjóðinn mögulegan. Sáttamenning hefur sína kosti.

Frjálshyggjumenn halda að einkaframtakið sé ávallt best en olíubransinn norski er að mestu í höndum ríkisins.  Statoil var í öndverðu ríkis- og flokksfyrirtæki sem Krataflokkurinn réði, það án þess að  þjóðin biði skaða af.

 Fyrir þrjátíu árum vildi frjálshyggjufrömuðurinn Carl I. Hagen láta einkavæða Statfjord-olíusvæðið, selja það fyrir tíu milljarða norskra króna. En góðu heilli var það ekki gert, svæðið hefur nú skilað Norðmönnum segi og skrifa 1050 milljörðum norskra króna ( skv Morgenbladet 23/1 2015).

 Frjálshyggjumenn tala eins og græðgi sé góð en án norskrar nægjusemi væri ekki til neinn olíusjóður.

Þyrnar rósarinnar

En engin er rós án þyrna. Þrenningin helga,  sam-framtakssemin, jöfnuður  og heildarhyggja hefur að forsendu það leiða fyrirbæri sem Norðmenn kalla „lögmálið frá Jante“. Samkvæmt því eiga menn helst ekki að skara fram úr, heldur vera meðalmenni eins og flest fólk. Lögmálið dregur úr einstaklingsframtaki sem aftur bitnar á efnahagslífinu, einkaframtakið hefur líka sínar góðu hliðar.

Ég þekki fleiri en eitt dæmi um verulega hæfileikaríka menntamenn sem ekki hafa nýtt hæfileika sína því þeir vildu bara lifa eins og meðal-Norðmenn. Hætta að vinna klukkan fjögur og fara svo á skíði. Ekki leggja það á sig sem þarf til að ná góðum árangri á menntasviðinu. Einhvers staðar sá ég tölur um greinabirtingar norskra fræðimanna í byrjun aldarinnar. Þá birtu þeir að meðaltali aðeins 50% af því magni sem danskir og sænskir fræðimenn birtu. Kom mér ekki hið minnsta á óvart eftir áratuga starf í norskum menntastofnunum.

Ég held að ofurveldi þessa lögmáls sé ein af skýringunum á því  að Noregur stóð fremur illa efnahagslega þar til olían fór að streyma. Árið 1971 var verg landsframleiðsla (V.L.F)  á mann í Noregi 64.7% af bandaríska VFL, sænskt V.F.L. nam 90.7% af því ameríska. Ítalir voru heldur auðugri en Norðmenn (67.7% af amerísku V.F.L), Grikkir litlu fátækari (61.9%) og Vestur-Þjóðverjar mun ríkari (75.9) (skv Aftenposten 13/2  2015).

Sáttamenningin getur líka verið þrúgandi. Ég herf áður nefnt  undirlægjusemi norskra blaðasnápa við Torvald Stoltenberg, hvernig þeir þögðu yfir undarlegri yfirlýsingu hans um íbúa fyrrum Júgóslavíu. Hann sagði að þeir væru allir Serbar og bað blaðamennina að þegja yfir þessu, þeir hlýddu.  Bosníumaðurinn Safet Huseinovic gekk frá  blaðamanninum Pontíusi Pílatusi til sjónvarpsmannsins Heródesar með upplýsingar um málið. Þeir hunsuðu þær. Huseinovic sagði rétttilega að það ríkti hættuleg sáttamenning í Noregi.                               

Þegar sonur Torvalds, Jens forsætisráðherra (ekkert höfðingjaveldi í Noregi?),  blés til orrustu í Líbíu lögðust fjölmiðlar og þingmenn hundflatir fyrir hann.  Sama sem engin andstaða var í Stórþinginu gegn loftárásum Norðmanna á Líbíu, í Danmörku fékk tillaga um loftárásir stuðning 60 þingmanna, 51 voru á móti (samkvæmt grein Terje Tvedt í Aftenposten 23/9 2015).

Njóta Norðmenn í raun og veru olíunnar? Ríkið liggur eins og ormur á olíusjóðsgullinu og tímir ekki að endurbæta hið skelfilega járnbrautarkerfi landsins. Nota mætti féð til að gera  Noreg að forystulandi í rannsóknum en ríkið  tímir því ekki. En Norðmenn kokgleypa áróðrinum um að olíuféð beri að spara. Þeir trúa því sem yfirvöld segja þeim, þessi trúgirni er fylgifiskur sáttahyggjunnar.  

Enginn ræðir þann möguleika að gefa sérhverjum Norðmanni hlutabréf í sjóðnum, eyrnamerkja 50% fyrir komandi kynslóðir en einstaklingar geti ráðstafað sínum hluta eins og þeim sýnist. Sjóðinum mætti stjórna með rafrænum hluthafafundum þar sem bókstaflega öll þjóðin tæki þátt.

En þetta er bara hugdetta mín, kannski er hugmyndin arfavitlaus. Og kannski er rétt að spara olíuauðinn eins og gert er en það mætti ræða meir um málið, ekki bara kokgleypa opinberum áróðri.  

Lokaorð

Norsk sáttamenning,   agi, nægjusemi  og sam-framtakssemi hafa ýmsa kosti, án þeirra væri enginn olíusjóður til. Traust er efnahagslega hagkvæmt.

En Job segir í Jobsbók „Drottinn gaf og Drottinn tók“. Sáttamenningin dregur úr framtaki einstaklingsins,  finna ber kjörvægi milli sam-framtakssemi og einkaframtaksins.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu