Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tilvist og markaður

William Irwin (f. 1970) er bandarískur heimspekingur sem er helst frægur fyrir að hafa komið af stað bókaflokknum „Philosophy and  Popular Culture“. Hann hefur ritstýrt fjölda bóka af þessu tagi, þ.á.m. fyrstu bókinni Seinfeld and Philosophy.

Irwin hefur einnig gert sér gott orð sem listspekingur, m.a. skrifað um eðli þeirra ætlana sem listamaðurinn hefur við gerð verka sinna. Irwin reyndi að svara spurningunni „verðum við að þekkja ætlanir listamannsins til að skilja verk hans?“

En hann hefur líka stundað stjórnspeki, nýlega kom út bók eftir hann um þau efni og ber hún heitið   The Free Market Existentialist. Capitalism without Consumerism. Wiley/Blackwell gefur bókina út.

Eins og bókarheitið gefur til kynna reynir Irwin að samtvinna frjálshyggju og tilvistarspeki. Einnig að kynna hugmyndir um kapítalisma sem er laus við neyslumennsku og rökstyðja þá kenningu að siðferði sé eingöngu huglægt.

Tilvist og speki

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ yrkir Tómas Guðmundsson. Tilvistarspekingar  gera þetta ferðalag að umfjöllunarefni. Frumherji þeirra, Daninn Søren Kierkegaard (1813-1855), beindi sjónum sínum að hinum einstaka, lifandi sérstaka, konkreta  einstakling og varaði við trú á sértekningar.  Það er ekki hugsuðurinn sem er í fyrirrúmi heldur hinn tilfinningaríki einstaklingur  sem óttast dauðann og leitar að tilgangi í lífinu og veltir því fyrir sér hvort Guð sé til. Einstaklingurinn sem kýs sér lífshætti og tekur ábyrgð á vali sínu.

     Hljómsveitin The Doors náði kjarna tilvistarspekinnar vel í laginu  Riders of the Storm:

                            „In to this world we‘re born

                              In to this world we‘re thrown“.

Franski heimspekinginn Jean-Paul Sartre (1905-1980) var í ýmsum efnum sporgöngumaður Kierkegaards. „Maðurinn er það sem hann gerir“ sagði Sartre í bók sinni Tilvistarspeki er mannstefna.  Maðurinn hafi  ekkert gefið eðli, hann sé  bara summan af athöfnum sínum. Hann er á vissan hátt frjáls, jafnvel þótt hann sitji í fangelsi  getur hann kosið að sætta sig við fangavistina, þá hætta rimlarnir að vera takmörkun á frelsi hans. Siðferðileg   verðmæti eru algerlega huglæg, sérhver maður verður að kjósa sér verðmæti og taka ábyrgð á eigin vali.

Irwin er sammála og  reynir  á að sýna fram að frelsisspeki Sartres sé í samræmi við frjálshyggjuna. Vissulega hafi Sartre á tímabili aðhyllst kommúnisma en það hafi verið vegna áhrifa frá hinu vinstrisinnaða franska menningarlífi. Og hann hafi hreint ekki verið kommi á þeim árum sem hann skrifaði  bækur á borð Tilvistarspeki er mannstefna. Irwin segir að vissulega geti menn ekki flogið en þeir séu í þeim skilningi frjálsir að engin geti bannað þeim að reyna það. Hann viðurkennir að ekki sé hægt að sanna að viljinn sé frjáls en segist veðja á að svo sé.

 Frjálshyggjan eigi líka það sameiginlegt með tilvistarspekinni  að leggja áherslu á einstaklinginn og ábyrgð hans á eigin lífi.

Þetta er vel athugað hjá Irwin. En eins og síðar mun koma fram í þessum pistli er ég hvorki frjálshyggjumaður né tilvistarspekingur.

Er einstaklingurinn til?

Irwin gefur sér án raka að einstaklingurinn sé til og talar eins og   samfélagið sé ekkert annað en summa fjölda einstaklinga. Eins og skoðanasystir hans Magga Thatcher sagði „það er ekki til neitt samfélag“.

En það er ekki einu sinni víst að einstaklingurinn sé til. Skoski heimspekingurinn David Hume. Hann segir eitthvað á þá leið að horfi hann inn í huga sinn sjái hann bara einstaka hugsanir, tilfiningar o.sfrv, en ekkert sjálf. Sartre er reyndar á svipuðum nótum, hann segir að menn ímyndi sér að þeir hafi samstæð sjálf en í reynd séu bara til í þeim vitundarferli sem komi og fari. Eitt augnablik upplifi menn bláan lit, næsta augnablik upplifi þeir hugsun um stærðfræði, ekki séu nein tengsl á milli þessara upplifana. Þær skilyrða ekki hver aðra, meðal annars þess vegna sé  maðurinn frjáls. Bandaríski heimspekingurinn Daniel Dennett segir að sjálfið (og þar með einstaklingurinn) sé ekkert annað en laustengt bandalag heilastöðva.

Þess utan hafði bandaríski hugsuðurinn George Herbert Mead  (1863-1931) lög að mæla er hann sagði  að einstaklingsmótun væri  félagsmótun, án samfélags enginn einstaklingurinn. Úlfabörn sem alist hafa upp á víðavangi geta ekki talað og  tæpast hugsað og því ekki  vitað af sér sjálfum. Vart  er hægt að tala einstaklingseðli hjá veru sem ekki virðist vita af eigin tilvist eins og úlfabörnin.  Þau hafa enda ekki verið félagsmótuð.

       Mead  hélt því fram að tungumálið geri okkur kleift að sjá okkur sjálf með augum annarra. Þessi hæfni sé forsenda þess að við öðlumst sjálf, ungabörn sem ekki geta séð sjálf sig með annarra augum hafa heldur enga eiginlega sjálfsvitund. Sjálfsvitund verður til með þeim hætti að við innhverfum mynd annarra af okkur sjálfum, “ég-ið” (e. the I) veit af “mér-inu” (e. the me). Án sjálfsvitundar ekkert samfélag, án samfélags engin sjálfsvitund!  

    Þýski heimspekingurinn Jürgen Habermas (f. 1929) samsinnir þessu og vill tengja við greiningar Ludwig Wittgensteins: Mál og sál séu samofinn. Málið er félagslegt í eðli sínu og sálin því sum part félagslega og einstaklingur þar með líka (hin svokölluðu einkamálsrök Wittgensteins eru svo flókin að ekki er ráð að rekja þau hér).

   Allt ber að sama brunni,  einstaklingurinn  og samfélagið eru samtvinnuð. Séu einstaklingar á annað borð til þá er samfélagið það líka. En bæði gætu verið blekkingar, kannski er ekkert eiginlega til nema öreindirnar og tengsl þeirra.

   Í einni af sínum mörgu lofgerðarrullum um útrásina  skrifaði Gunnar Smári Egilsson: „Þjóð er aðeins heiti sem við gefum hópum einstaklinga og þjóðir eiga sér hvorki drauma né þrár og búa ekki yfir vilja né framsýni“  („Atorka einstaklinganna brýst fram á óvæntum sviðum“, Fréttablaðið, 1. Júlí 2004).

Gunnar Smári þekkir greinilega ekki þá gagnrýni á borgaralega einstaklingshyggju sem hér er reifuð. Fullt eins mætti segja að „einstaklingur er  aðeins nafn sem við gefum  hópi heilastöðva.“ Eða „einstaklingur er bara nafn sem við gefum ákveðinni frumeindaþyrpingu“.  Þess utan eru þjóðir raunverulegar ef samfélagið er raunverulegt. Þjóð er samfélag af ákveðinni gerð og hvorki raunverulegri né óraunverulegri en einstaklingar.

Grunneiningar  mannheima eru  hvorki samfélag né einstaklingur heldur mannverur-í-samfélagi. Þetta skilja hvorki tilvistarspekingar né frjálshyggjumenn.

Sjálfseign og sameign

Víkjum aftur að Irwin. Mikið af því sem hann segir um ágæti lágmarksríkisins byggir á hinni órökstuddu forsendu að einstaklingurinn sé til og sé grunneining mannlífsins. Irwin er sammála Robert Nozick um að rétt sé að líta svo á að menn eigi sig sjálfa og það sem þeir framleiða eða eignast án ofbeldis. En af hverju ekki líta svo á að menn eigi hvern annan í félagi? Eða alla vega að þeir eigi gæði jarðar í sameiningu. Eru til afgerandi rök gegn slíkum kenningum?

Hugmyndin um sjálfseign er bundinn nútíma borgaralegri samfélagsskipan sem er alls ekki sjálfssögð eða örugglega réttmæt. Ekki þarf að fara lengra en til múslimabyggða í evrópskum stórborgum til að hitta fólk sem lítur aðallega á sig sem hluta ættbálks eða trúfélags. Súmerar hinir fornu töldu sig eign guða sinna. Látum visku Súmeranna eiga sig en spyrjum heldur: Eru til afgerandi rök gegn þeirri kenningu að menn séu fremur hlutar af samfélagi en sjálfsstæðir einstaklingar?

Best er að tala sem minnst um það hvort vit sé í að tala sjálfs- eða sameign manna, slíkt tal svífur í lausu lofti. Það er ekki hægt að marka skynsamlega pólitíska stefnu með fulltingi hugaróra um sjálfs- eða sameign.

Er frjáls markaður mögulegur?

Irwin talar fjálglega um ágæti hins frjálsa markaðar en láist að  rökstyðja að hægt sé að koma honum á koppinn.

Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz (f. 1942) segir það  enga  tilviljun að hönd markaðarins sé ósýnileg, hún sé nefnilega ekki til! Frjáls markaður hafi að forsendu að allir markaðsgerendur þekki alla mögulega kosti sem markaðurinn bjóði upp á, hafi fullkomna yfirsýn yfir hann. En slíkt sé ekki mögulegt í  , enginn er alvitur.   Auk þess hafi frjáls markaður að forsendu að allir markaðsgerendur hafi  jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir kosti. En svo sé ekki í hinum napra veruleika handan líkananna velhönnuðu. Þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (e. asymmetric), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar. Hinir ríku og voldugu hafi meiri aðgang að markaðsþekkingu og eigi betri færi en almúginn.  Þess vegna geti frjáls markaður ekki verið til.  

   Breski heimspekingurinn John Gray (f. 1948) segir að allar tilraunir til að raungera alfrjálsan markað séu dæmdar til að misheppnast enda verði þær einungis  framkvæmdar með því að efla ríkisvaldið allmikið. Það hafi Thatcher orðið að gera til þess að geta markaðsvætt að viti, t.d. varð hún að siga ríkinu á verkalýðsfélögin.  Auk þess hafi orðið að beita ríkisvaldinu fyrr á öldum til að skapa einkaeign á bresku beitarlandi sem áður var almenningur. Almenningur hafi einfaldlega verið rekinn af almenningnum svo hægt yrði að skapa “frjálst” markaðskerfi (gerðist ekki slíkt hið sama á Íslandi þegar kvótakerfið var innleitt?). Í ofan á lag þurfi ríkið oft að hreinsa til eftir einkavæðingarpartíin, ekki auki það markaðsfrelsið. Það hafi gerst á dögum Thatchers í Bretlandi, t.d. þegar félagslegar íbúðir voru einkavæddar. Meinið er, segir Gray,  að efling ríkisvaldsins dregur  úr markaðsfrelsi um leið og þessi efling  er forsenda aukins markaðsfrelsis.

  Ég held að þeir Stiglitz og Gray hafi að miklu leyti á réttu að standa, það er ólíklegt að hægt sé að raungera frjálsan markað. En Irwin þekkir augljóslega ekki rökfærslur þeirra.

Leiðir frjáls markaður til hagsældar?

Irwin dásamar hæfni hins frjálsa markaðar til að bæta kjör manna. Núlifandi Bandsríkjamenn hafi að jafnaði átta sinnum meiri tekjur en þeir höfðu fyrir hundrað árum. En hvernig veit hann að þessi tekjuaukning sé markaðnum að þakka? Á stríðsárunum tók ríkið bandaríska efnahagslífið  að miklu leyti yfir, atvinnuleysið hvarf og þjóðarframleiðslan jókst um 50%. Á árunum eftri stríð fengu þeir sem barist höfðu í stríðinu ókeypis háskólamenntun, ríkið borgaði brúsann. Þessi ráðstöfun leiddi til stórbættra kjara æði magra Bandaríkjamanna.

Irwin segir að frjáls markaður leiði til vísindalegra og tæknilegra framfara sem aftur leiði til bættra kjara. Netið hafi bætt kjör manna, áður þurftu menn að spara til að eignast alfræðiorðabækur, nú fáist fróðleikur þeirra ókeypis á netinu. En ef trúa má Joseph Stiglitz þá var það ameríski herinn sem fann netið upp. Og hvernig hyggst Irwin skýra þá staðreynd að þýskir vísindamenn sem flestir unnu hjá ríkisháskólum, fengu miklu fleiri nóbelsverðlaun en bandarísk starfssystkini þeirra á fyrsta þriðjung aldarinnar? Þeir amerísku unnu yfirleitt hjá einkaháskólum. Það er ekki fyrr en bandaríska ríkið tekur að dæla fé í vísindarannsóknir eftir stríð að Bandaríkin taka afgerandi  forystu í vísindaheiminum.

 Í dag eru grunnvísindi forsenda tæknilegra framfara en það borgar ekki fyrir einkafyrirtæki að fjárfesta mikið í slíkum rannsóknum. Það er ekki hægt að vita fyrirfram hvaða vísindalegar niðurstöður geti nýst tæknilega. Auk þess er ekki hægt að dylja niðurstöður rannsókna, fyrirtæki sem ekki hafa borgað fimmeyring í grunnrannsóknir geta gerst laumufarþegar (e. free riders) og hagnýtt sér vísindarannsóknir tæknilega og þar með efnahagslega. Vegna hins mikla vægis tækninnar í nútíma efnahagslífi er blandað vísindahagkerfi „the only game in town“.

Ekki má skilja orð mín svo að ég telji markaðinn ekki mikilvægan efnahagslífinu, það er hann vissulega en yfirleitt ekki einn og óstuddur.

Að halda með   ríkisbubbum

Irwin segir með vissum rétti að vinstrisósíalistar dragi í reynd taum menningarvita, ekki alþýðu, þótt þeir telji sig hennar megin. Meinið er að frjálshyggjumenn hafa hneigð til að draga taum auðmanna þótt þeir haldi að þeir séu hliðhollir venjulegu fólki.

Irwin er engin undantekning, hann segir berum orðum: „The bottom earners owe a debt of gratitude to the top for the spillover, which they did not earn and without which they would worse of“ (bls.  156). Spurt er: Þurfa hinir ríku ekki svo sem einn kokk, bílstjóra og   einhverja til að vinna í verksmiðjunum sínum?

Lokaorð

Irwin fer yfir víðan völl á aðeins 180 síðum, hefði þurft a.m.k. 300 síður. Pælingarnar um tengsl tilvistarspeki og frjálshyggju eru vissulega athyglisverðar en vörnin fyrir frjálshyggju er ekki ýkja góð. William Irwin á að geta betur.

Um heimildir:

Mikið af því sem hér stendur er endursögn á köflum í bók minni Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið gegn henni. Reykjavík: Heimskringla.

Þar má finna ítarlega heimildaskrá. En ekki er stafkrókur um tilvistarspeki í þeirri  bók. Ég styð mig aðallega við eftirfarandi rit Sartres

Jean-Paul Sartre (1996) : L’existentialisme est un humanisme. Paris: Editions Gallimard.

Jean-Paul Sartre (1956):  Being and Nothingness. A Phenomenological Essay on Ontology (þýðandi  Hazel E. Barnes) . New York et al: Washington Square Press.

 

Hvað Kierkegaard varðar styð ég mig helst við

Meistaraverkið Enten-eller (Annað hvort eða).

 

Víða má finna góðan  inngang að tilvistarspeki, t.d. í bók Irwins.

 

Tilvitnunin í Tómas er ættuð úr ljóði hans Hótel jörð sem birtist í ljóðabókinni Fagra veröld.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni