Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Þórarinn Hjartarson, marxisminn og Úkraínustríðið

Þórarinn Hjartarson svarar Jóni Trausta í málefnalegum en meingölluðum pistli.

Vandinn er sá að Þórarinn setur fram æði margar glannalegar staðhæfingar án þess að geta heimilda eða leggja fram aðrar sannanir fyrir máli sínu.

Ég mun fyrst ræða kenningar hans um geópólitík og Úkraínustríðið, þá um marxisma en boðskapur Þórarins er marxískrar ættar.

Einnig ræði ég staðhæfingar um olíu og Íraksstríð og meinta heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.  

Lesendur skuli varaðir við að alldrjúgur hluti pistilsins er fremur fræðilegur. Ég gagnrýni hinar marxísku forsendur Þórarins þótt einungis hluti þeirra birtist í pistli hans.

Geópólitík.  

Hann viðurkennir að innrás Rússa sé af hinu illa en flýtir sér svo að segja að stríðið hafi aðra vídd.

Sú sé meginvídd þess og það sé geópólitiskt brölt Bandaríkjamanna sem ógni heimsfriðnum mun meir en rússneskt ofbeldi. Þar hafi stríðsflokkur völdin og geri hvað eina til að koma í veg fyrir friðarsamninga í stríðinu.

Hvernig veit Þórarinn þetta, hvar eru heimildirnar fyrir því Bandaríkjastjórn reyni að koma veg fyrir frið?

Hvaða heimildir hefur hann fyrir því að Úkraína sé staðgengill Bandaríkjanna í stríðinu og þeim síðastnefndu sé slétt sama um sjálfsstæði þeirra?

Hann segir að hið geópólitíska brölt birtist í þeirri stefnu Bandaríkjamanna að ná tangarhaldi á Evrasíu og þar með Rússlandi.

Ef svo er, hvers vegna lagðist Trump flatur fyrir Pútín? Hvers vegna neitaði Obama að senda Úkraínumönnum vopn eftir að Rússar hertóku Krímskagann? Var geópólitíkin í orlofi þá?

Í Neistagrein nefnir Þórarinn nokkuð sem virðist eiga að vera heimild um geópólitík Kana, tilvitnun í Pentagonskjöl og skýrslu þankaveitunnar Rand Corporation.

En hann athugar ekki  að þótt þessar tilvitnanir  kunni að vera raunsannar  þá er ekki gefið að Pentagonverjar, hvað þá Randverjar,  séu í öllum tilvikum fulltrúar ráðandi afla í landinu.

Í löndum eins og Bandaríkjunum takast á ýmsir hópar, ýmsar elítur. Herinn hefur hag af nokkuð herskárri pólitík en það er ekki þar með sagt að allir  stjórnmálamenn eða sérhver auðkýfingur  hafi hag af því.

Í Stundargrein vitnar hann í hugmyndir Wolfowitz og fleiri nýíhaldsmanna um hvernig tryggja beri yfirburðarstöðu BNA á þessari öld.

En hann athugar ekki að Trump var algerlega á móti nýíhaldinu og hinum endalausu styrjöldum þess. Hann var á margan hátt einangrunarsinni og því lítt uppveðraður fyrir geópólitík.

Fyrrum utanríkismála ráðgjafi hans, John Bolton, segir í nýlegu viðtali að sennilega hafi Trump ætlað að segja BNA úr NATÓ á síðari kjörtímabili.

Pútín hafi vitað þetta og ætlað að bíða með að ráðast inn í Úkraínu þangað til Trump hefði eyðilagt NATÓ. En honum varð ekki kápan úr klæðinu.

Sé þetta rétt þá stenst ekki staðhæfing Þórarins  um geópólitískt brölt BNA í Evrasíu. 

Þess utan er ólíklegt að forsetar Demókrata séu fylgjandi Repúblikananum Wolfowitz og hans nótum, djúp er nú staðfesti milli flokkanna.

Þórarinn staðhæfir án raka að Rand Corporation og Pentagon marki utanríkisstefnu Bandaríkjanna ásamt hernaðarauðvaldinu. Hvernig veit hann það?  

Sá munur sem hefur verið á utanríkisstefnu síðustu forseta bendir gegn því. Þórarni tekst ekki að sanna að í gangi sé geópólitískt brölt Kana sem ógni heimsfriðnum meira en hið árásargjarna Rússland.

Sé Bolton á réttu róli þá staðfesta staðhæfingar hans óbeint þá kenningu mína að utanríkispólitík Bandaríkjanna ráðist að miklu leyti af forsetunum, án aðkomu sneddí hugmynda um geópólitík.

Sitthvað um stéttir og marxisma.

Tekið skal fram að ég hef fremur  litla trú á stéttarhyggju marxismans en henni fylgir Þórarinn og er hún líklega ástæða þess að hann heldur að einhvers konar vald allsherjar stjórni Bandaríkjunum.

Ég tel miklu frjórra að ganga út frá fjölelítu líkaninu (e. the multi-elite model). Samkvæmt því eru allir jafnir en sumar elítur jafnari en aðrar.

Í flestum ríkjum kljást mismunandi áhrifa og valdahópar um gæðin, þess utan hefur almenningur umtalsverð völd í lýðræðisríkjum og markaðssamfélögum,  bæði sem kjósendur og neytendur.

Vissulega hafa sægreifarnir alltof mikil völd á Íslandi en ekki eru þeir alráðir. Hefðu kjósendur manndóm í sér til að veita andstæðingum þeirra brautargengi kosningum mætti vængstýfa þá.

Rétt eins og hinn lýðræðislega kjörni Theodore Roosevelt gat að nokkru vængstýft ameríska auðhringa.

Frændi hans Franklin Roosevelt var kjörinn forseta hvað eftir annað, það þótt flest bendi til þess að auðkýfingar hafi greitt  atkvæði gegn honum.

Eða hvers vegna stjórnuðu jafnaðarmannaflokkar Norðurlöndunum áratugum saman þótt auðvaldið væri þeim andsnúið?

Krataelítan stóð þar gegn auðelítunni.

Þessar staðreyndir benda gegn því að vestrænum ríkjum sé stjórnað af einni eða fleiri auðvaldselítum.

Þýðir það að auðvald sé ekki hætta?  Veldi ólígarka í Rússlandi og Úkraínu er gott dæmi um hættur af auðvaldi. Vestan hafs  og víðar hefur vald auðkýfinga og auðfyrirtækja aukist á síðustu áratugum og er það mjög af hinu illa (sjá t.d. Piketty 2014).

En athuga ber að þeir keppa hver við aðra og því litlar líkur á því þeir séu samstæðir í valdabrölti. Vissulega er net- og tölvuheimurinn orðinn  að sviði fákeppni, jafnvel einokunar, stórhættulegt ástand.

En eftir stendur að fyrirtæki utan tölvuheimsins keppa við tölvurisanna í Kísildal um peninga neytenda.

Eigendur Walmarts hafa ekki hag að neytendur noti allt sitt fé í tölvu- og netkaup heldur að þeir kaupi líka annars konar varning.

Bæði Walmart og tölvurisarnir hafa ekki hag af því að skattfé sé varið til kaupa á skriðdrekum og flugskeytum.

Því er ekki gefið að  allir bandarískir auðhringir  hafi hag af hervæðingu, þótt sumir hafi það.

Væri tiltekin auðstétt alvöld í Bandaríkjunum þá hefðu Microsoft, Facebook. Amazon og Google verið kæfð í fæðingu en þau voru stofnuð af einstaklingum með lítið fé milli handanna.

Auðstéttin hefði væntanlega tryggt hinu gamla IBM einokun.

Sé litið á stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna árið 1960 og borið saman við þau stærstu  2022 sést að ekki eitt einasta af þeim fyrirtækjum sem voru meðal hinna tíu stærstu 1960 er að finna á sama lista nú.

Gott og vel, hver segir að þetta ástand vari, það getur hugsast að stóraukinn  auður stórfyrirtækja og auðkýfinga verði notaður til að tryggja fákeppni eða einokun.

Hvað um það, Marx sýnir stundum skilning á því að ekki sé alltaf ein stétt við völd. Þetta kemur m.a. fram í greininni 18da Brumaire Loðvíks Bonaparte þar sem hann talar um bandalög ýmissa stétta í Frakklandi um 1850 (Marx 1968a: 115-203).

En kannski varð hann að viðurkenna að stéttarvaldskenningin væri gölluð þegar hann beindi sjónum sínum að konkret viðburðum eins og þeim í Frakklandi.

En athuga ber að kannski trúði hann því að á löngu tímaskeiði í sögu kapítalismans bitust fleiri elítur um völd en smám saman ykist misdreifing auðs og samþjöppun auðmagns með þeim afleiðingum auðstéttin yrði alvöld.

Réttara sagt yrði  auðmagnið sjálft alvalda, ekki bara verkalýðurinn heldur líka ríkisbubbar væru þrælar þess (þetta segir Marx í Auðmagninu) (Marx 1968b: 210-223, hér ræðir hann reyndar aðra hlið á meintu veldi auðmagnsins).

En af hverju trúa því að til sé auðmagn alls herjar en ekki fjöldi auðmagna sem keppa oft (en ekki alltaf!) við hvert annað?

Gott og vel, marxisti gæti svarað þessu með því að segja að samkvæmt marxískum kokkabókum þá væru að jafnaði í gangi átök milli geira auðstéttarinnar. 

Iðnrekendur og fjármálaauðvald hafi átt í átökum í Þýskalandi, sigur nasismans hafi verið sigur hins fyrrnefnda en fjármálamenn voru mjög oft Gyðingar. Enda hafi iðnjöfrar stutt nasista fjárhagslega. Nánar um þetta hér að neðan.

Ríkið og stéttin.

Það skín í gegn að Þórarinn trúir þeirri marxísku hugmynd að ríkið sé hluti af yfirbyggingu og atferli þess  ráðist að mestu leyti af hagkerfinu þótt það hafi visst afstætt sjálfsstæði.

Því sé jafnvel stjórnað af auðstétt og sé alla vega undir járnhæl hins andlitslausa auðmagns.

Þess vegna séu gjörðir Bandaríkjastjórnar að mestu skilyrtar af þörfum auðstéttarinnar sem líti Evrasíu hýru auga.

En hafa ekki ríkisstarfs- og stjórnmálamenn sinna hagsmuna að gæta? Af hverju skyldu þeir lúta auðstéttinni? Það er ríkið sem hefur byssurnar, ekki auðmennirnir.

Enda var það ríkisstarfsmaðurinn Hitler sem stakk auðhringja-eigandanum  Fritz von Thyssen í fangelsi, ekki öfugt. Sami ríkistarfsmaður lét ræna auði auðmanna af Gyðingakyni.

Þótt iðnjöfrar hafi stutt nasista fjárhagslega er ekki þar með sagt að þeir hafi náð tökum á þeim. Nasistarnir höfðu vopnin og gátu gert það sem þeim sýndist við auðmenn sem ekki hlýddu þeim, samanber það hvernig Pútín vegur að óligörkum sem ekki lúta honum.  

Útlægir þýskir marxistar áttu í miklum erfiðleikum með að skýra nasismann sem fall af auðvaldi og auðmagni. Enda endurskoðuðu þeir margir hina marxísku ríkiskenningu.

Friedrich Pollock  gekk svo langt að staðhæfa að kerfi nasista væri ein útgáfa  af  nýrri  tegund kapítalisma, ríkiskapítalismi. Efnahagskerfið þjóni hagsmunum  nýrrar yfirstéttar en til hennar teljist bæði stjórnendur fyrirtækja, skrifræði og flokksbroddar.  Í slíku ríkiskapítalísku  kerfi væri gróðavonin undirlögð valdagirninni (Pollock 1982: 71-94).

Marx segir í 18da brumaire að borgarastéttin hafi gefist upp á að stjórna og látið ríkinu eftir að stjórna.

Þegar hann leit á konkret viðburði varð hann að viðurkenna takmarkanir kenningar sinnar, viðurkenna að ríkið er sjálfstæð höfuðskepna sem vel getur mótað efnahagskerfið eftir sínu höfði. Það gerðu krataríkin  í Vestur-Evrópu.

Af hverju skyldi hið sama ekki gilda um bandaríska ríkið?

Olían og Írak.

Þórarinn staðhæfir án þess að geta heimilda að innrásin í Írak hafi leitt til þess að bandarískir auðhringar hafi tekið olíuna írösku yfir enda leikurinn til þess gerður.

En það er besta falli hálfur sannleikur. Hernámsstjórn Bandaríkjanna sagði árið 2003 að leyfa skyldi erlendar fjárfestingar í Írak að ólíugeiranum undanskildum (kannski laug hún!).

Tveimur árum síðar samþykkti Íraksþing stjórnarskrá þar sem kveðið er á um að olían tilheyrði allri þjóðinni.

Samt hafa einkafyrirtæki fengið leyfi til  olíuvinnslu , flest vestræn en einnig rússnesk og kínversk fyrirtæki.

En nú segir að vestræn fyrirtæki hafi dregið sig að nokkru leyti út úr landinu, bæði vegna endalausra átaka, eins vegna þess að íraskt skrifræði sé þeim fjötur um fót.

Tímaritið Foreign Policy segir að Rússar séu við það að taka olíuvinnsluna írösku yfir.

Hafi markmið Bandaríkjanna verið að krækja í olíuna þá misheppnaðist það, staðhæfing Þórarins um að bandarískir auðhringar hafi tekið hana yfir er ósönn.

Skylt er að geta þess að til eru sérfróðir einstaklingar að sókn í olíu hafi verið hvatinn að innrásinni, t.d. Antonia Juhasz.

Vandinn er sá að röklega séð eru til óendanlega margar mögulegar skýringar á sama viðburði eða ástandi.

Því er ekki gefið að Juhasz og Þórarinn lumi á bestu skýringunni, þess utan eru kenningar og þar með skýringar fallvaltar.

Því er ekki hægt sanna þær með öruggri vissu. Þess utan gæti kenningin um olíuna verið sönn en af öðrum ástæðum en Þorarinn heldur.

Ríkið bandaríska hlýtur að hafa hag af því að hafa aðgang að olíu í stórum stíl, án hennar er erfitt að beita herþotum og skriðdrekum. Kannski höfðu hagsmunir olíufyrirtækja ekkert að segja, olíuþorsti ríkisins þess meir.

Ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um.

Nefna má að Líbíumenn og Venesúelamenn þjóðnýttu olíufyrirtæki á áttunda áratug aldarinnar  án þess að Bandaríkjamenn lyftu litlafingri til að koma í veg fyrir það. 

Þetta eru aldeilis aumir heimsvaldasinnar sem ekki einu sinni geta komið í veg fyrir slíkt!!

Í fullri alvöru: Það sem hér segir um olíu bendir sterklega gegn því að bandarísk utanríkispólítík einkennist  af heimsvaldasinnaðri sókn í hráefni. 

Enn um auð og stjórnál

Ekki má skilja orð mín svo að ég neiti því að auðmenn og stórfyrirtæki geti haft óviðurkvæmileg áhrif á stjórnmál. Um áhrif sægreifa á íslensk stjórnmál þarf ekki að fjölyrða, vestanhafs aukast áhrif auðvaldsins á stjórnmál í hættulegum mæli.

Og olígarkarnir réðu miklu í Rússlandi á dögum Jeltsín en það varði ekki lengi (nú gín einn olígarkur yfir landinu, Pútín sem metinn er af sumum á 200  milljarða dollara).

Í kapítalísku samfélagi er auðvaldshætta en samt er auðvald víkjandi, ekki ríkjandi í slíku samfélagi, bæði vegna sjálfstæðis ríkisins og eins vegna þess að flest slík samfélög eru lýðræðisleg. Lýðræðið temprar auðvald að jafnaði.

Þess eru dæmi að auðurinn  hafi haft áhrif á bandaríska utanríkisstefnu t.d. bendir margt til þess að Dullesbræður hafi látið fella lýðræðislega kjörna stjórn í Guatemala vegna tengsla sinna við auðfyrirtækið United Fruit Company.

En það er ekki öruggt, þess utan er það fremur undantekning en reglan í bandarískri utanríkisstefnu, m.a. vegna lýðræðisins og vegna þess að ríkið er sjálfstæð höfuðskepna (en haldi auðvaldsþróunin áfram þar vestra er ekki að vita hvað gerist).

Bandaríkin heimsvaldasinnuð?

Þórarinn býsnast yfir því hve herskáir Kanar séu og telur 55 innrásir þeirra í önnur lönd dæmi um heimsvaldastefnu þeirra. En þessar innrásir og önnur inngrip voru af ýmsu tagi.

Til dæmis bjargaði Bandaríkjaher í Kóreustríðinu Suður-Kóreumönnum frá þeim meinlegu örlögum að verða þrælar Kimfjölskyldunnar.

Í dag er hið meinta leppríki Bandaríkjanna Suður-Kórea orðið eitt auðugasta og tæknivæddasta land heimsins, bandarísku heimsvaldasinnunum hefur láðst að arðræna landið.

Er ekki arðrán meginmarkmið heimsvaldastefnu að mati Þórarins og annarra marxista?

Og hvers vegna björguðu NATÓ þotur múslimum í Bosníu og Kósovó frá þjóðarbrotshreinsunum?

Bandaríkin höfðu ráð Bretlands og Frakklands í hendi sér eftir fyrri heimsstyrjöld, þessi lönd skulduðu þeim ógnarmikið fé. En Bandaríkjamenn drógu sig út úr Evrópu og hófu einangrunarstefnu.

Var heimsvaldastefnan í fríi?

Eftir síðari heimsstyrjöldina var þeim í lófa lagið að gera Vestur-Evrópu og Japan að þrælaríkjum sínum. Í stað þess stuðluðu þeir að uppbyggingu í þessum löndum sem héldu fullu sjálfsstæði.

Hvar var heimsvaldastefnan þá?

Gott og vel, þetta afsakar ekki innrásina í Írak, sprengjuregnið yfir Víetnam eða þátt Kana í valdaránum í Íran 1953 og Chile tuttugu árum síðar.

Eins og segir í fyrri pistlum eru Bandaríkin „undarlegt sambland af frosti og funa“, sum part varðstöðuland lýðræðis og frelsis, sum part yfirgangssamt stórveldi.

Gagnstætt Rússlandi sem aldrei hefur gert neitt annað en að vaða yfir nágrannaríki sín.

Það er því fyllsta ástæða til að kenna Rússland við heimsvaldastefnu, miklu fremur en Bandaríkin.

Nefna má að Þórarinn staðhæfir án þess að vitna í heimildir að Bandaríkin stefni að heimsyfirráðum. Hvernig veit hann það?

Rúsínan í pylsuendanum er staðhæfingin um að Maidanuppreisnin hafi verið valdarán að undirlagi Kana. En tugir þúsunda Úkraínumanna streymdu út á göturnar til að mótmæla yfirgangi Rússadindilsins gerspillta,  Janúkevitsj.

Þetta var sönn alþýðuuppreisn, ekki valdarán lítillar klíku ofstækismanna eins og rússneska „byltingin“ 1917.

Maidanbyltingin  leiddi til lýðræðisumbóta í landinu þótt lýðræðið þar eystra sé vissulega ófullkomið.

Þórarinn virðist halda að símtal Victoriu Nuland við sendiherra BNA í Kænugarði sanni að Bandaríkjamenn hafi staðið á bak við uppreisnina. En þau ræða bara hvaða stjórnmálamenn sem þau telji best hæf til að veita landinu forystu.

Ekki er öruggt að Nuland hafi talað í nafni Bandaríkjastjórnar, kannski var þetta hennar eigin skoðun.

Sá sem þau mæltu með varð reyndar forsætisráðherra en sannar það að hann verið leppur BNA? I ofan á lag hefur forsetinn mun meiri völd í Úkraínu.

Sjálfsagt hafa Bandaríkjamenn viljað aukin áhrif í Kænugarði, örugglega  á kostnað Rússa og jafnvel ESB (Nuland segir "fck EU"!). 

En aukin áhrif eru ekki það sama og yfirráð. 

Þórarinn býsnast yfir hernaðarútgjöldum Bandaríkjamanna og þeirra öfluga her. En styrkur hans er kannski nauðsyn til að halda aftur af Rússum, Kínverjum,  Írönum og ÍSIS-liðum.

Bandaríkjamenn eru skömminni skárri en þessir aðilar. 

Lokaorð.

Þórarinn fer mikinn og er æði staðhæfingasamur en axlar sjaldan sönnunarbyrði sína.

Kenningar hans um bandaríska heimsvaldastefnu standast ekki skoðun, sumar eru rangar, aðrar svífa í laus lofti þar eð hann leggur ekki fram sannanir fyrir þeim.

Kenningar hans geta ekki skýrt ýmsar staðreyndir  sem ég bendi á þessum pistli. 

Kenningar þessar eru  marxískrar ættar og byggja  m.a. á stétta- og ríkiskenningum  marxismans  en þær eru  meingallaðar.

Heimildir

Marx, Karl  1968a: „Átjándi Brumaire Lúðvíks Bonaparte“, (þýðandi Sigfús Daðason), Úrvalsrit. 2 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 115-203.

Karl  Marx 1968b: „Blætiseðli vörunnar og leyndardómar þess“ (þýðendur Guðmundur Ágústsson og Eyjólfur R. Árnason), Úrvalsrit. 1 bindi. Reykjavík: Heimskringla,  bls 210-223.

(þetta er kafli úr fyrsta bindi Auðmagnsins).

Piketty, Thomas  2014: Capital in the Twenty-First Century (þýðandi Arthur Goldhammer). Cambridge, Mass og London: Belknap.

Pollock, Friedrich  1982: „State Capitalism: Its Possibilities and Limitations“, Andrew Arato og Eike Gebhard (ritstj.): The Essential Frankfurt School Reader. New York: Continuum, bls. 71-94 (upprunalega birt 1941).

Auk þess urmull af netgreinum.

Athugasemdir (7)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásgeir Överby skrifaði
    "Pútín sem metinn er af sumum á 200 milljarða dollara)."
    Auðæfi Pútíns eru sýnd en ekki gefin. Að honum gengnum verður hafin dauðaleit að þeim sem ekki eru sýnileg.
    0
  • Jóhannes Ragnarsson skrifaði
    Það lætur ekki að sér hæða hið ,,menntaða" krataeðli í undirlægjuhætti sínum við þá ríku og valdamiklu í vestrinu. Svo eru þessir spjátrungar hissa á því að til sé fólk sem hefir skömm á þeim og þúfnakargafræðunum þeirra.
    1
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu við: Fyrrum utanríkismála ráðgjafi hans, John Bolton, segir í nýlegu viðtali að sennilega hafi Trump ætlað að segja BNA úr NATÓ á síðari kjörtímabili.

    Pútín hafi vitað þetta og ætlað að bíða með að ráðast inn í Úkraínu þangað til Trump hefði eyðilagt NATÓ. En honum varð ekki kápan úr klæðinu.

    Sé þetta rétt þá stenst ekki staðhæfing Þórarins um geópólitískt brölt BNA í Evrasíu.


    Sé Bolton á réttu róli þá staðfesta staðhæfingar hans óbeint þá kenningu mína að utanríkispólitík Bandaríkjanna ráðist að miklu leyti af forsetunum, án aðkomu sneddí hugmynda um geópólitík.
    0
  • Bjorn Hilmarsson skrifaði
    Þessi skrif Stefáns Snævarr eru dáldið skondin. Hann kvartar yfir heimildarleysi hjá ÞH en þegar ÞH lætur "Fck EU" upptöku Victory Nuland og sendiherra Bandarikjanna í Úkraínu fylgja með sem sönnun á máli sínu þá skrifar Stefán ekkert um það. Minnist ekkert á upptökuna eða hvað kemur fram á henni.

    Annað grín hjá Stefáni er að hann virðist ekki fatta eða skilja að hlutir breytist með tímanum. Bandaríkin 1944 eru ekki sömu Bandaríkin 2022. Ég nenni ekki að geta heimilda með þessa fullyrðingu hjá mér en höfundi er velkomið að senda mér línu og ég mun senda til baka fullkominn heimildarlista sem sjálfur Hannes Hólmsteinn yrði ánægður með.
    2
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Þórarinn dregur þá fáránlegu ályktun af þessu samtali að Nuland hafi verið gefa einhverjar fyrirskipanir. Hér er verið að ræða möguleika, meira að segja í myndinni að tala við Janúkevitsj. Auðvitað vildi Bandaríkjamenn hafa áhrif á ferlið en það er ekki það og að þeir hafi verið á bak við Maidanuppreisninina.
      0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Bætti þessu við færsluna:
      Þórarinn virðist halda að símtal Victoriu Nuland við sendiherra BNA í Kænugarði sanni að Bandaríkjamenn hafi staðið á bak við uppreisnina. En þau ræða bara hvaða stjórnmálamenn sem þau telji best hæf til að veita landinu forystu.

      Sá sem þau mæltu með varð reyndar forsætisráðherra en sannar það að hann verið leppur BNA? I ofan á lag hefur forsetinn mun meiri völd í Úkraínu.

      Sjálfsagt hafa Bandaríkjamenn viljað aukin áhrif í Kænugarði, örugglega á kostnað Rússa og jafnvel ESB (Nuland segir "fck EU"!).

      En aukin áhrif eru ekki það sama og yfirráð.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu