Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tæknilegi terroristinn og Thomas Kuhn

 Najim Laacharoui var belgískur múslimi sem sprengdi sig í loft upp á

 flugvellinum í Brussel. Hann er sagður  maðurinn sem gerði sprengjubeltin sem notuð voru í Parísarárásunum og vera menntaður tæknifræðingur.Ekki eini  íslamski terroristinn sem hefur slíka menntun, öðru nær.

Rannsókn Gambetta og Hertogs

Alla vega ef marka má rannsóknir ítalska félagsfræðingsins Diego Gambetta. Hann og samstarfsmaður hans Steffen Herton segja að þeim til mikillar furðu hafi þeir uppgötvað að hlutfallslega mjög margir öfgaislamistar og hryðjuverkamenn væru tækni- og verkfræðimenntaðir. Nægir að nefna verkfræðinemann Mohammed Atta, höfuðpaurinn í flugvélaárásinni þann 11/9 2001. Og núverandi leiðtogi Al-Kaída, Ayman al-Zawahari, er læknir að mennt.

Gambetta og Hertog velta fyrir sér ástæðum þessa, hvort orskanna sé að leita í hugsunarhætti tæknimenntaðs fólks eða í stöðu þeirra í múslimskum löndum. Niðurstaða þeirra er sú að um samleik þessara þátta sé að ræða. Annars vegar eigi tæknimenntað fólk oft erfitt uppdráttar í múslimskum löndum vegna landlægrar spillingar. Menn fá ekki stöður vegna verðleika heldur sambanda. Þetta geri marga tæknimenntaða múslima bitra og þeir séu því veikir fyrir uppreisnarmönnum eins og öfgaíslamistum.

Hins vegar séu tæknimenntaðir menn oft  formúluþenkjandi og vanir að gefa sér forsendur sem ekki eru rökræddar. Þetta gerir þá veika fyrir trúarlegum forsendum sem ekki eru rökstuddar. Sumir ganga lengra en Gambetta og Hertog og segja að þetta gildi ekki bara um tæknimenntað fólk, heldur náttúruvísindamenn almennt. Enda sé ekki einleikið hve margir hryðjuverkamenn séu með menntun í náttúruvísndum.

Aðrir fussa og sveia og segja að þótt tæknifræðingar og læknar kunni að vera ógagnrýnir og stjórnlyndir þá gildi það ekki um náttúruvísindamenn. Burðarás náttúruvísindanna sé gagnrýnin hugsun og vantrú á valdboði. Ekki séu hug- og samfélagsvísindamenn lausir við kreddutrú, jafnvel terroristatrú.

Thomas Kuhn og venjuvísindin

Nýlega kom rit Thomasar Kuhns, The Structure of Scientific Revolutions út í íslenskri þýðingu og nefn Vísindabyltingar. Meginkenning Kuhns er sú að undirstaða náttúruvísindanna sé Það sem hann kallar „venjubundin vísindi“ (e. normal science). Þeir sem þau stundi séu almennt sammála um grundvallaratriði. Leiði tilraunir eða athuganir í ljós eitthvað sem virðist stríða gegn viðteknum skoðunum er það einatt afgreitt með því að villa hafi verið í athugun/tilraun og/eða að vísindamaðurinn sem þær gerði standi ekki undir nafni. Venjuvísindamenn séu almennt þröngsýnir og minni samfélag þeirra á trúfélög.

En þröngsýnin og ofstækið borgi sig. Í fyrsta lagi eru nýjar hugmyndir yfirleitt slæmar, í öðru lagi spara þeir tíma og orku sem myndi ella fara í endalausar rökræður um meginforsendur. Sparnaðurinn leiði til þess að þeir geti einbeitt sér að vinna úr viðtaki (e. paradigm) sínu með sem nákvæmustum hætti. Slík nákvæmnisvinna leiðir oft til þess að veilur viðtaksins sjáist þess betur.

Yfirleitt líði viðtak undir lok ef frávik frá því hrannast hraðar upp en vísindamennirnir geti skýrt með þekktum aðferðum. En ekki sé hægt að afsanna viðtök enda hafi sérhvert viðtak sinn mælikvarða á sannleika. Stundum hreinlega fari þau úr tísku. Ungu vísindamennirnir séu nýjungagjarnir og meðtaki því ný viðtök. Þegar viðtak hrynur tekur við byltingarskeið, á því skeiði er umræða vísndamannanna opin og frjálslynd.

En byltingarvísindi væru ekki möguleg án hjakksins og smáatriðanostursins sem venjuvísindamenn fremja. Venjuvísindi eru eins og lággróðurinn sem gerir háu trén (byltingarvísindamenn) mögulega.

Ekki sé hægt að tala beint og milliliðalausar framfarir í vísindum í þeim skilningi að  þau nálgist sannleikann. Eins og áður segir telur Kuhn að vísindalegur sannleikur sé að nokkru leyti afstæður við viðtök.

Lokaorð

Um þessar kenningar Kuhns hefur verið ákaft deilt. En hafi hann á réttu að standa þá eru vísindamenn ekki endilega víðsýnir og frjálslyndir, fremur hið gagnstæða. Séu venjuvísindamenn á annað borð til þá má ætla að sumir séu veikir fyrir pólitískum trúarbrögðum. Alltént kæmi mér ekkert á óvart þótt tæknimenn og læknar séu það (en kunna að vera allt önnur ella en vísindamenn).

Læknanám felst ekki síst í utanbókarlærdómur. Zahawari kann örugglega ýmislegt utan að, sumt af læknatoga, annað af trúartoga.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu